Fara í efni

Námsráðgjöf

Meginhlutverk náms- og starfsráðgjafar er að veita nemendum margvíslegan stuðning í námi og er markmið hennar að stuðla að aukinni vellíðan og árangri nemenda.

Fátt mannlegt er náms- og starfsráðgjafanum óviðkomandi. Hann ber virðingu fyrir þér sem persónu og hlustar af athygli. Hann segir þér ekki hvað þú átt að gera en aðstoðar þig við að finna þínar leiðir.

 • Ráðgjöf um vinnubrögð og námstækni
 • Að veita nemendum persónulega ráðgjöf
 • Ráðgjöf og úrræði vegna fötlunar eða sértækra námsörðugleika
 • Upplýsingagjöf um námsleiðir og störf til núverandi og verðandi nemenda skólans
 • Starfsráðgjöf og ráðgjöf um gerð atvinnuumsókna
 • Að efla sjálfsþekkingu nemenda með viðtölum og verkefnum

Námsráðgjafar Keilis eru boðnir og búnir til þess að aðstoða tilvonandi nemendur við val á námi. Við hvetjum því þá sem eru óvissir um stöðu námsferils, hvort þeir uppfylli inntökuskilyrði eða hafa aðrar spurningar til að hafa samband og fá aðstoð.

Hafa samband við námsráðgjafa

Sérúrræði

Keilir býður nemendum með sértæka námsörðugleika velkomna til náms í skólanum. Skólinn leggur áherslu á að veita nemendum sérstaka þjónustu til að ná árangri í námi. Helstu úrræði sem i boði eru:

 • Stuðningsviðtöl við námsráðgjafa
 • Lengdur próftími
 • Breytt letur / stækkað letur
 • Talgervill
 • Próftaka á tölvu
 • Meira næði, sérstofa fyrir nemendur með lengri próftíma

Hafi nemandi grun um sértæka námsörðugleika skal viðkomandi hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem munu hafa milligöngu um greiningu sé þess óskað.

Lesblinda

Í stuttu máli má segja að dyslexía eða lesröskun sé heiti yfir námsörðugleika sem koma fram þegar unnið er með talað eða ritað mál. Vandamál geta komið fram í lestri, stafsetningu, tjáningu eða hlustun. Dyslexía er ekki sjúkdómur. Þeir sem greinast með dyslexíu eru yfirleitt hæfileikaríkir einstaklingar sem læra á annan hátt en almennt gerist. Greind þeirra er ekki vandamálið. Það er mismunur á milli námshæfileika þeirra og námsárangurs sem ekki á sér augljósar skýringar.

Orsakir dyslexíu er að finna í uppbyggingu og starfsemi heilans. Hver einstaklingur er sérstakur, sérhver á sér sínar sterku og veiku hliðar. Þessir nemendur sýna oft sérstaka hæfileika á sviðum sem krefjast samþættingar sjónskynjunar, rúmskynjunar og hreyfinga. Margir með dyslexíu hafa einstaka hæfileika á sviðum eins og í listum, íþróttum, húsagerðarlist, rafeindatækni og verkfræði.

Það sem er þeim sameiginlegt er að eiga í vandræðum með tungumálið. Það merkir að þeir sem greinast með dyslexíu eiga í erfiðleikum með að umskrá málið yfir í hugsun (þegar verið er að hlusta eða lesa) eða hugsun yfir í tungumálið (eins og við stafsetningu, ritun og munnlega tjáningu). ©Elín Vilhelmsdóttir

Úrræði í námi vegna sértækra námsörðugleika

Náms-og starfsráðgjöf skólans hefur yfirumsjón með sérúrræðum og skal nemandi sem óskar eftir slíku gefa sig fram við námsráðgjafa. Vegna allra sérúrræða skal nemandi skila inn greiningu eða vottorði frá þar til bærum aðila.

Ef um sérúrræði á námstíma er að ræða, þarf að skila viðeigandi gögnum strax í fyrstu kennsluviku. Ef um sérúrræði í prófum er að ræða skal skila í síðasta lagi mánuði fyrir próf svo hægt sé að útbúa samning um úrræði. Sé gögnum skilað eftir þennan tíma er ekki öruggt að náist að ganga frá sérúrræðum. Því er áríðandi að nemendur virði þessi tímamörk.

Námskeið

Ýmis styttri og lengri námskeið um ofangreind efni eru í boði, auglýst sérstaklega hverju sinni. Gefið ykkur tíma til að sækja námskeið til að skerpa á námstækninni og auka þannig afköst og árangur, það er fljótt að skila sér.

