Fara í efni

Skólareglur

Reglur í Menntaskólanum á Ásbrú skiptast í þrjá flokka: I) Almennar reglur, II) Reglur um skólasókn og III) Reglur um nám og námsmat.

Reglur MÁ voru samþykktar í byrjun árs 2020 eftir umsagnarferli í fagteymi tölvuleikjagerðarbrautarinnar, framkvæmdastjórn Keilis og skólaráðs Keilis. Reglurnar hafa síðan þá farið í gegnum endurskoðunarferli og einstaka breytingar samþykktar hjá kennara- og stjórnendahópi. Síðustu breytingar voru samþykktar í september 2020.

Almennar reglur

 1. Sýna ber háttvísi og prúðmennsku í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans, hvort sem er í húsnæði, rafrænum kennslustofum eða á samfélagsmiðlum.
 2. Kennari stýrir fyrirkomulagi kennslustundar og nemendur skulu kynna sér verklag hans og fylgja því. Þetta gildir einnig um notkun farsíma og hvers kyns tækjabúnaðar.
 3. Öll meðferð og neysla tóbaks og vímuvaldandi efna er bönnuð í húsnæði, á lóð skólans og á vettvangi skólastarfsins. Sama gildir um notkun á rafrettum.
 4. Nemendum ber að ganga vel um kennslustofur, tækjabúnað og húsmuni. Neysla matar og drykkjar skal aðeins neyta í matsal. Allt rusl skal flokkað og sett í viðeigandi ílát.
 5. Myndatökur og/eða upptökur af nemendum, kennurum og öðru starfsfólki innan skólans eru óheimilar án leyfis viðkomandi aðila.
 6. Nemendur skulu fylgjast reglulega með tilkynningum í tölvupósti, á kennslukerfum, á heimasíðu skólans og auglýsingaskjám.

Kennara er heimilt að vísa nemendum úr tíma hlýti þeir ekki reglum. Skólareglur gilda einnig í öllum viðurkenndum ferðum á vegum skólans. Við brot á reglum er nemanda vísað til viðtals stjórnenda. Brot á reglum þessum geta varðað refsingu, s.s. brottvísun úr skóla.

Reglur um skólasókn

 1. Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega.
 2. Það telst seinkoma ef nemandi er ekki mættur þegar kennari er búinn að lesa upp eða skrá ástundun í upphafi kennslustundar.
 3. Nemendur bera ábyrgð á eigin mætingu og geta fylgst með ástundunarskráningu sinni í Innu. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við ástundunarskráningu þá verða þær að berast innan einnar viku til viðkomandi kennara.
 4. Foreldrar nemenda yngri en 18 ára skulu tilkynna veikindaforföll rafrænt í Innu samdægurs. Nemendur eldri en 18 ára skulu gera slíkt hið sama sjálfir.
 5. Öll fjarvera lækkar skólasóknarprósentu nemenda.

Sértækar ábendingar

 • Nemendur sem stríða við langvinn og/eða þrálát veikindi þurfa að skila læknisvottorði og tekið er sérstakt tillit til þessa vegna skólasóknar. Námsráðgjafi hefur milligöngu vegna slíkra tilvika.
 • Leyfi eru eingöngu veitt af skólameistara vegna eftirfarandi aðstæðna:
  - dauðsfall í nánustu fjölskyldu
  - ferðir/æfingar á vegum landsliða í íþróttum
  - æfingar/leitir á vegum björgunarsveita
 • Nemendum eru ekki reiknaðar fjarvistir vegna viðurkenndra ferða á vegum skólans.
 • Öll leyfi eða vottorð eru tekin til skoðunar og skráð af skólameistara.
 • Tvisvar á önn eru fjarvistayfirlit sérstaklega send nemendum í tölvupósti – og foreldrum / forráðamönnum í tilfelli nemenda yngri en 18 ára. Við ágreining vegna ástundunarskráningar geta nemendur og kennarar skotið vafaatriðum til úrskurðar skólameistara.

Eining fyrir skólasókn

Þeir nemendur sem eru með 95% mætingu eða hærra eftir önnina, fá eina einingu fyrir mætingu. Sú eining getur nýst upp í þær einingar sem taka þarf í óbundnu vali og er þá á 1.þrepi.

