Fara í efni

Eineltisáætlun

Ef þú telur að þú sért lagður í einelti, eða einhver sem þú þekkir, þá getur þú fengið aðstoð. Það er alltaf í lagi að hafa samband og biðja um hjálp, sama hvort þér finnst málið vera alvarlegt eða ekki.

Talaðu við þann sem þú treystir best. Fjölskylda, vinir eða samnemendur vita oft hvað er gott að gera og geta hjálpað manni að takast á við eineltið og/eða láta vita af því.

Kennarar, námsráðgjafar og annað starfsfólk skólans getur aðstoðað þig - hikaðu aldrei við að hafa samband og ræða málið.

Hjálparsími og netspjall Rauða krossins er opið allan sólarhringinn og þar er hægt að tala við fólk sem er þjálfað í að ræða við þá sem líður illa. Ekki þarf að gefa upp nafn og fullur trúnaður ríkir (nema tilkynningaskylda samkvæmt barnaverndarlögum gildi).

Fram kemur í siðareglum Keilis að nemendur og starfsfólk skuli koma fram hvert við annað af kurteisi og virðingu í öllum samskiptum. Einelti er ekki liðið við skólann. Ef upp kemur grunur um einelti innan skólans er tekið á þeim málum og þau sett í ákveðið ferli.

Markmið

 • Að til sé ákveðið ferli sem allir geta gengið að ef grunur leikur á einelti í skólanum.
 • Að stuðla að jákvæðum samskiptum milli nemenda og starfsfólks.

Skilgreining á einelti

Einelti er neikvætt og illgirnislegt atferli sem felur í sér endurtekið áreiti og/eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt. Eineltinu er stýrt af einstaklingi eða hópi, beinist að öðrum og stendur yfir í nokkurn tíma. Slík samskipti einkennast af ákveðnu ójafnvægi aflsmuna eða annars valds. Einelti getur birst á mismunandi hátt, m.a.:

 • sem stríðni,
 • sem hótanir,
 • sem útilokun,
 • í formi líkamlegs ofbeldis,

eða sem annað niðurlægjandi áreiti s.s.:

 • Niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis, kynhneigðar eða þjóðernis.
 • Niðurlægjandi eða lítilsvirðandi texti eða myndir í tölvupósti, sms eða öðrum samfélagsmiðli.
 • Fjandskap eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.
 • Óþægileg stríðni eða tilraun til fyndni á kostnað annarra.
 • Rógi eða meiðandi sögusögnum er komið af stað.
 • Útilokun frá félagslegum samskiptum.
 • Særandi athugasemdir.

Að þekkja einelti

Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis, en þau geta m.a verið þannig að einstaklingur:

 • Lýsir andúð á skólanum.
 • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.
 • Missir sjálfstraustið.
 • Einangrast félagslega.
 • Virðist óhamingjusamur, niðurdreginn, þunglyndur eða í andlegu ójafnvægi.
 • Þjáist af svefntruflunum.
 • Hefur þreytutilfinningu eða sýnir sljóleika.
 • Neitar að segja frá hvað amar að.
 • Sýnir miklar skapsveiflur, verður árásargjarn og erfiður viðureignar.
 • Kvartar undan vanlíðan á morgnana.

Ef upp kemur einelti eða annað ofbeldi í skólanum ber að tilkynna það til námsráðgjafa eða annars starfsmanns skólans sem viðkomandi nemandi eða starfsmaður treystir sér til að tala við. Viðkomandi starfsmanni ber svo að tilkynna málið til siðanefndar skólans. Siðanefnd vinnur að lausn málsins með viðbragðsáætlun til hliðsjónar.

Viðbragðsáætlun

Aðgerðaráætlun vegna eineltis [PDF]

Senda ábendingu um efni síðu