Fara í efni

Aldrei fleiri nemendur í MÁ

Skólasetning MÁ 16.ágúst. Nemendur tilbúnir í nýtt skólaár.
Skólasetning MÁ 16.ágúst. Nemendur tilbúnir í nýtt skólaár.

Skólasetning Menntaskólans á Ásbrú var miðvikudaginn 16.ágúst. Nemendur, starfsfólk og gestir hitttust á sal skólans og var létt og góð stemmning yfir hópnum. Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður MÁ, flutti ávarp, kynnti starfsfólk og setti haustönn 2023. Í ávarpi Ingigerðar kom fram að MÁ er að hefja fimmta starfsárið og í fyrsta sinn er boðið uppá tvær námsbrautir til stúdentsprófs, tölvuleikjagerð og opna braut. Lagt er upp með að nemendur MÁ útskrifist með staðgóða þekkingu í skapandi greinum, tölvuleikjagerð, hönnun og almennum bóknámsáföngum. Í MÁ er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og góða vinnuaðstöðu. MÁ er í formlegu samstarfi við Icelandic Gaming Industry (IGI) og eiga nemendur eftir að njóta góðs af því samstarfi í vetur. Það eru 92 nemendur skráðir í skólann og þar af eru 33 nýnemar.  Á skólasetningunni voru nemendur hvattir til að vera skipulagðir, áræðnir, sjálfstæðir og hugrakkir. ,,Leggið ykkur fram og njótið ferðalagsins. Það verða áskoranir og stundum mögulega finnst ykkur þetta erfitt. Umfram allt finnið tilgang, ræðið við okkur, pantið tíma hjá námsráðgjafa og leitið allra leiða til að skipuleggja ykkur vel." sagði Ingigerður í ávarpi til nemenda. 

Skúli Freyr Brynjólfsson áfangastjóri hitti nemendur í tilefni skólabyrjunar og aðstoðaði varðandi töflubreytingar og skipulag lotunnar. Það var mikið líf og fjör á göngum skólans og nemendur virtust fullir eftirvæntingar að hefja nýtt skólaár. Í vetur starfa 13 kennarar í mismunandi stöðugildum. Tvær breytingar hafa orðið á kennarahópnum, Sverrir Bergmann Magnússon og Sigrún Svafa Ólafsdóttir sneri sér að öðru og þökkum við þeim fyrir samstarfið. Dóra Hanna Sigmarsdóttir dönskukennari hóf störf um mánaðarmótin og bjóðum við hana velkomna í kennarahóp MÁ.

Eftir skólasetninguna hófst kennsla samkvæmt stundaskrá hjá eldri nemum. Nýnemar fóru í hópefli og ratleik sem endaði með pizzuveislu á sal skólans.