Fara í efni

Nám í leikjagerð við Keili

Keilir hefur á undanförnum árum unnið að nýrri námsbraut í gerð tölvuleikja á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs fyrir nemendur á aldrinum 16 - 25 ára. Námið byggir á nánum tengslum við atvinnulífið, tölvuleikjaframleiðandans CCP og IGI - Samtök leikja­framleiðenda á Íslandi, sem veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins.

Með nýju námsbrautinni verða jafnframt innleiddir nýir kennsluhættir til stúdentsprófs þar sem stuðst verður við reynslu Keilis af vendinámi, en þar er hefðbundinni kennslu snúið við, fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistaðar á netinu og nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim hentar. Þá munu sjálfstæð vinnubrögð nemenda skipa háan sess í náminu.

Námið byggir á nánum tengslum við atvinnulífið og hafa Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi og Samtakök iðnaðarins, sem og leiðandi fyrirtæki í greininni líkt og CCP lýst stuðningi við námsbrautina.

GamePark Iceland

Keilir hefur undirritað samstarfssamning við danska leikjagarðinn Game Park Danmark, en þar er meðal annars starfræktur eini menntaskólinn í Danmörku þar sem boðið er upp á leikjagerð bæði sem valgrein og aðaláherslu - Game College. Í skólanum er einnig boðið upp á nám á háskólastigi fyrir þá sem vilja í samstarf við háskólann í Árósum og þar er einnig boðið upp á aðstöðu fyrir frumkvöðla á sviði leikjagerðar, en töluvert er um einyrkja og smærri aðila á þessu sviði.

Þá bauð Keilir í fyrsta skipti í sumar upp á námsbraut í tölvuleikjagerð á háskólastigi í samstarf við norska skólann Noroff - School of technology and digital media. Er þetta í fyrsta skiptið sem boðið er upp á sérhæft nám í leikjagerð á háskólastigi í samstarfi við íslenskan skóla. Um er að ræða BSc gráðu sem er tekin á þremur árum í fjarnámi hjá Noroff og með staðlotum hjá Keili. Námið (Bachelor in Interactive Media - Games) leggur áherslu á hönnun og þróun leikja og undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf leikjagerðarfólks, með það að markmiði að nemandinn öðlist faglegt forskot og fái innsýn í hlutverk leikjagerðar í afþreyingariðnaði og skapandi greinum.

Í framhaldi af þessu samstarfi við GamePark Denmark og Noroff, hefur Keilir hug á að koma upp sambærilegri aðstöðu á Ásbrú þar sem boðið verður upp á stúdentspróf með áherslu á leikjagerð og aðgang að framhaldsnámi í greininni á háskólastigi, auk aðstöðu fyrir framleiðendur í leikjagerð nánum í tengslum við frumkvöðlasetur og fyrirtækjahótel á Ásbrú.

Nánari upplýsingar um tölvuleikjagerð til stúdentsprófs

Nánari upplýsingar um námið verður birt á heimasíðu Keilis um leið og leyfi hefur borist frá menntamálaráðuneytinu en áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Keili á keilir@keilir.net eða skrá sig á póstlista um nám til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð.