Fara í efni

Skólanámsskrá Keilis

Uppfært í ágúst 2021 

Skv. 22. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla er hverjum skóla skylt að gefa út skólanámskrá og uppfæra hana reglulega. Skólanámskrá Keilis er að finna á heimasíðu Keilis. Námskráin skiptist í tvo hluta: Almennan hluta sem hér fer á eftir um stefnu og starfshætti Keilis. Hinn hlutinn snýst um brautarskipulag og áfangalýsingar. Hann er birtur á heimasíðu Keilis undir námskeiðs- og brautarlýsingar í hverri deild fyrir sig. Einnig er hægt að sjá innihaldslýsingar á samþykktum brautum ásamt lykilhæfni á vef Menntamálastofnunar:

Um Keili

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, var stofnaður vorið 2007. Hlutverk Keilis er að byggja upp menntasamfélag í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og leiða saman fyrirtæki, skóla, þekkingu og fjármagn, hvoru tveggja til nýsköpunar og útrásar í íslenskum menntamálum.

Keilir er hlutafélag að mestu í eigu ríkisins.

Keilir býður upp á nám á framhaldsskólastigi, háskólastigi og styttri námskeið

Nám á framhaldsskólastigi er stúdentsbraut í tölvuleikjagerð, Háskólabrú sem er aðfaranám að háskóla, einkaþjálfun, styrktarþjálfun, flugnám og fótaaðgerðafræði. Stúdenstbrautin er kennd í staðnámi, Háskólabrú er kennd bæði í staðnámi og í fjarnámi með reglulegum staðlotum, ÍAK einka- og styrktarþjálfun er eingöngu kennd í fjarnámi með reglulegum staðlotum. Einnig hefur Íþróttaakademían nýlega farið af stað með námsbraut í einkaþjálfun á enskri tungu sem ber heitið Nordic Personal Trainer Certificate (NPTC). Um er að ræða nám sem er kennt alfarið í fjarnámi. ÍAK einkaþjálfunar námið hefur hlotið evrópska gæðavottun frá stofnunni Europe Active(EA) en slík vottun er mikils virði og ein besta viðurkenning sem einkaþjálfaranám getur hlotið í Evrópu. Á háskólastigi er kennd námsbraut ævintýraleiðsagnar á vegum Thompson River University. Í námskeiðsformi rekur Keilir námskeiðið Inntökupróf.is, sem er námskeið fyrir nemendur sem stefna á inntökupróf í læknisfræði eða sjúkraþjálfun. Einnig er Vinnuverndarskóli Íslands á vegum Keilis og þar eru kennd hin ýmsu námskeið tengd vinnuvernd.

Aðal Kennsluhúsnæði Keilis er í 5.500 fermetra byggingu er áður hýsti menntaskóla Varnarliðsins. Er þar kappkostað að hafa aðbúnað sem bestan. Kennslustofur eru þannig ólíkar að stærð, gerð og búnaði. Félagsleg aðstaða og þjónusta öll á að vera til fyrirmyndar – bæði fyrir kennara og nemendur. Þá er flugakademía Keilis einnig með aðstöðu á flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar.

Námsbrautir

Grunngildi

Grunngildi Keilis eru samstarf, virðing, framsækni og þjónusta.

 • Samstarf
  Keilir nýtir þekkingu einstaklingsins. Við komumst að sameiginlegri niðurstöðu, við erum samheldin og komum fram við aðra af heilindum. Keilir hefur bjartsýni, gleði og jákvæðni að leiðarljósi í öllum samskiptum sínum innan sem utan fyrirtækisins.
 • Virðing
  Allt starf Keilis einkennist af gagnkvæmri virðingu, umhyggju, umburðarlyndi og jafnrétti. Hverjum og einum er mætt þar sem hann er staddur.

 • Framsækni
  Með framsæknum huga og athöfnum mótum við framtíðina og sækjum alltaf áfram. Keilir er framsækinn skóli sem er fljótur til nýjunga, leitar tækifæra og býður nemendum nýjar lausnir.

 • Þjónusta
  Keilir leggur alltaf upp með að veita góða og persónubundna þjónustu og hefur frá stofnun haft hátt þjónustustig að leiðarljósi.

Kennsluhættir

Keilir hefur á síðustu árum umbreytt kennsluháttum sínum frá hefðbundnum kennsluháttum yfir í vendinám (e. flipped learning). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistaðar á netinu. Nemendur geta horft/hlustað á kynningarnar eins oft og þeir vilja og þurfa. Umræðusvæði nemenda og kennara eru aðgengileg á kennslusvæði hvers hóps þar sem allir í hópnum geta fylgst með umræðum og eða tekið þátt í þeim. Þá eru nemendur hvattir til að viða að sér þekkingu og upplýsinga á netinu.

