Fara í efni

Leikjaherbergið

Nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð búa að jafnaði til einn tölvuleik á önn í áfanganum Tölvuleikjagerð. Þar fá þeir grunn hjá kennurum sem þeir svo byggja ofan á en til þess notast þeir við forritið Unity. Hönnun, saga og framvinda leiks er með öllu í höndum nemenda.

Hér ætlum við að veita stafrænum gestum og gangandi tækifæri til þess að prófa leiki nemenda. Leikirnir eru allir birtir með leyfi höfunda og biðjum við gestkomandi að koma fram við hugverk þeirra af virðingu.

Til þess að stýra flestum leikjum þarf annað hvort að notast við WASD hnappa lyklaborðsins eða örvahnappana ásamt bilstönginni. 

Hafa samband


Safety works

Leikurinn Safety Works hlaut verðlaun fyrir besta leikinn í samstarfsverkefni við Vinnuverndarskóla Íslands, VÍS og Grundafjarðarbæ í gerð á leikjavæddu kennsluefni í vinnuskólum.

Í leiknum setur þú þig í spor starfsmanns í vinnuskóla sem þarf að finna verkefni sem hann má vinna, hvaða tæki og tól hann þarf til verksins og framkvæma þau svo. Leikurinn er gerður af Matt, Darel, Halldóri og Aðalbirni.

 

Spila Safety Works


Sword of Sakura

Þú ert stríðskona sem ferðast í gegnum ríki kirsuberjatrjáa (j. sakura) og safnar upp kröftum (e. power-ups) til þess að berjast í lokabardaganum (e. final boss fight) og bjarga heiminum

Leikurinn var unninn sem hluti af samstarfsverkefni við tölvuleikjaframleiðandann Solid Clouds þar sem hann hlaut verðlaun fyrir bestu leikjahönnunina. Höfundar leiksins eru þau Hrefna, Hrafnkell og Jón Ingi. Jón Ingi fór með verkefnastjórnun og sá um tónlistina meðan Hrefna sá um listræna stjórnun og Hrafnkell leiddi forritun og leikjahönnun.

Spila Sword of Sakura


Hideout

Við kynnum með stolti fyrsta fjölspilunarleikinn sem framleiddur hefur verið við Menntaskólann á Ásbrú - Hideout. Hala þarf leiknum niður (e. download) til spilunar.

Leikurinn var unninn sem hluti af samstarfsverkefni við tölvuleikjaframleiðandann Solid Clouds af Stefán Inga, Stubb, Styrmi og Aron Birgi. Aron Birgir leiddi forritun leiksins meðan Stubbur fór með listræna stjórnun og Styrmir stýrði leikjahönnuninni. Sérstakar þakkir fær Kári Snær fyrir að tala inn á leikinn. 

 Hala niður Hideout


Sparphalnar

Ribbaldar ráðast á ólmir á námuvagninn þinn, þú myndir kannski ekki þurfa að hafa of miklar áhyggjur nema fyrir það að herinn þinn af sérhæfðum apastríðsmönnum neitar að berjast nema fá greitt fyrirfram. Því þarftu að safna upp nægu fé til þess að kaupa þjónustu hvers þeirra og koma fyrir í turnunum áður en ribbaldarnir gera út um námureksturinn þinn fyrir fullt og allt.

Sparphalnar ber einstaklega þjált nafn og vann til verðlauna fyrir bestu leikjaupplifunina í samstarfsverkefni við Solid Clouds. Leikurinn er gerður af þeim Adrian Þórð og Kristján Alex sem stunda nám á öðru ári í tölvuleikjagerð.

 Spila Sparphalnar


Happy farmer

Þú ert hamingjusamur bláhærður bóndi að hefja bú á fallega grænu engi. Þú þarft að plægja akur og rækta hann til þess að kaupa og síðar fæða búdýrin þín. Leikurinn er sérlega ávanabindandi svo ekki er mælt með leiknum þurfi leikmaður að koma miklu í verk næstu klukkutímana.

Leikurinn hlaut verðlaun í samstarfsverkefni við CCP fyrir frumlegustu hönnunina sem og bestu heildar upplifunina. Hann var hannaður af Aron og Viktoríu á þriðju önn þeirra á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

 Spila Happy Farmer


Blown'up

Hefur þig einhverntíman langað að bregða þér í líki kakkalakka og keppast við að éta nammi og sprengja vin þinn í tætlur? Við ætlum ekki að dæma sérkennilega drauma þína en nú hefurðu í það minnsta færi á að gera þá að raunveruleika. Leikurinn er keppnisleikur fyrir tvo aðila (e. two player game). Einn spilari stýrir með WASD hnöppum og bilstönginni meðan hinn stýrir með örvahnöppunum og enter.

Leikurinn var gerður af Lovísu og Stefán Inga í samstarfsverkefni við CCP og hlaut hann þar verðlaun fyrir að vera skemmtilegasti leikurinn.

Spila Blown' Up


Goblin goblin

Þú ert Svartálfur í ríki rauðhærðra ribbalda, besti vinur þinn er týndur - vonandi ekki tröllum gefinn. Þú ferðast frá einum enda heimsins til annars í leit að vini þínum, yfir vatnið og í gegnum hraunið. Þú notar alla krafta sem þú hefur, gengur jafnvel svo langt að nota eigið nef fyrir haka. Munt þú finna svartálfsfélagann áður en verður um seinann?

Leikurinn var gerður af Magnúsi Viðari á sumarnámskeiði í tölvuleikjagerð árið 2020 og einnig fyrsti leikurinn í leikjaherberginu.

 Spila Goblin Goblin


Goblin Goblin 2

Sko, ég reyndi að vera voða næs með þennan félaga þinn þarna áðan en hann virðist annað hvort heldur vitlaus eða bara óforskammað dusilmenni að reyna að forðast þig. Í Goblin Goblin 2, langþráðu framhaldi Goblin Goblin, ferðastu að nýju í gegnum ríki rauðhærðu ribbaldanna, í gegnum eitrað sýki, hrynjandi hella og mýmargar hindranir til þess að bjarga þessum vini þínum sem er þér svo kær þó við skiljum ekki alveg hvers vegna.

Magnús Viðar byggði ofan á hugmyndavinnu sína frá sumarnámskeiðinu á fyrstu önn sinni í tölvuleikjagerð og úr varð Goblin Goblin 2.

Spila Goblin Goblin 2


Super elvis

Hefur þú einhverntíman velt því fyrir sér hvað gerðist ef Mario hefði tekið eina eða tvær öðruvísi beygjur í lífinu og endað sem mjaðmahnykkjandi rokkstjarna fremur en auðmjúkur pípari? Í Super Elvis bregður þú þér einmitt í gervi Elvis og Elvis sér í gervi píparans valinkunna. Þú þarft að koma þér í gegnum hóp af rockabilly sveppum, framhjá eitruðum mannætuplöntum sem enginn skilur hvernig komust í lagnakerfið og yfir á hinn endann.

Guðjón Ingi gerði Super Elvis á fyrstu önn sinni á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. 

Spila Super Elvis


Haunt

Allt er ljóslaust, húsið er tómt - eða hvað? Þú færir þig hægt og rólega í gegnum húsið með ekkert annað en veika ljóstýru af vasaljósinu að vopni. Hvað verður á leið þinni? Kemstu lífs af? Sérlega vanhæfur tölvuleikjaprófari Menntaskólans á Ásbrú gerði það ekki en hún neyddist mögulega til þess að hætta þegar henni dauðbrá í tuttugasta skipti...endilega látið mig vita hvernig hann endar.

