Fara í efni

MÁ nemar í frumkvöðlafræði stofna fyrirtæki

Hópur nemenda í frumkvöðlafræðiáfanga hafa stofnað fyrirtæki sem framleiðir próteinstykki.  Þeir Alexander Freyr Heimisson, Alexander Hrafnar Benediktsson, Maríus Baldur Kárason, Óðinn Örn Þórðarson og Kacper Giniewicz standa á bakvið fyrirtækið sitt Rebbi. Þeir eru allir á öðru ári í MÁ. Hugmyndin að framleiða próteinstykki kviknaði eftir aukinn áhuga á líkamsrækt innan hópsins. Þeir vildu að próteinstykkið innihéldi eitthvað aukalega fyrir heilsuna. Eftir að hafa heyrt mikla umfjöllun um D-vítamín skort á Íslandi ákváðu þeir að búa til D-vítamínbætt próteinstykki. Til að fjármagna framleiðsluna seldu þeir hlutabréf í fyrirtækinu.

Síðan hófst krefjandi verkefni við að finna rétta frumgerð. Þeir byrjuðuð að afla sér upplýsinga og rannsökuðu hvað þyrfti til að framleiða fyrstu prototýpuna. Mikilvægt var að búa til stykki sem var bæði hollt og bragðgott. Hrafnar sá um að baka stykkin og eftir nokkrar tilraunir voru þeir komnir með stykki sem þeir voru mjög sáttir með. Þar næst byrjuðu þeir að selja stykkin í mötuneyti skólans. Byrjað var að selja 18 stykki og á aðeins tveimur dögum seldist öll framleiðslan. Eftir þessar góðu móttökur hafa þeir ákveðið að auka framleiðsluna og hafa nú hlotið samning um framleiðslu umbúða með vörumerkið þeirra Rebbi.

Allir sinna félagarnir ólíkum verkefnum sem þeir skipta á milli sín. Óðinn Örn er framkvæmdastjóri ásamt því að sjá um markaðsmál fyrirtækisins. Alexander Hrafnar sér um framleiðslu. Kacper er fjármálastjóri og gerir viðskiptaáætlun, ársskýrslu og önnur fjármálatengd verkefni. Alexander Freyr og Maríus Baldur aðstoða svo og sinna hinum ýmsum verkefnum. Þeir segjast vera bjartsýnir með framhaldið og binda vonir við að reksturinn muni ganga vel. Strákarnir eru hæst ánægðir með MÁ og þennan hagnýta frumkvöðlaáfanga sem er mjög mikilvægur undirbúningur fyrir stofnun fyrirtækja. ,,Við, fólkið á Íslandi, þurfum oft D vítamín og allir þurfa prótein svo af hverju ekki hafa þessa tvo hluti í einu? Rebba stangir bjóða upp á það, góðar á bragðið og innihalda bæði D-vítamín og prótein” segir Óðinn Örn.

Hópurinn mun taka þátt í frumkvöðlakeppni framhaldsskólanna Ungir frumkvöðlar, sem verður haldin í Smáralindinni í lok mars. Hægt er að fylgjast með þeim á Instagram @rebbirepsson og á twitter @rebbi_reps.