Kennslustundir eru tími til vinnu og samstarfs. Þar vinna nemendur verkefnin, oft saman í hóp, og kennarar aðstoða við úrlausnir eftir þörfum. Lærdómurinn verður lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Keilir er með sína reynslu og þekkingu í fararbroddi íslenskra menntastofnana á sviðið vendinám. Mikil áhersla er lögð á tölvunotkun og upplýsingatækni í skólanum og nota nemendur eigin fartölvur og hafa aðgang að þráðlausu neti skólans. Í öllum áföngum er notast við kennslukerfið Moodle. 

Stjórn og stefna

Í stjórn Keilis sitja sjö manns, tilnefndir af hluthöfum, og sjö til vara. Keili er skipt í nokkrar deildir eða skóla. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra. Hann ræður forstöðumenn yfir einstökum deildum/skólum. Forstöðumenn skóla hafa umsjón með skipulagi, starfi og faglegu starfi innan hvers skóla, þ.m.t. mannaráðningum. Forstöðumenn eru yfir Háskólabrú, Flugakademíu, Íþróttaakademíu, Mennta- og þjónustusviði, Þróunar- og markaðssviði sem og Rekstrarsviði en undir það fellur fjármálastjórn og skrifstofustjórn.

Framkvæmdastjóri og forstöðumenn deilda sitja vikulega fundi framkvæmdastjórnar.

Stjórn Keilis 2021 er skipuð eftirfarandi einstaklingum:

 • Stjórnarformaður: Jón Björgvin Stefánsson
 • Varaformaður: Elín Hjálmsdóttir
 • Sæunn Stefánsdóttir
 • Kjartan Már Kjartansson
 • Einar Jón Pálsson

Varamenn:

 • Marta Guðrún Skúladóttir
 • Kjartan Dige Baldursson
 • Stefán Benjamín Ólafsson
 • Halldór Jónsson
 • Fríða Stefánsdóttir
 • Margrét Ólöf A Sanders

Framkvæmdastjóri og forstöðumenn eru eftirfarandi

 • Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri
 • Anna María Sigurðardóttir, forstöðukona Mennta- og þjónustusviðs
 • Arnbjörn Ólafsson, forstöðumaður Markað- og þróunarsviðs
 • Elvar Smári Sævarsson , forstöðumaður Íþróttaakademíu
 • Ida Jensdóttir, forstöðukona Rekstrarsviðs
 • Berglind Kristjánsdóttir, forstöðukona Háskólabrúar
 • Kári Kárason, forstöðumaður Flugakademíu
 • Nanna Kristjana Traustadóttir forstöðukona/skólameistari Menntaskólans á Ásbrú 

Framtíðarsýn

Keilir býður upp á fjölbreytt nám í hæsta gæðaflokki fyrir breiðan hóp nemenda og hefur skýr gæðaviðmið. Skólinn er í góðum tengslum við nærsamfélagið, aðliggjandi skólastig og atvinnulífið og sinnir með þeim hætti breytilegum þörfum margra. Eitt af gildum Keilis er framsækni og framtíðarsýn skólans er að sækja ávallt fram, fylgjast vel með nýjum kennsluháttum, tækninýjungum og bjóða upp á besta búnað sem völ er á hverju sinni með það að markmiði að skila vel menntuðu fólki út í atvinnulíf og framhaldsnám. Jafnframt skal lögð áhersla á skólaþróun og fagmennsku kennara.

Meginmarkmið

Meginmarkmið Keilis eru:

 • Að veita ávallt framúrskarandi þjónustu
 • Að skila vel menntuðu fólki út í atvinnulífið og í framhaldsnám
 • Að styrkja menntun á Suðurnesjum
 • Að skapa eldri nemendum tækifæri til háskólanáms með aðfaranámi
 • Að byggja upp öfluga skóla og menntasamfélag á Ásbrú

Skipurit

Öryggisnefnd

Öryggisnefnd Keilis leitast við að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi fyrir starfsfólk og nemendur og fylgir aðgerðaáætlunum vegna slysa og skyndilegra veikinda. Í öryggisnefnd sitja fjórir starfmenn sem framkvæma árlegar úttektir á öryggi skólans, þar af eru tveir öryggistrúnaðarmenn og tveir öryggisverðir.

