Fara í efni

Lota 2 hefst með fleiri staðbundnum valáföngum

Um 90 nemendur eru skráðir í nám í Menntaskólann á Ásbrú á tveimur stúdentsbrautum. Í upphaf lotu 2 er gott að minna nemendur á mikilvægi þess að stunda námið vel. Námsráðgjafarnir Thelma og Þóra Kristín, Skúli áfangastjóri, Ingigerður forstöðumaður og kennarar MÁ veita faglega leiðsögn og aðstoð við námið og skipulag þess og eru til staðar fyrir nemendur til að aðstoða við hvaðeina sem upp kann að koma hvort sem það tengist félagslegum eða námslegum vanda. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að nýta sér þjónustu námsráðgjafa ef álagið verður mikið. Í MÁ vinna nemendur fjölbreytt verkefni ýmist í hópum eða sem einstaklingar. Einnig fara nemendur út úr húsi og taka þátt í ýmsum viðburðum á vegum atvinnulífsins, heimsækja fyrirtæki, listasöfn eða skóla. Í fyrri lotu heimsóttu nemendur EveFanfest í boði CCP, fóru á starfsgreinakynningu í Reykjanesbæ, héldu málþing um kynheilbrigði og fengu marga góða gesti í hús úr atvinnulífinu og frá ýmsum félagasamtökum. Í lotu 2 sem nú er að hefjast koma frumkvöðlar úr tölvuleikjaiðnaðnum í heimsókn, Samgöngustofa verður með fræðsluerindi og fulltrúi frá stéttarfélagi hittir nemendur og ræðir við þau um réttindi og skyldur. Það má einnig nefna það að búið er að ráða þjálfara fyrir Gettu betur liðið okkar og nemendafélagið, Örgjörvinn, er að undirbúa viðburði til efla félagsandann.

Nýung í MÁ í þessari lotu er að bjóða nemendum að velja um fleiri staðbundna valáfanga. Þeir áfangar sem eru í boði núna eru:

Animation HÖNN2UX05. Kennari Ingibjörg Lilja Guðmundsdóttir. Í áfanganum er farið yfir helstu atriði sem snúa að hugmyndavinnu, teikningu og vinnslu á grafísku efni fyrir margmiðlun. Nemendur nýta sér teikniforrit til að vinna áhrifaríkar teikningar sem hægt er að nýta fyrir hina ýmsu miðla.

Listir og menning LIME2ME05. Kennari Kristín Stella Lorange. Í áfanganum kynna nemendur sér listir og menningu samtímans og og skoða það með tilliti til merkingar og sögu. Kannaðir eru straumar og stefnur í íslenskri samtímamenningu og mismunandi möguleikar ólíkra list- og miðlunargreina til tjáningar.

Rafíþróttir RAFÍ2SH05. Kennari Geir Finnsson. Í áfanganum afla nemendur sér þekkingar á rafíþróttum og hvernig hægt er að kynna og spila rafíþróttir í nærumhverfi sínu. Nemendur prufa ólík hlutverk tengd rafíþróttum, t.d. að vera spilari, þjálfari eða skipuleggjandi. Einnig er áhersla lögð á heilsu rafíþróttamanna.

Tölvuleikir og sýndarveruleiki TÖLE1IG05. Kennari Hilmir Aron Kárason. Í áfanganum verður fjallað um tölvuleiki í víðu samhengi og skoðað hvernig tölvuleikir tengjast hinum ýmsu greinum. Markmiðið er að gefa nemendum dýpri innsýn í tölvuleiki, þróun þeirra og hlutverk í nútímasamfélagi sem áhugamál, iðnaður og listgrein.

Nemendum Menntaskólans á Ásbrú stendur einnig til boða að taka áfanga í fjarnámi, en til þess þarf að hafa samband við Skúla áfangastjóra. Áfangar sem eru í boði í fjarnámi eru t.d. afbrotafræði, bókfærsla, fjármálalæsi, heilbrigðisfræði, kvikmyndasaga, næringarfræði, sálfræði og sýklafræði.