Fara í efni

Siðareglur

Keilir er samfélag nemenda, kennara og annars starfsfólks. Í slíku samfélagi ber öllum skylda til að taka siðferðislega ábyrgð á störfum sínum. Hverjum og einum ber að sýna virðingu, heiðarleika, sanngirni og gæta jafnréttis í öllum samskiptum.

Siðareglur Keilis eru:

  • Við stöndum vörð um heiður Keilis og aðhöfumst ekkert sem gæti rýrt álit samfélagsins á skólanum.
  • Við göngum vel um og gætum þess að fara vel með fjármuni og aðrar eignir skólans.
  • Við sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum og komum fram við hvert annað af tillitssemi, hvort sem um er að ræða rafræn eða hefðbundin samskipti.
  • Við komum í veg fyrir að í Keili viðgangist hvers konar óréttlæti svo sem einelti, kynferðisleg áreitni eða mismunun byggð á óviðkomandi þáttum s.s. kyni, kynþætti, kynhneigð, aldri, fötlun, þjóðerni, trúarbrögðum eða skoðun.
  • Við vinnum saman af heilindum og látum ekki persónuleg tengsl eða hagsmuni hafa áhrif á störf okkar og samvinnu.
  • Við erum virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og lítum á það sem skyldu okkar að miðla upplýsingum sem geta orðið til þess að bæta starfsemina.
  • Við gætum að persónuvernd og virðum friðhelgi einkalífsins.

Framkvæmdastjóri Keilis skipar tvo starfsmenn í siðanefnd. Einn nemandi er svo kallaður til sem fulltrúi nemenda í málum er varða nemendur.

Okkur ber öllum að vera vakandi yfir því að virða siðareglur skólans. Ef við verðum vör við brot á siðareglum látum við námsráðgjafa skólans vita og þeir munu sjá um að kalla saman siðanefnd.

Siðanefnd Keilis skipa Þóra Kristín Snjólfsdóttir námsráðgjafi og Anna María Sigurðardóttir forstöðumaður Mennta- og þjónustusviðs.

Senda ábendingu um efni síðu