Fara í efni

Tölvuleikur fyrir Fisktækniskóla Íslands

Nemendur MÁ vinna drög að tölvuleik um hafið.
Nemendur MÁ vinna drög að tölvuleik um hafið.

Á dögunum unnu nemendur Menntaskólans á Ásbrú þverfaglegt samstarfsverkefni milli ensku 3 og tölvuleikjagerðaráfangans GAME 3. Nemendur fengu það krefjandi verkefni í hendurnar að leggja drög að tölvuleik um hafið fyrir Fisktækniskóla Íslands.

Að sögn Ingibjargar Lilju Guðmundsdóttir kennara í tölvuleikagerð og Geirs Finnssonar enskukennara þá var nemendum í GAME skipt í hópa, fengu kynningu frá Fisktækniskólanum og hugmyndir þeirra útfærðar í kjölfarið. Síðan mættu sömu nemendur í ensku þar sem drög þeirra að tölvuleik voru gerðar að kynningu. Í enskunni var kynningin síðan prófuð og nemendur fengu uppbyggjandi gagnrýni sem þau nýttu sér fyrir lokakynninguna fyrir fulltrúa frá Fisktækniskólanum nokkrum dögum síðar.

Kynningin gekk ljómandi vel og að sögn Bernharðs Aðalsteinssonar, verkefnastjóra hjá Fisktækniskólanum „leikirnir voru frumlegir og skemmtilegir að sjá og kynningar nemenda afar sannfærandi.“ Í lok samstarfsverkefnisins verður nemendum boðið í vettvangsferð í Sjávarakademíu út á Granda þar sem þau kynna enn frekar afrakstur samstarfsins.