Heilbrigði og velferð

Keilir lítur svo á að ástundun heilbrigðs lífsstíls og lífshátta sé sjálfsagður og eðlilegur þáttur í starfseminni. Í kjarna námsbrauta skólanna eru áfangar þar sem nemendur vinna ítarlega með málefni sem tengjast heilbrigði og velferð á fjölbreyttan máta. Í matsölu skólans er í boðið upp á að kaupa heilnæmt fæði sem samræmist opinberum ráðleggingum Embætti landlæknis.

Heilsugæsla

Eins og er býður Keilir ekki upp á þjónustu hjúkrunarfræðings, en námsráðgjafar skólans þekkja vel til heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og komi upp einhver vandamál er tengjast heilsu, svo sem átröskun, megrun, offitu, vímuefni, einelti, sjálfsvígshugsanir eða annað, er hægt að leita til námsráðgjafa sem koma nemendum í samband við viðeigandi fagaðila.

Skólareglur

Keilir skiptist í fjóra mismunandi skóla með ólíkum reglum um skólasókn, fjarvistir og veikindi. Hægt er að nálgast skólasóknarreglu hvers skóla fyrir sig í gegnum hlekkina hér að neðan.

Umsóknarferli og skólagjöld

Upplýsingar um umsóknir og umsóknarferli á hverjum tíma fyrir sig má nálgast á heimasíðu Keilis undir umsóknir. Þar er jafnframt hægt að sjá hvaða námsbrautir eru í boði þá stundina. Inntökuskilyrði er misjafnt eftir námi og upplýsingar um inntökuskilyrði er hægt að sjá á heimasíðu Keilis undir upplýsingum um hvert námi fyrir sig.

Inntökuferli

Nemendur sækja um nám á heimasíðu Keilis. Allir umsækjendur sem uppfylla skilyrði eru teknir í viðtal þar sem farið er yfir það hvort þeir eigi erindi í námið og allir helstu þættir er við koma náminu og skólanum eru ræddir.

Skólagjöld

Námsferill

Skráning og meðferð upplýsinga

Skólinn skráir námsferla nemenda, námsárangur, viðveru og fleiri upplýsingar sem varða skólagöngu þeirra með rafrænum hætti í gagnagrunn (Innu) sem þjónustufulltrúar, kennarar, námsráðgjafar og skólastjórnendur hafa aðgang að.

Starfsfólk skólans sem hefur aðgang að gögnum um nemendur er bundið trúnaði og er þeim óheimilt að veita persónuupplýsingar um nemanda án samþykkis þess sem í hluta á eða forráðamanna ef um er að ræða nemanda yngri en 18 ára.

Keilir hefur sett sér persónuverndarstefnu sem unnið er eftir við skráningu og afhendingu allra gagna.

Aðgangur nemenda og forráðamanna þeirra að upplýsingum

Allir nemendur skólans fá lykilorð að Innu sem veitir honum aðgang að öllum rafrænum upplýsingum sem skráðar eru um hann sjálfan. Sé nemandi yngri en 18 ára geta forráðamenn hans einnig fengið lykilorð sem veitir aðgang að sömu upplýsingum. Forráðamenn geta einnig fengið upplýsingar um námsframvindu nemandans með því að hafa samband við skólastjórnendur þangað til nemandinn verður 18 ára. Eftir það er einungis heimilt að veita honum sjálfum, eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða hann persónulega.

Þjónusta

Upplýsingar um ýmiskonar þjónustu á vegum Keilis, svo sem þjónustuborð, tölvuþjónustu, húsnæðissvið, sem og náms- og starsfráðgjöf má nálgast á vefnum.

Samstarf við aðra skóla, aðila á vinnumarkaði og nærsamfélag

Keilir eru í góðu samstarfi við aðra skóla, vinnumarkaðinn og nærsamfélagið.

Heilsuakademían

 • ÍAK er í samstarfi við tvær líkamsræktarstöðvar; World Class og Sporthúsið. Nemendur í einka- og styrktarþjálfaranámi fá aðgang að öllum stöðvum fyrirtækjanna á námstíma (september til lok maí). Tilagangur þess er að nemendur ÍAK einkaþjálfaranáms geti sinnt vinnustaðarnámi sem er hluti af námsskrá. ÍAK styrktarþjálfarar og kennarar fá einnig aðgang að líkamsræktarsal til verklegrar kennslu.
 • Janus Heilsuefling sem sérhæfir sig í þjálfun eldri borgara er einnig vettvangur nemenda ÍAK einkaþjálfara í vinnustaðarnámi.

