Fara í efni

Nemendur MÁ fá styrk fyrir lokaverkefni úr Leiðtogaskóla Íslands

Þeir Brimar Jörvi og Stefán Ingi, nemendur Menntaskólans á Ásbrú, sóttu hinn árlega Leiðtogaskóla Íslands á dögunum. Lokaverkefni þeirra í Leiðtogaskólanum hefur þegar fengið styrk og verður því spennandi að fylgjast með framvindunni.

Brimar Jörvi Guðmundsson og Stefán Ingi Víðisson byrjuðu báðir í Menntaskólanum á Ásbrú haustið 2019 þegar skólinn var stofnaður. Brimar, sem kemur frá Dalvík, byrjaði upphaflega í VMA þar sem hann kláraði grunnnám rafiðna en ákvað að færa sig yfir í MÁ vegna áhuga hans á tölvuleikjahönnun. Keflvíkingurinn Stefán kynntist MÁ á kynningu framhaldsskólanna og segir að það hafi ekki verið aftur snúið eftir það „mér fannst mjög heillandi hvað námið var nútímalegt og náði yfir breiðan grunn.”

Brimar Jörvi og Stefán Ingi hafa báðir verið iðnir við að leggja sitt af mörkum í MÁ og er Brimar núverandi ritari nemendafélagsins (NFMÁ) og er Stefán sitjandi formaður. Brimar hafði áður verið formaður nemendafélagsins og Stefán formaður skemmtinefndar og sitja þeir því sjaldnast auðum höndum. Til viðbótar buðu þeir sig fram í stjórn SÍF (Samband íslenskra framhaldskólanema) og voru þeir kosnir inn sem varaforseti og alþjóðafulltrúi.

Í Leiðtogaskóla Íslands á dögunum, sem veitir ungu fólki í félagsstörfum jafningjafræðslu með námskeiðum af fjölbreyttum toga, unnu þeir að verkefni er kallast Culture Class Videos. Landssamband Ungmennafélaga (LUF) heldur utan um skólann og er nemendum kennt ýmislegt er viðkemur leiðtogastörfum líkt og ábyrgðarhlutverk stjórnenda, fundarstjórnun, ræðumennska, fjármögnun, sjálfsstyrking, koma sér á framfæri, verkefnastjórnun ásamt ýmislegu fleiru.

Þema Leiðtogaskólans í ár var innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna í ungmennastarf og ákváðu þeir Brimar og Stefán því að útbúa lokaverkefni sem byggir á Heimsmarkmiði 4, Menntun fyrir alla. Verkefnið þeirra, Culture Class Videos, gengur út á að gerð verði aðgengileg fræðslumyndbönd sem ætluð eru ungum innflytjendum á Íslandi. Myndböndin, sem yrðu þýdd á fjölmörg tungumál, er ætlað að veita innsýn í menningarheim ungra Íslendinga og hjálpa því ungum innflytjendum að aðlagast betur nýju samfélagi.

Við óskum Brimari og Stefáni Inga innilega til hamingju með uppskeruna og óskum þeim alls hins besta með framhaldið. Það verður gaman að fylgjast með þessum frambærilegu leiðtogum í framtíðinni.