Fara í efni

Fjármálalæsi (FJÁR1FL05)

FJÁR1FL05

Í áfanganum er farið í gildi fjármála fyrir einstaklinginn, fyrirtækið og samfélagið. Lögð verður áhersla á fjármálalæsi sem hagnýta fræðigrein sem nýtist öllum í námi og starfi. Í áfanganum er fjallað um ábyrgð á sviði fjármála, tekjur, útgjöld, sparnað, lánamál, peningaáhyggjur, eðli peninga, fjármálastofnanir og ýmislegt fleira.

Fjármálalæsi felur í sér getu til að greina valkosti í fjármálum, fjalla um peninga án vandkvæða, gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum forsendum ákvarðana í fjármálum, þar með talið í efnahagsumhverfinu. Fjármálalæsi byggist á þekkingu, viðhorfum og hegðun og snýst um að geta tekið upplýstar, meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum til lengri og skemmri tíma. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur taki ábyrgð á því að skipuleggja vinnu sína og læri að nýta sér þau hjálpartæki sem í boði eru.

Skráning

Skráning

Hægt er að skrá sig í áfanga á Fjarnámshlaðborði hvenær sem er. Þegar skráning hefur verið samþykkt fær nemandi sendan innritunarlykil á moodle kennslukerfið. Það getur tekið allt að tveimur virkum dögum. Nemendur hafa fjóra mánuði til að ljúka áfanganum frá þeirri dagsetningu sem skráningin var send inn á Innu.

Fyrirkomulag

Form áfanga á Fjarnámshlaðborðinu getur verið breytilegt frá einum áfanga til annars og er útskýrt ítarlega í kennsluáætlun áfangans. Því er mikilvægt að fyrsta verk nemandans sé að kynna sér hana. Áfangar innihalda oftast fyrirlestra frá kennara, önnur myndbönd, lesefni, moodle verkefni og önnur skilaverkefni. Áfanganum lýkur svo með lokaverkefni áfangans ásamt munnlegu mati í myndsamtali.

Áætlaður fjöldi vinnustunda nemandans eru 18-24 klukkustundir fyrir hverja einingu. Flestir áfangarnir eru 5 einingar og því er áætlaður vinnustundafjöldi u.þ.b. 100-120 klukkustundir í hverjum áfanga. Markmið áfanganna eru miðuð við Aðalnámskrá framhaldsskólanna og raðast á hæfniþrep samkvæmt henni.