Háskólasetur

  • Háskólabrú hefur verið í nánu samstarfi við Háskóla Íslands með undirritun samstarfssamnings milli skólanna. Fagráð Háskólabrúar er skipað tveimur fulltrúum Háskólabrúar og þremur fulltrúum Háskóla Íslands.
  • Útskrifaðir nemendur af Háskólabrú hafa verið samþykktir hjá öllum háskólum hérlendis og er orðspor okkar nemenda mjög gott. Kannanir hafa sýnt að nemendur af Háskólabrú séu sérlega vel undirbúnir þegar þeir koma í háskóla sem er afar ánægjulegt.
  • Gott samstarf er á milli Háskólabrúar og símenntunarstöðva sem eru víðs vegar um landið. Sérstaklega er náið samstarf er við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), Mími símenntun í Reykjavík, Háskólasamfélag Suðurlands (Selfoss) og Símey (símenntunarstöð Eyjafjarðar). Árið 2009 undirbjó Keilir námsleið í samstarfi við MSS er heitir Menntastoðir og er undirbúningur fyrir nám á Háskólabrú. Fleiri símenntunarstöðvar hafa tekið upp þessa námsleið og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur sett þessa námsleið inn í kennsluskrá sína. Fjarnemar á Háskólabrú hafa nýtt aðstöðu fræðslumiðstöðvar víðs vegar um landið til að taka próf. Nemendur Menntastoða hjá símenntunarstöðvunum koma reglulega á kynningar hjá Háskólabrú sem er skipulagt í samráði við símenntunarstöðvarnar.
  • Háskólabrú er í góðu samstarfi við endurhæfingarstöðvar eins og Hringsjá og Virk þar sem skjólstæðingar þeirra hafa komið reglulega til okkar í námskynningar.
  • Háskólabrú sendir öllum útskrifuðum nemendum eftirfylgnikönnun á annarri önn eftir útskrift. Þar er haldið til haga mikilvægum upplýsingum um hvert nemendur halda í háskólanám, hvað þeir eru að nema og hvernig þeim finnist þeir vera undirbúnir. Þessar kannanir hafa verið mikilvægur þáttur í gæðastarfi Háskólabrúar.
  • Árið 2018 hóf Háskólabrú Keilis tilraunaverkefni og samstarf með fræðslusetrinu Starfsmennt. Eitt af meginmarkmiðum Keilis er að hækka menntunarstig einstaklinga í samfélaginu og því var verkefnið kjörið tækifæri fyrir Háskólabrú. Fræðslusjóður veitti styrk fyrir verkefnið og var raunfærnimatið unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og var opið öllum en ekki eingöngu aðildarfélögum Starfsmenntar. Tilgangur verkefnisins var að bjóða opinberum starfsmönnum upp á raunfærnimat til móts við áfanga Háskólabrúar og þannig hvetja starfsmennina til að bæta við sína menntun. Kennarar Háskólabrúar tóku átt í verkefninu og tóku á móti einstaklingum sem töldu sig eiga erindi í raunfærnimat í völdum áföngum. Samstarfið gekk afar vel og var lærdómsríkt fyrir alla aðila. Fyrsti hópurinn lauk raunfærnimati í janúar 2019. Þar sem verkefnið gekk vel var ákveðið að bjóða öðrum hópi upp á sama möguleika og hófst það ferli í september 2019.

Menntaskólinn á Ásbrú

 • Áfangar í tölvuleikjagerð og lokaverkefni síðustu annar verða unnin í samstarfi við valin fyrirtæki úr atvinnulífinu auk þess að fulltrúum atvinnulífsins verður boðið sæti í fagráði MÁ á komandi ári. Meðal þeirra aðila sem fundað hefur verið með á árinu 2020 og hafa samþykkt samstarfsverkefni á komandi misserum eru Myrkur Games, CCP, Parity, Solid Clouds, IGI, Vinnuverndarskólinn auk nokkurra einyrkja í faginu.

Stefnur og áætlanir

Foreldraráð

Í lögum um framhaldsskóla frá árinu 2008, 50. grein, segir að í framhaldsskólum skuli starfa foreldraráð. Er það í samræmi við að sjálfræðisaldur ungmenna er 18 ár og þangað til bera forráðamenn ábyrgð á börnum sínum.