 

Reglur um nám og námsmat

Framhaldsskólaeining

Framhaldsskólaeiningar eru skilgreindar út frá vinnuframlagi nemenda. Ein framhaldsskólaeining samsvarar 18-24 klst vinnu meðal nemanda, það er að segja þriggja daga vinnu nemenda ef gert er ráð fyrir sex til átta klukkustunda vinnu að meðaltali á dag. Innifalið í þessari mælingu er tímasókn nemandans, heimavinna, námsmatsundirbúningur og þátttaka í námsmati. Fullt ársnám nemenda er 66-68 einingar og er þá miðað við 180 daga skólaár. Einingafjöldi áfanga sést í tveimur síðustu tölustöfum í áfanganúmerinu.

Einingafjöldi

 1. Fullt nám á önn telst vera 33-35 einingar. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef ríkar ástæður eru til.
 2. Nemandi skal ljúka námi sem nemur 25 einingum á önn hið minnsta. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef um er að ræða:
  - sértæka erfiðleika í námi, s.s. fötlun eða röskun
  - lokaönn í námi
 3.  Ef nemandi lýkur færri en 10 einingum á önn telst námsframvinda hans óviðunandi og er honum vísað úr skóla.

Skráning og úrsögn nemenda úr áföngum

Nemandi ber ábyrgð á eigin námi, þar með talið skráningu og því að skráning sé í samræmi við kröfur viðkomandi námsbrautar og í samræmi við reglur um framvindu og undanfara áfanga. Á fyrstu kennsluviku hverrar annar getur nemandi skráð sig í áfanga. Nemandi getur skráð sig úr áfanga á fyrstu tveimur vikum námslotu með tölvupósti til áfangastjóra. Að beiðni nemanda geta námsráðgjafar veitt heimild til að skrá sig úr áföngum þó framangreindir frestir séu liðnir ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Meðal ástæðna sem talist geta gildar eru veikindi eða slys.

Valáfangar á stúdentsbraut

Til að útskrifast af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð þarf nemandi að ljúka a.m.k. 6 áföngum í óbundnu vali. Nemendur geta nýtt sér Hlaðborð Keilis til að ljúka þeim áföngum, en hlaðborðsáfangarnir eru alfarið í fjarnámi og gera kröfu um sjálfstæð vinnubrögð nemandans. Nemendur byrja í valáfanga í upphafi annar og þurfa að hafa lokið honum fyrir lok annarinnar. Vilji nemandi ljúka fleiri en einum valáfanga á sömu önn getur hann óskað eftir því við áfangastjóra, enda hafi hann sýnt fram á árangur í fyrri áföngum. Í slíkum tilvikum getur áfangi jafnvel náð yfir jóla- eða sumarfrí.

Um námsframvindu, hámarksnámstíma, mat á fyrra námi

Hefðbundinn námstími til stúdentsprófs er 3 ár og þarf nemandi að taka u.þ.b. 34 fein. á önn til að ljúka á þeim tíma. Nemendur velji áfanga í samráði við náms- og starfsráðgjafa með aðgangsviðmið háskólanna og þrepaskiptingu áfanga samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskólanna til hliðsjónar.

Hægt er að setja upp námsferil nemenda sem spannar lengra tímabil en þrjú ár. Sérhver beiðni um slíkt er skoðuð af námsráðgjafa í samstarfi við nemanda og/eða forráðamenn og í kjölfarið er tekin ákvörðun um sérsniðinn námsferil sem talinn er efla nemandann.

Nemandi sem lokið hefur framhaldsskólaeiningum úr öðrum viðurkenndum framhaldsskólum, eða menntastofnunum með leyfi til kennslu á framhaldsskólastigi samkvæmt gildandi Aðalnámskrá, skal fá úrskurð um það hvort þær einingar fáist metnar og í ef svo er þá verða þær skráðar í námsferil nemenda.

Sértæk úrræði í námi

Nemanda sem óskar eftir sértækum úrræðum í námi ber að skila umsókn til námsráðgjafa Keilis. Nemandi getur sótt um sérúrræði í námi, skili hann inn vottorði/greiningu frá viðurkenndum fagaðilum.

Um einstaka námsmatsþætti og einkunnir

 • Kennara er heimilt að krefjast þess að tilteknir liðir í áfanga séu leystir af hendi á fullnægjandi hátt til þess að nemandi teljist hafa lokið áfanganum. Slíkar kröfur verður að tilkynna í upphafi námskeiðs og kallast lykilmatsþættir.

 • Tryggja skal að í námi og námsmati í einstökum faggreinum reyni á alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af viðmiðum í aðalnámskrá.

 • Lykilmatsþættir, s.s. lokaverkefni mega að hámarki gilda samtals 30% af heildarnámsmati. Skrifleg lokapróf eru ekki notuð við MÁ.

