Fara í efni

,,Ef fólk hefur áhuga á að búa til tölvuleiki, þá mæli ég með MÁ", segir Halldór Björnsson dúx

Halldór Björnsson
Halldór Björnsson

Halldór Björnsson er 19 ára gamall dúx frá Menntaskólanum á Ásbrú. Hann býr í Hafnarfirði með foreldrum sínum, systur og fjölskylduhundinum. Halldór hefur mikinn áhuga á að spila og búa til tölvuleiki, lesa bækur og horfa á myndir. Halldór byrjaði hjá MÁ haustið 2020 í miðju Covid og útskrifaðist með framúrskarandi árangri eftir þriggja ára nám sem einkenndist af allskonar áskorunum. 

„Það var soldið erfitt að byrja þegar við vorum mikið í fjarnámi, en ég var nógu heppin að þessi skóli er alveg frekar nútímalegur, þannig að það var ekki eins erfitt og í öðrum skólum.“ Námið gekk frekar vel hjá Halldóri: „Ég var alltaf á góðri áætlun og fannst að ég aldrei vera í sérlega miklu stressi. Ég náði oftast að finna jafnvægi milli skólans og lífið fyrir utan skólann, og hvernig námið var sett upp hjálpaði mér að gera það.“

Halldór valdi MÁ því hann hefur langað að búa til tölvuleiki síðan hann var lítill. „Þegar ég heyrði að það var kominn menntaskóli með áherslu á þannig nám, þá var það algjör snilld. Það gerðist líka akkúrat þegar ég var að útskrifast úr grunnskóla, þannig að þetta passaði bara mjög vel.“

Ef fólk hefur áhuga á að búa til tölvuleiki eða hefur áhuga á listgreinum, þá mælir Halldór með MÁ. „Ég held að það hjálpaði mér mjög mikið að fara í skóla sem var með áherslu á þannig nám, í stað þess að fara í skóla þar sem tölvuleikjagerð er valáfangi.“ En það eru líka aðrir hlutir sem gætu vakið áhuga að sögn Halldórs því í MÁ eru margir listáfangar eins og myndlist, margmiðlun, ljósmyndun og fleira þá er MÁ mjög góður staður til að byrja á fyrir þá sem hafa áhuga á listgreinum segir hann.

Það besta við MÁ að mati Halldórs er hvernig námið er skipulagt. „Námið er skipulagt í kringum nemendur, ekki kennara, sem þýðir að í staðinn fyrir að sitja inni í kennslustofum allan daginn að hlusta á kennarann tala, þá er námið byggt í kringum okkur. Nemendur fá mjög mikið sjálfstæði, og það tekur mjög mikið stress af manni. Það eru heldur engin lokapróf, heldur eru lokaverkefni, sem gerir lífið í skólanum miklu minna stressandi.“

Halldór ætlar ætlar að vinna í eitt ár og síðan fara í háskóla í Noregi í Nord University og leggja áherslu á tölvuleikjagerð. „Ég er frekar öruggur um að ég komist inn, þar sem reynslan sem ég hef fengið frá MÁ mun hjálpa mér mjög mikið í framtíðinni.“