Námstækni og námsvenjur

Það er mikilvægt að tileinka sér góðar námsvenjur og að hver og einn átti sig á námsvenjum sínum. Námstækni er ákveðið hjálpartæki sem auðveldar nemendum að tileinka sér nýja þekkingu. Góð námstækni veitir nemendum aðhald og er tæki til tímasparnaðar. Sjálfsagt er að nota áfram þær námsaðferðir sem reynst hafa vel, en endurskoða þær sem betur mega fara. Mikilvægt er að taka lítil skref og ætla sér ekki of miklar breytingar í einu.

Gott skipulag, markmiðssetning og jákvætt hugarfar er grunnurinn að góðri námstækni.

Glósutækni

Í kennslustund er mikilvægt að fylgjast vel með og reyna að taka niður góðar glósur. Þess ber þó að gæta að skrifa ekki allt of mikið niður á kostnað hlustunar og skilnings.

Svokölluð Cornell - glósuaðferð hefur nýst mörgum mjög vel. Hún felst í því að þú skiptir blaðsíðunni niður eftir endilöngu í tvo dálka. Í hægri dálkinn skrifar þú nokkuð ítarlegar glósur í eigin orðum, en í þann vinstri skrifar þú lykilorð.

 • Hafðu gott bil á milli efnisatriða, ekki skrifa báðum megin á blaðið.
 • Notaðu skammstafanir og stikkorð og ekki hafa áhyggjur af stafsetningu í glósum,
 • Notaðu skýringamyndir og tákn, teiknaðu og litaðu að vild.
 • Skrifaðu niður allt það sem kennarinn skrifar upp á töflu eða hann endurtekur og gefur til kynna að efnið sé mikilvægt.
 • Lestu yfir glósurnar eins fljótt og hægt er eftir hverja kennslustund. Settu inn lykilorð, skrifaðu niður spurningar sem vakna, merktu við vafaatriði og áhugavert efni.
 • Lestu glósurnar vel fyrir próf. Því meira sem þú vinnur með efnið því betra. Búðu til glósur úr glósunum, það er dragðu saman aðalatriðin. Gerðu hugarkort, spurningar og fleira.

Lestrartækni

Ein óskilvirkasta aðferðin við lestur námsbóka er að lesa án þess að vinna neitt frekar með efnið. Þegar verið er að lesa yfir námsefnið er gott að hafa eftirfarandi í huga.

 • Að líta yfir námsefnið (skima)
  Byrjaðu á því að „skima” námsefnið til að gera þér grein fyrir um hvað textinn fjallar. Gott er að skoða fyrirsagnir, millifyrirsagnir, samantekt, spurningar úr kaflanum, myndir, gröf og línurit. Einnig er gott að skoða þau orð sem eru undirstrikuð og feitletruð.
 • Lestur á texta
  Þegar þið lesið, ekki lesa bara línu eftir línu. Finnið skilvirka leið sem virkar, t.d. strika undir eða yfir aðalatriðið í setningunni eða málsgreininni, þó ekki of mikið. Lesið með tilgang í huga og vekið upp spurningar úr hverjum kafla og reynið að finna svörin og skrá þau niður. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir aðalatriðum og skrifa þau niður. Þegar lestrinum er lokið þarf að spyrja sig um hvað var ég að lesa og skildi ég námsefnið?
 • Upprifjun

  Til að muna námsefnið er regluleg upprifjun nauðsynleg. Það þarf helst að lesa yfir glærur og glósur innan 24 tíma. Spurningar og samantekt úr námsefninu hjálpa til við að rifja upp aðalatriðin. Rifjaðu aftur upp innan viku, eftir mánuð og svo aftur rétt fyrir próf.

Tímastjórnun

Þeir sem skipuleggja tíma sinn vel gengur yfirleitt vel í námi. Í hverri viku eru 168 klukkustundir. Það er að miklu leyti undir okkur sjálfum komið hvernig við notum þann tíma. Hvernig við nýtum tímann er oft vani sem getur reynst erfitt að breyta. Því er nauðsynlegt að byrja á því að athuga hvernig við notum tímann áður en við gerum áætlun um hvernig við ætlum að nýta hann.

