Fara í efni

Skólar

Fjórir skólar eru undir regnhlíf Keilis: Háskólabrú, Flugakademía Íslands, Heilsuakademían og Menntaskólinn á Ásbrú.

Að jafnaði eru árlega mill 600 - 700 nemendur skráðir í nám við skóla Keilis. Við Keili eru starfræktar bæði námsbrautir á háskólastigi og framhaldsskólastigi. Skólum Keilis er ætlað að fylla í eyður í skólakerfinu og vera í nánum tengslum við atvinnulífið.

Háskólabrú

Á Háskólabrú fer fram undirbúningsnám fyrir háskólanám. Nemendur skulu hafa lokið um 70 einingum í framhaldsskóla en ljúka að ári liðnu námi á Háskólabrú sem veitir inngöngu í háskóla. Námsskrá Háskólabrúar hefur verið sniðin að óskum deilda Háskóla Íslands. Nám á Háskólabrú er bæði hægt að taka í fjarnámi er hefst bæði á haust- og vorönn ár hvert og staðnám er hefst í ágúst ár hvert. Útskrifaðir nemendur stunda nú nám í háskólum hérlendis og erlendis.

Hafa samband við Háskólabrú

Flugakademía Íslands

Flugakademía Íslands býður upp á fyrsta flokks einka- og atvinnuflugmannsnám í einum öflugasta flugskóla á Norðurlöndunum. Lögð er áhersla á nútímalega kennsluhætti og kennsluumhverfi en staðsetning skólans felur í sér einstakt tækifæri til þess að skapa frábæra aðstöðu til kennslu flugtengdra greina.

Hafa samband við Flugakademíu Íslands

Heilsuakademían

Heilsuakademía Keilis leggur áherslu á að þróa og bjóða uppá nám á sviði heilsu- heilbrigðis- og íþróttafræða. Nú þegar er kennd við skólann ÍAK einkaþjálfun sem hefur vakið verðskuldaða athygli og nýtur mikilla vinsælda. Haustið 2013 hófst í fyrsta sinn ný námsbraut í styrktarþjálfun sem kennd verður með sama sniði og ÍAK einkaþjálfarinn. Ásamt okkar frábæru kennurum, koma nokkrir nýir kennarar að styrktarþjálfaranáminu, þar á meðal erlendir sérfræðingar, hver á sínu sviði. Haustið 2013 hófst einnig nýtt eins árs leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hjá Íþróttaakademíu Keilis sem boðið er upp á í samstarfi við Thompson Rivers University í Kanada. Þá heyrir Vinnuverndarskóli Íslands sem kennir vinnuverndarnámskeið undir starfsemi Heilsuakademíunnar. 

Menntaskólinn á Ásbrú

Við Menntaskólann á Ásbrú hefur verið boðið upp á námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð frá haustinu 2019. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmiðið er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.

Þar að auki býður Menntaskólinn á Ásbrú upp á Fjarnámshlaðborð þar sem hægt er að sækja hnitmiðaða áfanga á netinu sem miðast við Aðalnámskrá framhaldsskólanna og byggja á fyrirlestrum, æfingum og verkefnum. Áfangarnir eru einungis kenndir í fjarnámi og geta nemendur skráð sig hvenær sem þeim hentar. Hver nemandi hefur fjóra mánuði til að ljúka hverjum áfanga fyrir sig. Heildarfjöldi vinnustunda eru 18 - 24 klst á einingu og eru áfangarnir allir fimm einingar. Áfangarnir henta vel þeim sem vilja rifja upp námsefni eða þurfa að uppfylla ákveðnar forkröfur til náms.

 Hafa samband við Menntaskólann á Ásbrú