Fara í efni

Tvenn verðlaunaverkefni í Fyrirtækjasmiðju Ungra Frumkvöðla

Verðlaunahafarnir ásamt Önnu Albertsdóttur kennara í Frumkvöðlafræði
Verðlaunahafarnir ásamt Önnu Albertsdóttur kennara í Frumkvöðlafræði

Nemendur Menntaskólans á Ásbrú gerðu gott mót í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla en tvö lið komust í úrslit og unnu þau bæði til verðlauna við hátíðlega athöfn sem haldin var í höfuðstöðvum Arion banka. Voru það Báru Bræður með uppfinningu sína Báruskaftið og Black Sky Games með leik sinn Total Chaos sem báru sigur úr býtum. 

 

Báru Bræður

Verðlaun fyrir áhugaverðustu nýsköpunina hlaut liðið Báru Bræður, sem er skipað nemendum úr Menntaskólanum á Ásbrú, með hugmyndina um Báruskaftið sem er ný gerð naglbíts.

Hugmyndin af Báruskaftinu kom þegar einn liðsfélaganna var að vinna við að losa járn af fjárhúsi sem átti að rífa. Mikið af járninu var nýlegt og var því sóun að skemma bárurnar á því það með því að nota kúbein og hamar. Því var farið í þróunarvinnu að finna lausn á því hvernig væri hægt að losa upp naglana án þess að beygla járnið. Úr þessari vinnu leit Báruskaftið dagsins ljós. 

Verkfærið virkar þannig að tveir sívalingar leggjast upp að bárunum á járninu og rúlla með þegar verkfærinu er þrýst niður til að losa naglann. Með þessu myndast vörn sitthvoru megin við báruna svo átakið þrýsti henni ekki niður. Langt skaftið á Báruskaftinu auðveldar svo alla vinnu og hlífa líkamanum því ekki þarf að liggja á hnjánum eða vera í beygju við vinnuna. Á tímum þar sem verndun umhverfis er mikil og vakning er á því að endurnýta hluti kemur Báruskaftið sterkt inn. Þegar skipt er um þak af húsi er járnið oftar en ekki heilt nema á köntum og álagspunktum. Þetta járn er hægt að nýta aftur til annara verka t.d. á geymsluskúra o.fl.

Báru Bræður skipa Styrmir Þór Wíum, Arnoddur William, Þorsteinn Hugi og Róbert Sindri, nemendur Menntaskólans á Ásbrú.

 

Black Sky Games

Liðið Black Sky Games hlaut verðlaun fyrir bestu tæknilausnina/forritunina fyrir leik sinn Total Chaos sem er nýr fjölspilunarleikur á netinu.

Hugmyndin með leiknum var að hanna bjartan og skemmtilegan leik sem að hentar öllum aldurshópum. Liðið lagðist fyrst í mikla rannsóknarvinnu þar sem hópurinn skoðaði gamla leiki í sama stíl sem notið höfðu velgengni í tölvuleikja heiminum. Þá var reynt að setja puttann á það sem gerði þá svona fræga. Niðurstaðan var að lykillinn að góðum leik sé samspilið milli spilara og var það uppsprettan af Total Chaos.

Total Chaos er fjörugur fjölspilunar (e. multiplayer) leikur þar sem 2 - 4 vinir eða ókunnugir geta keppt í ýmsum þrautum sem krefjast mismikillar samvinnu. Leikurinn er bjartur einfaldur á augað og hentar öllum aldurshópum. Þrautirnar verða þrjár við útgáfu leiksins en þær verða fleiri eftir því sem að spilendahópur (e. playerbase) leiksins stækkar. Reyna þær allar á mismunandi þætti í getu spilarans en þær kallast Knock Down, Get Hit og Funky Wonky.

Black Sky Games skipa Aron Birgir, Lovísa Gunnlaugsdóttir, Stefán Ingi og Viktoría Rose, nemendur Menntaskólans á Ásbrú.

 

Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla

Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla er haldin árlega á vegum samtakanna Ungir Frumkvöðlar á Íslandi. Í Fyrirtækjasmiðjunni stofna nemendur og reka eigið fyrirtæki auk þess að vinna að viðskiptahugmynd á 13 vikna námskeiði sem miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Þátttakendur fjármagna stofnun fyrirtækis með sölu hlutabréfa, ráða í stöðugildi og búa til ítarlega viðskiptaáætlun sem er hrint í framkvæmd og taka þátt í vörusýningu að því loknu. Fyrirtækið að lokum gert upp með ársreikningi og skýrslu í lok tímabilsins.

 

Myndir frá athöfninni er að finna hér