Dagbókarskráning hjálpar þér til að skoða hvernig þú notar tímann þinn. Hún felst í því að þú skráir nokkuð nákvæmlega hvernig þú eyðir tíma þínum í eina viku s.s. hversu mikil tímasókn er hvern dag, hversu mikill tími fer í heimalærdóm, hvað áhugamálin eða fjölskyldan taka mikinn tíma og o.s.frv.

Það að gera dagbókarskráningu gerir þig meðvitaðan um í hvað þú verð tíma þínum. Þegar þú ert búin að skrifa dagbók í viku getur þú farið að gera tímaáætlun. Þá byrjarðu á því að setja inn á vikuáætlun alla fasta þætti, s.s. fyrirlestra, verklega tíma, matartíma, áhugamál o.s.frv.

Næst áætlarðu vikulega yfirferð í hverju fagi, en þó alltaf með heildina í huga. Skiptu þeim tíma sem er til ráðstöfunar niður á milli faga til heimanáms. Eyðublöð og aðstoð er hægt að nálgast hjá náms- og starfsráðgjafa.

Prófaundirbúningur

Próftímabil einkennast af miklu álagi sem nemendur valda misvel. Bætt vinnubrögð og árangursrík námstækni geta dregið úr álagi í námi og á próftímabilum og komið í veg fyrir streitu og kvíða. Mjög mikilvægt er að vera búin að lesa allt efnið jafnt og þétt yfir önnina, þannig að prófundirbúningurinn felist fyrst og fremst í upprifjun og skipulagsvinnu.

Þú þarft að forgangsraða verkefnum og velta fyrir þér hvað þarf að leggja mesta áherslu á og hverju má sleppa. Það er nauðsynlegt að skoða kennsluáætlanir og fá upplýsingar hjá kennara um þetta. Byrjaðu svo á því að finna allar bækur, verkefni og próf sem þú þarft að nota við upprifjunina.

 • Gerðu nákvæma áætlun um lestur og upprifjun. Hvað þú ætlar að lesa og hvenær. Ekki ætla þér of langa vinnulotu í einu.
 • Finndu góðan stað þar sem þú getur unnið í friði. Misjafnt er hvað hentar hverjum og einum, en aðstæður sem ýta einna helst undir nám eru lesstofur eða sérstök vinnuherbergi.
 • Þegar þú lest yfir námsefnið reyndu þá að draga saman í færri atriði og glósa það. Hugsaðu um efnið sem lesið er. Búðu til spurningar úr efninu í huganum um leið og þú lest yfir.
 • Uppbyggilegt sjálfstal, hreyfing, góður svefn og hollt mataræði eru allt atriði sem skipta miklu máli á próftímabilum.

Nám og störf

Að velja rétt nám og starf getur verið erfitt fyrir marga. Náms- og starfsráðgjafi Keilis veitir upplýsingar um þær námsleiðir sem eru í boði við skólann og aðstoðar fólk við val á námi og starfi.

Nám erlendis

Þegar velja á nám erlendis er að mörgu að hyggja og það getur sparað mikla fyrirhöfn og mikinn tíma að leita á réttum stöðum til að fá upplýsingar og aðstoð.

Háskólar á Íslandi

Vinnumiðlanir

Gagnlegt efni

 • Nemendaþjónustan
  Námsaðstoð fyrir nemendur á öllum skólastigum
 • Lesblind.is
  Býður upp á Davis greiningu og Davis lesblinduleiðréttingu
 • adhd.is
  ADHD samtökin. Upplýsingar um allt sem snýr að ADHD og ADD
 • Rasmus
  Kennsluvefur í stærðfræði fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum
 • Fjarkennsla.is
  Býður upp á mikið úrval kennsluefnis í fjarkennslu
 • IÐAN fræðslusetur
  Upplýsingar um nám og störf
 • Doktor.is
  Upplýsingar um heilsufar, hollustu, sjúkdóma, lyf og fleira
 • Geðhjálp
  Hagsmunasamtök þeirra sem eiga eða hafa átt við geðraskanir að etja og aðstandendur þeirra
 • Sálfræðivefurinn Persona.is
  Upplýsingavefur um andlega líðan
 • lingo.is
  Háskólanám erlendis á sviði skapandi greina
 • Lausnin.is
  Sjálfsræktarsamtök
 • Al-anon.is
  Von og hjálp fyrir fjölskyldur og vini alkahólista
 • Menntagatt.is
  Veitir greiðan aðgang að þjónustu og upplýsingum á netinu sem varða skólastarf, s.s. um námsefni, námskrár, erlent samstarf, styrki og ráðstefnur