Fara í efni

Stúdentspróf í tölvuleikjagerð

Stúdentsbraut með áherslu á tölvuleikjagerð er skipulögð sem þriggja ára nám á framhaldsskólastigi. Brautin er að lágmarki 200 framhaldsskólaeiningar og námslokin eru á hæfniþrepi þrjú skv. aðalnámskrá framhaldsskóla. Auk hefðbundinna kjarnagreina vinna nemendur með færni og þekkingu sem býr þá undir áframhaldandi nám á háskólastigi í greinum sem tengjast tölvuleikjagerð á fjölbreyttan máta. Brautin er eingöngu í boði í staðnámi.

Brautin

Námið samanstendur af 80 einingum í almennum kjarna, 60 einingar af sérgreinum brautar og 60 einingum af valgreinum.

Hér má sjá samsetningu brautarinnar

 Röð áfanga

Í MÁ er notast við áfangakerfi. Það þýðir að nemandi þarf að ná fyrsta áfanga í hverju fagi til að komast í þann næsta. Stundatafla og námsferill geta verið nokkuð ólík hjá tveimur nemendum sem þó hefja nám á sama tíma. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um það hvernig áfangar geta raðast á annir hjá nemanda sem lýkur grunnskóla með einkunn B eða hærra í grunnfögunum, íslensku, ensku og stærðfræði.

Dæmi um röðun áfanga á annir [PDF]

Skóladagatal

Hér fyrir neðan má sjá skóladagatal MÁ

 Skóladagatal MÁ 2023-2024 [JPG]

Lotur

Hverri önn skiptum við í tvær lotur sem hvor um sig er níu vikur. Hefðbundinn kennsla fer fram fyrstu átta vikur lotunnar, en sú síðasta er svokölluð lotuskilavika. Í henni geta nemendur fengið tækifæri til að vinna úrbóta- eða sjúkraverkefni sem hafa ekki náðst vegna veikinda eða annarra gildra ástæðna að mati skólans. Í hverri lotu eru nemendur oftast skráðir í þrjá til fimm áfanga. 

 Stundataflan

Stundatafla nemenda í MÁ er skipulögð þannig að nemendur sinna einu til þremur fögum á hverjum skóladegi. Hvert fag spannar eina til þrjár klukkustundir í senn. Hádegispása er skipulögð í dagskrá dagsins, en aðrar pásur ráðast af viðfangsefnum hverju sinni. Þannig stýra nemendur því að nokkru leyti sjálfir hvenær þeir taka sér hlé frá vinnunni.

Námsmat

Í MÁ eru engin skrifleg lokapróf, heldur er notast við símat. Þess vegna er gerð krafa á góða virkni í áföngum og vikuleg eða dagleg verkefnaskil í hverjum áfanga. Verkefnin geta verið á ýmsu formi, sem ræðst af þeim viðfangsefnum sem verið er að vinna með. Þannig er dugnaður og vinnusemi lykilatriði í Menntaskólanum á Ásbrú. 

 Miðannarmat

Þegar fjórar vikur eru liðnar af hverri lotu fá nemendur endurgjöf frá kennurum um stöðu sína í hverjum áfanga fyrir sig. Endurgjöfin er sett fram á eftirfarandi kvarða:

F = Framúrskarandi vinnuframlag, viðhorf og ástundun náms.

G = Góð ástundun náms með möguleiki á frekari bætingu.

Þ = Þarf að bæta úr ástundun náms svo unnt sé að ná námsmarkmiðum.

X = Engar forsendur eru til þess að meta ástundun.

Fái nemandi Þ eða X í miðannarmati eru ekki líkur á því að nemandinn ljúki áfanganum með fullnægjandi hætti. Afar brýnt er að brugðist sé við því, gjarnan í samstarfi við námsráðgjafa.

 Veikindaskráningar

Til að skrá veikindi nemanda undir 18 ára aldri þarf forráðamaður að skrá sig inn á Innu (www.inna.is), en nemendur yfir 18 ára aldri skrá sín veikindi sjálfir. Mikilvægt er að skrá veikindi nemanda daglega sé viðkomandi veikur fleiri en einn dag í senn.

 Leiðbeiningar um veikindaskráningu [PDF]