Fara í efni

Samstarfsverkefni

Afeinangrun kennslustofunnar er mikilvægur liður í námi við Menntaskólann. Unnið er með áhugavekjandi, raunhæf verkefni eins mikið og hægt er á öllum námsferlinum. Nemendur fá einstakt tækifæri til þess að vinna verkefni með fyrirtækjum sem starfa í hugverkaiðnaði á Íslandi og öðrum aðilum í atvinnulífinu. Hafi aðilar áhuga á samstarfi við Menntaskólann á Ásbrú eru þeir hvattir til þess að hafa samband við forstöðumann MÁ

MÁ X ISAVIA

Á vorönn 2019 unnu nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð að samstarfsverkefni með Isavia. Nemendur hönnuðu og gerðu tölvuleiki fyrir yngstu kynslóð farþega sem getur spilað þá á meðan bið stendur á Keflavíkurflugvelli. Í vinnuferlinu kynntu nemendur hugmyndir sínar fyrir fulltrúum Isavia og rýndu í vinnuferli eftir leiðbeiningum kennara sinna. Verkefnið var hluti af tölvuleikjagerðaráfanga annarinnar. Verkefnið var unnið af nemendum á annarri önn í námi og er leikina alla að finna í leikjaherberginu okkar. Hér er hægt að prófa leikinn Airport Games sem er spjaldtölvuleikur hannaður af Aron Birgi fyrir verkefnið.

MÁ X Solid Clouds

Í júní 2020 undirrituðu Nanna Kristjana Traustadóttir, þáverandi skólameistari MÁ, og Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds samstarfssamning. Í samningnum felst að Solid Clouds munu útvega allt að fimm nemendum við Menntaskólann aðstöðu og tölvubúnað sem hluta af verklegri kennslu þeirra og á þann hátt auka fjölbreytileika og styðja við gæði þess náms sem fer fram í MÁ.

Á vordögum 2021 unnu nemendur á öðru ári í tölvuleikjagerð verkefni í samstarfi við Solid Clouds. Verkefnið var leikjadjamm (e. game-jam) sem var unnið á þremur vikum. Nemendur hönnuðu leiki sem þeir kynntu fyrir starfsmönnum Solid Clouds og fengu endurgjöf þeirra fyrir verkin. Í leikjadjammi felst að keppast við að búa til sem bestan leik á sem stystum tíma, iðulega eftir ákveðnum reglum eða þema.

Sérfræðingar Solid Clouds prófuðu leiki nemenda og völdu í kjölfarið verðlaunaflokkana og sigurvegara þeirra. Verðlaun fyrir bestu leikjahönnunina hlutu Hrafnkell, Hrefna og Jón Ingi fyrir leikinn Sword of Sakura. Þá hlutu Stefán Ingi, Stubbur, Styrmir og Aron Birgir verðlaun fyrir bestu tæknilegu upplifunina með leik sínum Hideout sem er fyrsti fjölspilunarleikurinn (e. multiplayer game) sem gerður er við skólann. Og að lokum hlaut leikurinn Sparphlnar verðlaun fyrir bestu leikjaupplifunina en hann var gerður af þeim Adrian, Þórði og Kristjáni Alex.

MÁ X CCP

Á haustönn 2020 unnu nemendur samstarfsverkefni við CCP. Nemendur unnu saman í hópum og héldu sölukynningu (e. pitch) fyrir fulltrúa CCP og kennara þar sem þeir seldu hugmynd sína að leik með sjónrænni kynningu. Þar fengu þeir svo endurgjöf á leikjahugmyndina (e. game concept) og höfðu færi á að vinna hana frekar áfram. Því næst voru hlutarskil til kennara með grunn að hönnun leiksins (e. game design document), sem innihélt grunn að leiknum, hugmyndir að grafík og litaþema, skissur og verkaskiptingu.

Eftir endurgjöf frá kennurum fengu nemendur eina og hálfa viku til frekari útfærslu og vinnu.  Á tímabilinu voru haldnir Discord fundir með fulltrúum CCP og kennurum þar sem nemendur fengu endurgjöf. Skil á snemmútgáfu (e. alpha version) voru í lok þessa tímabils. Í kjölfar þeirra voru leikirnir fínpússaðir og lagðir fram til jafningjarýni. Verkefninu lauk með kynningum á lokaútgáfum. Fulltrúar CCP kusu um hver leikjanna lofaði bestu og veittu verðlaun. Sérfræðingar CCP hrósuðu nemendum fyrir vel unnin störf í lok verkefnisins og báru þeim kveðjuna að það hefði verið ánægjulegt að spila leikina þeirra.

Leikurinn Happy Farmer eftir Aron og Viktoríu hlaut verðlaun fyrir frumlegustu hönnunina og bestu heildar upplifunina. Red Circus eftir Ágúst Mikka og Ingimar hlaut verðlaun fyrir besta söguþráðinn. Cardiocascular Spy eftir Stubb, Styrmi og Saulius hlaut verðlaun fyrir bestu leiðbeiningarnar CCP. Leikurinn RPG eftir Hrafnkel, Hrefnu og Jón Inga hlaut verðlaun fyrir bestu meme-in og leikurinn Blowin' up eftir Lovísu og Stefán Inga hlaut verðlaun fyrir að vera skemmtilegasti leikurinn.

Ferill verkefnisins svipaði mjög til eiginlegs ferils og vinnu við tölvuleikjagerð í raunheimum. Það uppfyllti því vel það markmið Menntaskólans á Ásbrú að undirbúa nemendur fyrir áframhaldandi nám og störf á sviði hugverkaiðnaðar með raunhæfum verkefnum í tengslum við atvinnulífið.