Foreldraráð er virkt hjá MÁ, en það er eina deildin innan Keilis sem er með nemendur undir lögaldri. Fjórir forráðamenn nemenda við skólann sitja í ráðinu ásamt tveimur varamönnum, og einum tengilið við stjórnendur skólans. Meginverkefni foreldraráðs eru að styðja við skólastarf, efla tengsl forráðamanna ólögráða nemenda við skólann og huga að hagsmunamálum nemenda.

Í foreldraráði skólaveturinn 2020-2021 sitja: Unnur Henrysdóttir, Silvía Jónsdóttir, Inga Birna Antonsdóttir, Helga Guðrún Ásgeirsdóttir. Tengiliður foreldraráðs við stjórnendur skólans er áfangastjóri MÁ Skúli Freyr Brynjólfsson.

Nemendaráð

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er kveðið á um að í hverjum framhaldsskóla skuli starfa nemendafélag sem vinnur meðal annars að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér lög um starfssvið og starfshætti og starfar á ábyrgð skóla sem sér því fyrir starfsaðstöðu. Skólum er heimilt að styrkja félögin fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu reglum og bókhald skólanna. Nemendur kjósa fulltrúa í skólaráð og tilnefna fulltrúa á skólafund og áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Virkt nemendaráð er í MÁ, en í öðrum styttri námsleiðum Keilis er ekki virkt nemendaráð að störfum.

Starfsáætlanir

Inntökuskilyrði

Stúdentsbraut

Almenn skilyrði til innritunar á stúdentsbrautir eru að nemandi hafi náð einkunninni A, B+ eða B í íslensku, ensku og stærðfræði við lok grunnskóla. Hafi nemandi fengið einkunn undir því viðmiði (C+) getur hann innritast á stúdentsbraut en tekur áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi greinum. Reikna má með að námstími til lokaprófs verði þá lengri en þrjú ár.

ÍAK einkaþjálfun

Nemendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

Að auki þurfa nemendur sem sækja um ÍAK einkaþjálfaranám að hafa lokið kjarna og heilbrigðisgreinum áður en nám hefst í sérgreinum einkaþjálfunar. Hægt er að taka einstaka forkröfuáfanga í fjarnámi á Hlaðborði Keilis.

Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri áður en nám í sérgreinum hefst. Gerð er krafa um að umsækjendur hafi haldgóða reynslu af íþróttum og líkamsrækt og séu í nægilega góðu líkamlegu formi til að vera virkir í verklegri kennslu námsins.

Fótaaðgerðafræði

Nemendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

Að auki þurfa nemendur sem sækja um nám í Fótaaðgerðaskóla Keilis að hafa lokið að mestu námi í almennum kjarna og almennum heilbrigðisgreinum áður en nám hefst í sérgreinum fótaaðgerðafræði.

Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri áður en nám í sérgreinum hefst í Fótaaðgerðaskóla Keilis.

Starfsfólk

Yfirlit yfir starfsfólk

Námsbrautir
 • ÍAK einkaþjálfun
 • Fótaaðgerðafræði
 • Háskólabrú
 • Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð

Skólaráð Keilis

Við skólann skal starfa skólaráð, hlutverk þess er samkvæmt lögum um framhaldsskóla, nr. 92 12. júní 2008:

7. gr. Skólaráð.
Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.

Í reglugerð um skólaráð við framhaldsskóla, 140/1997, um skipan og hlutverk skólaráðs segir:

1. gr.
Skólaráð starfa við framhaldsskóla. Kosið skal til skólaráðs við upphaf hvers skólaárs. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar kennara, kjörnir á fyrsta almenna kennarafundi skólaársins. Nemendaráð kýs tvo fulltrúa í skólaráð. Aðstoðarskólameistari og áfangastjóri sitja í skólaráði. Starfi öldungadeild við framhaldsskóla skulu fulltrúar nemenda við þær sitja fundi skólaráðs þegar málefni þeirra eru á dagskrá. Skólameistari er oddviti skólaráðs og stýrir fundum þess.
Beri engir starfsmenn framhaldsskóla starfsheitið aðstoðarskólameistari eða áfangastjóri taka þeir sem gegna sambærilegum störfum sæti í skólaráði.

2. gr.
Skólaráð er skólameistara til aðstoðar og ráðgjafar um stjórn skólans, fjallar um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum, vinnu- og félagsaðstöðu nemenda, veitir umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundi, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað, fjallar um mál sem varða einstaka nemendur. Með slík mál skal farið sem trúnaðarmál.

Verið er að setja saman skólaráð fyrir skólaárið 2021 - 2022 og skal þeirri vinnu verið lokið eigi síðar en 15.september.

Skóladagatöl