Fara í efni

,,Tækifæri sem flestir framhaldsskólanemar fá ekki''

Í dag fór fram fyrsta útskrift Menntaskólans á Ásbrú. Menntaskólinn á Ásbrú hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrsti nemendahópurinn hóf nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð og er því áætluð útskrift hópsins vorið 2022. Lovísa Gunnlaugsdóttir, 18 ára Keflavíkurmær, útskrifaðist hins vegar hálfu ári á undan áætlun og fær því heiðurinn á því að vera fyrsti útskriftarnemandi skólans. Lovísa útskrifaðist með glæsibrag með 9,78 í meðaleinkunn og var hún verðlaunuð fyrir framúrskarandi námsárangur með gjöf frá CCP og peningaverðlaunum frá Keili.

Lovísa valdi nám við MÁ vegna áhuga hennar á tónlist, hljóð- og myndvinnslu. ,,Ég spila á nokkur hljóðfæri og finnst gaman að syngja með. Ég hef mikinn áhuga á tónlist, hljóð- og myndvinnslu og tengir það vel við námið í MÁ. Námið í MÁ er mjög áhugavert og eru margir möguleikar í því” segir Lovísa Gunnlaugsdóttir, fyrsti útskriftarnemi Menntaskólans á Ásbrú.

Nemendur frá MÁ útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa.

Æfir fimleika 18 klukkustundir á viku

Samhliða náminu í MÁ hefur Lovísa æft fimleika af kappi 18 klukkustundir á viku auk þess sem hún þjálfar og dæmir fimleika. Þessi framtakssama stelpa hefur einnig sinnt félagsstörfum í MÁ og hefur hún verið í nemendaráði skólans frá upphafi þar sem tekist er á við fjölbreytt verkefni. Nú síðast tók hún að sér skipulagningu á útskriftarferð Menntaskólans á Ásbrú til Mexíkó þar sem mikil tilhlökkun ríkir fyrir. Stefnt er að því að fara eftir útskrift árgangsins í vor ef aðstæður leyfa.

Áskorun að taka námið á styttri tíma

Það hefur verið mikil áskorun að klára stúdentinn á svona stuttum tíma. ,,Þetta er búið að vera mikil vinna, krefst mikillar skipulagningar og maður þarf að vera staðráðinn til þess að láta þetta ganga“ segir Lovísa.

Skipulagning námsins í MÁ hefur einnig haft sitt að segja ,,Vendinámið er klárlega framtíðin. Þetta fyrirkomulag hentaði mér mjög vel. Einnig tel ég það vera kostur að skipta árinu upp í fjórar lotur. Það gefur manni tækifæri til þess að fara dýpra í hvert fag, vegna þess að maður er þá í færri áföngum í einu. Í MÁ hef ég lært ótrúlega margt hagkvæmt sem ég kem til með að nýta mér í framtíðinni, sama hvaða háskólanám ég kem til með að velja mér. Tenging við atvinnulífið er einnig stór kostur. Haldnar hafa verið keppnir í samstarfi við tölvuleikjafyrirtæki.”

Lovísa tók einmitt þátt í keppninni Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla 2021 þar sem hún og þrír bekkjarfélagar hennar fengu verðlaun fyrir bestu tæknilausnina/forritunina. Í áfanganum frumkvöðlafræði stofnuðu þau fyrirtækið „Black Sky Games“ og var það tölvuleikurinn þeirra „Total Chaos“ sem skilaði þeim verðlaununum.

,,Tækifæri sem flestir framhaldsskólanemar fá ekki”

Lovísa hefur verið í starfsnámi hjá stærsta tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi, CCP, núna í síðustu lotu. Lokaverkefni hennar byggist að hluta til af þessari reynslu. "Sú reynsla hefur verið skemmtileg og er fræðandi að kynnast tölvuleikjabransanum í gegnum þetta þekkta fyrirtæki. Þetta fer í reynslubankann og er ég mjög þakklát fyrir það tækifæri. Tækifæri sem flestir framhaldsskólanemar fá ekki.“

Framtíðin björt en óráðin

,,Ég ætla að taka mér vorönnina í að skoða hvað ég vil gera í framhaldinu en á meðan mun ég halda áfram að æfa, þjálfa og dæma fimleika. Ég stefni á háskólanám en hef mjög breytt áhugasvið og það er margt sem kemur til greina” segir Lovísa að lokum.

Við óskum Lovísu innilega til hamingju með útskriftina og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.