 • Einkunnir úr einstaka námsþáttum eiga að liggja fyrir eigi síðar en sjö virkum dögum eftir skiladag. Fresturinn fyrir munnleg verkefnaskil og námsmat er tveir virkir dagar.

 • Kennari skráir lokaeinkunnir inn á Innu þar sem þær eru vistaðar og áfanga er lokað. Menntasvið áskilur sér rétt til að fresta birtingu lokaeinkunna þar til síðasta námsmatsverkefni hefur verið þreytt á viðkomandi námsbraut/námsári.

 • MÁ leggur áherslu á fjölbreytt námsmat. Kennarar í áfanga eru ábyrgir fyrir þeim námsmatsþáttum sem lagðir eru fyrir í áfanganum og samsetningu lokaeinkunnar. Gefin er ein lokaeinkunn fyrir hvern áfanga sem nemandi er skráður í.

 • Ef einkunn er samsett úr fleiri en einum hluta skal gera grein fyrir vægi hvers hluta áður en verkefnavinna hefst.

 • Allir þættir námsmats eiga að hafa skýr tengsl við lærdómsviðmið áfanga og endurspegla þær áherslur sem lagðar eru í einstökum áföngum.

 • Vægi einstakra þátta í námsmati skal koma fram á kennsluáætlun sem birt er í bæði Innu og Canvas í upphafi áfanga.

Einkunnagjöf

Einkunnir eru oftast gefnar í heilum tölum frá 1 til 10. Einkunnin 10 vísar til þess að 95–100% markmiða hafi verið náð og 5 til þess að 45–54% markmiða hafi verið náð. Lágmarkseinkunn í áfanga er 5. Nemandi telst ekki hafa staðist áfanga þegar einkunn er lægri og í tilvikum þar sem áfanginn sem nemandi hefur ekki staðist er undanfari annars áfanga, fær nemandinn ekki að taka næsta áfanga á eftir.

Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvær slíkar einkunnir á útskriftarskírteini. Þessir áfangar gefa ekki einingar og verður nemandi því að afla annarra eininga í stað þeirra til að ná tilskyldum 200 einingum.

Ef fall í einum áfanga á lokaönn kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast fær hann tækifæri til þess að fara í endurtöku próf eða verkefni í þeim áfanga. Nemandinn öðlast ekki þennan rétt fyrr en ljóst er að hann hafi náð fullnægjandi árangri í öðrum áföngum á lokaönn. Nemendur eiga almennt ekki rétt á endurtektarprófi í símatsáföngum ef í áfangalýsingu eða kennsluáætlun, sem nemendur fá í upphafi annar, er skýrt tekið fram að námsmatið byggist á símati sem nemendur verði að standast.

Um skil nemenda á verkefnum

Í námskeiði setur kennari reglur um skilafrest verkefna í upphafi annar og ber nemanda að skila verkefni áður en frestur er útrunninn. Kennari hefur ekki heimild til þess að taka við verkefni sem skilað er of seint. Nemandi hefur möguleika á því að sækja um að skila verkefni seint með beiðni í tölvupósti til skólastjóra. Í beiðni um sein skil þurfa að koma fram eftirfarandi atriði:

a) fullt nafn og kennitala nemanda, áfangaheiti, heiti kennara, heiti verkefnis sem um ræðir, vægisprósenta verkefnis og upphaflegur skilafrestur

b) ítarleg ástæða þess að skilafrestur var ekki virtur.

Sækja skal um slíkt í síðasta lagi þremur virkum dögum eftir upphaflegan skilafrest. Ekki er hægt að sækja um lengdan skilafrest þegar lotuskilavika er hafin.

Vanti upplýsingar í beiðnina mun það valda seinkun á meðhöndlun. Beiðnum er svarað innan fimm virkra daga. 

Áhrif þess að nemandi ljúki ekki einstaka námsmatsþáttum

Nemandi, sem ekki sinnir námsmatsþáttum þar með talið sjúkra- eða endurtektarnámsmati, eða skilar ekki verkefni sem er hluti af námsmati fær einkunnina núll fyrir viðkomandi námsmatsþátt. Ef um lykilnámsmatsþátt áfanga er að ræða fær nemandi einkunnina núll í áfanganum.

Heilindi í verki

MÁ gerir þá kröfu til nemanda að öll verkefni sem hann skilar séu hans eigið hugverk. Í því felst meðal annars að hann vinni verkefnið sjálfur frá grunni, án aðstoðar annarra, og taki aldrei upp texta eða vinnu annarra og setji fram sem sitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka.

Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan áfanga, milli áfanga eða milli námsbrauta er óheimil, nema í samráði við viðkomandi kennara.

Kennara er heimilt að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að nemendur megi ekki vinna saman að verkefnum, og gerir hann þá skriflega grein fyrir því í verkefnislýsingu. Sama á við í hópverkefnum; verkefnið skal vera unnið af hópnum frá grunni, án aðstoðar annarra, og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð.

MÁ gerir þá kröfu að nemandi leggi sig ávallt fram í hópstarfi og gæti þess að framlag hans sé sambærilegt á við hina í hópnum. Kennari hefur heimild til að gefa einstaklingum í hópi mismunandi einkunn ef ljóst þykir að framlag þeirra hefur verið verulega ójafnt. Í hópverkefnum hefur hópurinn möguleika á að skipta með sér verkum, þó þannig að vinnuframlag einstakra hópmeðlima til verkefnisins sé sambærilegt. Allur hópurinn er þó eftir sem áður ábyrgur fyrir heildarverkinu.

Almennt um próftöku

 1. Nemanda sem þreytir próf á tölvu er aðeins heimilt að nota þann hugbúnað/forrit sem er tilgreindur af kennara. Nemanda er óheimilt með öllu að nota samskiptaforrit, samskiptatæki eða annan hugbúnað/forrit nema þann sem er tilgreindur meðan á próftöku stendur. Aðeins er leyfilegt að vista prófgögn á það svæði sem umsjónarmaður prófs tilgreinir.
 2. Yfirgefi nemandi tölvu meðan á prófi stendur, t.d. vegna ferðar á salerni, ber honum að ganga þannig frá tölvu að prófúrlausn sé ekki sýnileg öðrum á skjánum.
 3. Nemandi ber alfarið ábyrgð á að vista gögn reglulega og skila inn tímanlega við lok prófs. Noti nemandi eigin tölvu við úrlausn prófs áskilur kennari sér rétt til að skoða þau gögn og forrit/hugbúnað sem eru á tölvunni og eru notuð við úrlausn prófs. Einnig áskilur kennari sér rétt til að skoða annan hugbúnað á tölvunni og notkun hans. Nemendum, sem þreyta próf á tölvur, er hleypt inn í prófstofu 15 mínútum áður en próf hefst.
 4. Nemendum sem þreyta munnlegt próf er óheimilt að ræða sín á milli eða á annan hátt skiptast á upplýsingum um efni prófs á meðan á því stendur.

Endurtaka námsmatsþátta og áfrýjunarréttur nemenda

Sjúkra- og endurtektarréttur vegna einstakra námsmatsþátta:

 1. Kennari ber ábyrgð á útfærslu alls námsmats. Upplýsingar um fyrirkomulag þess skal liggja fyrir í upphafi námskeiðs, þ.á.m. hvernig sjúkra- og endurtektarmöguleikum er háttað séu þeir til staðar.
 2. Endurtökumöguleiki t.a.m. vegna veikinda er að jafnaði haldinn í lotuskilaviku. Sjúkra- og endurtektarverkefni koma í stað eins eða fleiri lykilmatsþátta en einkunnir fyrir aðra námsmatsþætti standa óbreyttar. Nemandi sem mætir í sjúkra- og endurtektarverkefni og nær ekki lágmarkseinkunn eða er veikur á báðum tímasetningum, hefur ekki frekari verkefnatökurétt. Nemandinn verður því að sitja áfangann aftur til að fá hann metinn til eininga.
 3. Nemandi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati námsmatsþátta sem gilda 20% eða meira af heildarnámsmati ef hann æskir þess innan fimm daga frá birtingu einkunnar. Kennari skal verða við beiðni nemanda innan sjö virkra daga.
 4. Nemandi sem hefur ekki staðist námsmatsþátt og unir ekki mati kennara á skriflegri úrlausn getur kært matið til Menntasviðs. Framangreind heimild tekur til allra námsmatsþátta þar sem nemandi hefur ekki náð lágmarkseinkunn og gilda að lágmarki 20% af lokaeinkunn í áfanga eða ef um lykilmatsþátt er að ræða. Það er háð því skilyrði að viðkomandi hafi skoðað úrlausn sína með kennara áður en kæra er send inn. Skal kæran lögð fram skriflega innan þriggja virkra daga frá próf- eða verkefnasýningu og send til Menntasviðs Keilis.