Fara í efni

Kynheilbrigði í MÁ, þemavika sem lauk með málþingi

Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir

Menntaskólinn á Ásbrú hlaut 300 þúsund króna styrk frá Lýðheilsusjóði til að halda málþing um Kynheilbrigði. Í MÁ var þemavika 11. – 15. september þar sem yfirskriftin var kynheilbrigði. Nemendur og starfsfólk undirbjuggu vikuna með tilliti til fræðsluerinda. Í lok vikunnar var haldin uppskeruhátíð með söng og veitingum.

Þrjú erindi voru flutt í vikunni af góðum gestum. Þorsteinn V. Einarsson, fjallaði um jákvæða karlmennsku, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir um stafrænt ofbeldi og Sólborg Guðbrandsdóttir fjallaði um kynlíf og að setja mörk. Í lok vikunnar var málþing þar sem nemendur útbjuggu spurningar úr hverju erindi og ræddu möguleg svör við þeim.

Spurningar unnar úr erindi Þorsteins: Hvað er eitruð karlmennska og hvernig getur hún haft neikvæð áhrif á sambönd? Hvernig getum við hjálpað þeim sem hafa orðið fyrir eitraðri karlmennsku? Hvaða áhrif hefur umhverfið (t.d. samfélagsmiðlar, barnaefni, fjölmiðlar osfrv.) á kynhlutverk (e. gender roles) fólks?

Spurningar unnar úr erindi Þórdísar Elvu: Hvernig er best að bregðast við félagsþrýstingi/hótun? Hvaða tengsl eru á milli þess að vera nafnlaus á netinu og aukins ofbeldis á netinu?

Spurningar unnar úr erindi Sólborgar: Hvað er gott að hafa í huga áður en maður byrjar að stunda kynlíf? Hvaða afleiðingar geta kynsjúkdómar haft á líf einstaklinga?

Svörin verða tekin saman og sett á sameiginlegt svæði nemenda þegar búið verður að vinna úr þeim. Nemendum er frjálst að vinna meira með viðfangsefnið ef þeir kjósa svo. Fyrir hönd Menntaskólans á Ásbrú þökkum við Lýðheilsusjóði stuðninginn og getum mælt með að gefa nemendum kost á að ræða kynheilbrigði frá ýmsum hliðum. Gestirnir sem komu gáfu sér góðan tíma til að spjalla við nemendur og voru bæði nemendur og starfsfólk ánægt með afrakstur vikunnar.