Menntaskólinn á Ásbrú hefur frá upphafi haft þá stefnu að vera í fremstu röð varðandi kennsluhætti og aðbúnað. Við gætum þess að vera stöðugt að þróa námið til að tryggja að nemendur stundi nám sitt við bestu mögulegu aðstæður
Tölvubúnaður
Nemendur þurfa að hafa fartölvu til umráða í náminu. Lágmarks hugbúnaðarkröfur fyrir fartölvur eru æskilegar:
- Intel i5-11300H 4.5GHz Turbo 4-Kjarna eða sambærilegt
- 16GB DDR4 2933MHz vinnsluminni
- 512GB SSD hraðvirkur diskur
- GTX 1650 6GB GDDR6 leikjaskjákort
Nauðsynlegt er að hver og einn hafi mús með þremur tökkum (eða tveimur tökkum og skrunhjóli). Vinsamlegast athugið að í fartölvur keyptar erlendis eru sumar ekki með < > | takka sem eru mikið notaðir í forritun og því nauðsynlegir.
Einnig ráðleggjum við nemendum að hafa góð heyrnatól með míkrafón og góða vefmyndavél.
Aðstaðan
Aðferðafræði vendinámsins kallar á að sú aðstaða sem nemendum stendur til boða sé hugsuð á nýjan hátt. Kennslustofur og vinnurými eru hönnuð með það að leiðarljósi að nemendum líði vel við námið. Nemendur geta t.d. valið hvort þeir sitji í sófa, á bekk, liggi á grjónapúða, standi við hærri borð eða setjist við hefðbundinn skólaborð. Æskilegt er að nemendur færi sig reglulega til í rýminu til að halda einbeitingu og passa upp á heilsuna.
Námsgögn
Í MÁ er reynt eftir fremsta megni að nýta rafræn kennslugögn og helst það sem er opið öllum t.d. á netinu (e. open source). Í einhverjum tilvikum þurfa nemendur þó að kaupa kennslubækur, rafbækur, aðgengi að námsvef, leikhúsmiða eða annað í þeim dúr. Kostnaði við námsgögn er haldið í lágmarki og er mun lægri en almennt gerist í framhaldsskólum.
Staðsetning og samgöngur
Menntaskólinn á Ásbrú er staðsettur í aðalbyggingu Keilis að Grænásbraut 910 í Reykjanesbæ (sjá kort). Frá höfuðborgarsvæðinu eru örar strætóferðir alla virka daga og leið 55 stoppar beint fyrir utan skólann. Nemendur geta keypt sér annarkort í strætó og margir geta nýtt sér jöfnunarstyrki Menntasjóðs námsmanna til að niðurgreiða fargjöldin.
Skipulag námsins
Nýrri nálgun í kennsluháttum og aðbúnaði fylgir jafnframt önnur hugsun varðandi uppbyggingu og skipulag námsins. Þar er átt við þætti á borð við skipulag annarinnar, stundatöflur og námsmat svo eitthvað sé nefnt.