Hér má finna viðbragðsáætlanir Keilis ef upp kemur vá.
Aðbúnaður
- Byggingin er vöktuð með brunaviðvörunarkerfi sem er tengt við Öryggismiðstöð Íslands.
- Brunasamstæður byggingarinnar eru þrjár og er hver samstæða með mörgum brunahólfum.
- Út úr hverri samstæðu eru flóttaleiðir auk flóttaleiða og björgunaropa úr sumum brunahólfum.
- Neyðarlýsing og útljós eru á öllum flóttaleiðum svo og brunaslöngur og handslökkvitæki.
- Uppdráttur er sýnir útgönguleiðir og flóttaleiðir er í hverju kennslurými, anddyri og skrifstofuálmu.
Rýmingaráætlun
Í skólanum eru nokkrir útgangar: Aðalinngangur á suðurhlið, starfsmannainngangur á suðurhlið, útgangur í enda B-gangs á norðurhlið, tveir útgangar úr sal fyrir enda A-gangs (annar í norðurátt og hinn í austurátt), tveir útgangar úr matsal (við hlið sviðsins í suðurátt og í gegnum eldhús í austurátt), útgangur við hlið matsals í austurátt, útgangur úr heimastofu MÁ (Alfa) í norðurátt, útgangur til norðurs úr setustofu í miðrými Keilis og útgangur til norðurs við sjálfsala við aðalinngang. Einnig er hægt að nota glugga í öllum kennslustofum sem neyðarútgang. Einnig er hægt að nota glugga í öllum kennslustofum sem neyðarútgang.
Leiðbeiningar um flóttaleiðir hanga uppi í öllum rýmum skólans. Ef nauðsynlegt er að yfirgefa skólann vegna hættuástands hafið þá eftirfarandií huga:
- Kennarar/starfsmenn meta aðstæður í þeim rýmum sem þeir eru og taka ákvörðun um flóttaleið og ákveða hver fer fyrstur og hver síðastur til að hafa yfirsýn yfir hópinn þannig að enginn gleymist, hver kennari sér um að telja sinn hóp áður en farið er af stað og aftur eftir að komið er á söfnunarstað.
- Húsvörður og þeir starfsmenn sem ekki eru við kennslu þá stundina sjá um rýmingu í matsal, Betri stofunni, nemendaaðstöðu og snyrtingum.
- Notið helst aðalútganga ef mögulegt er.
- Skiljið allt skóladót eftir inni í kennslustofum eða þar sem það er ekki í gangvegi eða fyrir flóttaleiðum.
- Söfnunarstaður er á körfuboltavellinum við hlið skólans, þar fer kennari yfir hvort ekki hafi allir skilað sér sem lögðu af stað, ef einhvern vantar þarf að fá upplýsingar um hvar viðkomandi sást síðast og koma þeim upplýsingum til skólastjórnenda sem hafa yfirumsjón með aðgerðum.
- Hafi einhver slasast, orðið fyrir meiðslum eða andlegu áfalli skal þegar hlúð að viðkomandi. Komið upplýsingum þegar á framfæri við skólastjórnendur svo hægt sé að beita viðeigandi ráðstöfunum.
- Enginn hefur heimild til að fara aftur inn í skólann fyrr en ákvörðun hefur verið tekin af viðbragðsaðilum.
- Ef rýming fer fram vegna elds þá skal sá síðasti sem yfirgefur hvert rými loka hurð á eftir sér til að hindra flæði reyks og elds. Takið aldrei óþarfa áhættu.
112 stillingar fyrir iPhone
Hér má finna myndband með leiðbeiningum um hvernig hægt er að setja Neyðarlínuna sem tengilið á iPhone símum og stillingarnar séu þannig að viðkomandi fái alltaf SMS frá því númeri hvort sem síminn sé stilltur á hljóðstillingu eða flugstillingu.
Viðbrögð við jarðskjálfta
- Mikilvægt er að halda ró sinni og skapa ekki óþarfa spennu.
- Við jarðskjálfta getur verið hættulegt að hlaupa út úr skólanum í óðagoti.
- Reyndu að leita skjóls og vera kyrr á öruggum stað innandyra t.d. úti í horni við burðarveggi fjarri gluggum, undir borði eða í dyragætt. Leitastu alltaf við að skýla höfðinu.
- Bíddu eftir aðstoð eða boðum um að rýma skólann. Ef engin aðstoð berst verður kennari/starfsmaður að meta aðstæður. Ef kennari/starfsmaður metur að rýma þurfi húsnæðið skal það gert samkvæmt rýmingaráætlun (ekki hlaupa út í óðagoti).
- Þegar skólinn er yfirgefinn skal safnast saman á körfuboltavellinum austan við skólann.
- Leitist við að forða nemendum og starfsfólki á fumlausan og skipulegan hátt, ákveðið hver fer fyrstur og hver verður síðastur til að minnka líkurnar á að einhver slasist eða gleymist.
- Takið ekki óþarfa áhættu, hugsið fyrst og fremst um ykkar eigið öryggi.
- Hugsa skal að fyrstu hjálp fyrir þá sem þess þurfa.
Varist:
- Húsgögn sem geta hreyfst úr stað eða fallið.
- Hluti sem geta fallið úr hillum eða skápum.
- Ofna sem geta henst úr festingunum.
- Rúður sem geta brotnað og glerbrot sem gætu verið á gólfum.
Viðbrögð við eldsvoða
Hlutverk allra starfsmanna
- Að virða brunaboðin og aðstoða við rýmingu.
- Kennarar/starfsmenn undirbúa rýmingu kennslustofu/rýmis síns, nemendur yfirgefa ekki kennslustofuna/rýmið fyrr en kennari/starfsmaður hefur kannað hvort útgönguleiðin er greið. Hver kennari/starfsmaður er ábyrgur fyrir þeim bekk/hóp sem hann er að kenna þegar hættuástand skapast. Ætíð skal velja þann neyðarútgang sem næstur er samkvæmt leiðbeiningum eða sem er greiðastur.
Hlutverk yfirmanna
- Skólastjórnendur fari að stjórntöflu brunaviðvörunarkerfis og kanni hvaðan brunaboðið kemur. Ef ekki er slökkt á brunaboðanum innan tveggja mínútna eiga allir að yfirgefa bygginguna. Rýming er alltaf undirbúin um leið og heyrist í brunaboðanum.
- Skólastjórnendur hafa samband við 112, tilkynna um eld eða gefur skýringar á brunaboðinu. Ef um falsboð er að ræða er slökkt á brunavælum sem gefur til kynna að hættuástand sé liðið hjá.
- Skólastjórnendur gefa til kynna hvar best er að koma að skólabyggingunni.
Viðbrögð við eldgosi á Reykjanesskaga
- Stjórnendur Keilis funda strax og eldgoss verður vart og meta þörf á aðgerðum m.t.t. upplýsinga frá Almannavörnum.
- Mikilvægt er að halda ró sinni og skapa ekki óþarfa spennu.
- Framkvæmdastjórn sendir út tilkynningu á innri vef starfsmanna og í tölvupósti til nemenda ef þörf er talin á aðgerðum sem hafa áhrif á starfsemina.
- Mikilvægt er að fylgjast vel með tilkynningum og póstum út starfsdaginn m.t.t. þess ef aðstæður breytast.