Bjarni Adrian og Saulius gerðu Haunt á þriðju önn sinni á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

 Spila Haunt


Halloween quiz

Halloween Quiz er spurningaleikur þar sem þú getur valið á milli flokkanna saga eða miðlar og svarað áhugaverðum og krefjandi spurningum. Svarir þú spurningunni vitlaust þá mun þér mögulega verða bilt við. Við mælum með því að leikurinn sé spilaður í full screen og með heyrnatól fyrir bestu mögulegu upplifun.

Brimar, Hugi og Jóel gerðu þennan skemmtilega hrekkjavöku þemaða leik á þriðju önn sinni í tölvuleikjagerð. 

 Spila Halloween Quiz


Airport games

Airport Games er leikur hannaður fyrir yngstu kynslóðina og er bæði hægt að spila leikinn á spjaldtölvu og með músarbendlinum. Innan leiksins eru nokkrir smáleikir þar sem hægt er að spila samstæðuleik, bjarga farþegum sem einhvernvegin enduðu í skýjunum (hey, við dæmum ekki) eða flokka farangur. 

Leikurinn var hannaður af Aron Birgi á hans fyrsta ári í tölvuleikjagerð. Leikurinn er hluti af samstarfsverkefni sem unnið var með Isavia í gerð tölvuleikja fyrir yngstu kynslóð flugfarþega um Keflavíkurflugvöll.

Spila Airport Games


Balls td

Þessar grænu kúlur! Maður minn!

Balls TD er turnaleikur (e. tower defence) þar sem þú keppist við að setja upp turna af vopnum umhverfis þrautabrautina til þess að stöðva leið grænu kúlnanna að rauðu endalínunni áður en fjármagnið eða lífin eru uppurin.

Aron Birgir og Hrafnkell Orri hönnuðu leikinn á þriðju önn sinni á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

 Spila Balls TD


No pain, no gain

Í leiknum No Pain, No Gain setur þú þig í spor atvinnufimleikakonu. Hún þarf að flikka, flakka og heljarstökkva yfir hesta, slár og stangir til þess að komast á langþráðan verðlaunapallinn.

Lovísa gerði leikinn á fyrstu önn sinni í tölvuleikjagerð þar sem hún var innblásin af megin áhugamáli sínu, fimleikum. Teikningar og hönnun eru allar hennar verk utan bakgrunnsins sem fenginn var annar staðar frá. 

 Spila No Pain, No Gain


The christmas joy

The Christmas Joy er tilvalinn fyrir jólabörnin, sama hvort er í apríl, ágúst eða desember. Í leiknum ert þú eitt af leikföngum jólasveinsins, vélmenni, sem gerir sitt allra besta við að hjálpa jólasveininum að finna týndan félaga þinn.

Leikurinn er hannaður af Lovísu á þriðju önn hennar í tölvuleikjagerð. 

 

Spila The Christmas Joy


Myre 36

Englar og djöflar, rokkvíkingar og skuggariddarar, Eiríkur Hauksson og hinn illi E.T.. Þessar fylkingar hafa att kappi svo öldum skiptir og engin ummerki enn um lát þar á. Í Myre 36 bregðuru þér í gervi rauðhærðs rokkvíkings og sneiðir framhjá skuggariddurum til þess að ferðast í gegnum ævintýraríkið.

Leikurinn er gerður af Halldóri á hans fyrstu önn í tölvuleikjagerð.

 Spila Myre 36


Shadow boy

Rigningin skellur á malbikið - það er haust. Göturnar eru mannlausar - það er nótt. Ljósin í búðargluggunum varpa draugalegri birtu á gangstéttina - það er kalt. Dökk klædd vera skýst út úr húsasundi og hverfur út í myrkrið - það er svart. Hann er að störfum, einkaspæjarinn...mhm, ég meina Shadow Boy.

Í leiknum Shadow boy ert þú skuggi að reyna að þræða leið þína í gegnum undirheimana og framhjá hinum ýmsu skuggaverum sem verða á vegi þínum.

Leikurinn er gerður af Aroni Mána á fyrsta ári hans á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.

 Spila Shadow Boy