Fara í efni

MÁ í samstarf við Sálfræðistofu Suðurnesja

Á dögunum skrifaði Menntaskólinn á Ásbrú undir samstarfssamning við Sálfræðistofu Suðurnesja. Samningurinn felur það í sér að nemendur MÁ hafa aðgang að sálfræðiþjónustu innan ákveðinna tímamarka sem eru mun styttri en gengur og gerist.

Námsráðgjafar MÁ hafa milligöngu um þessi viðtöl og vísa nemendum áfram til Sálfræðistofunnar þegar þörf er á og greiðir MÁ jafnframt hluta kostnaðar við viðtölin.

„Við í MÁ erum afar ánægð með að þessi samningur sé í höfn, enda teljum við að þjónusta sálfræðings eigi að vera jafn sjálfsögð í samfélaginu eins og önnur þjónusta í heilbrigðiskerfinu. Við líkamlegum kvillum hika fáir við að leita aðstoðar læknis, en á sama hátt ætti enginn að þurfa að hika við að leita aðstoðar sálfræðings ef vandinn er af andlegum toga“ sagði Skúli Freyr Brynjólfsson eftir undirritun samningsins.

Þeir nemendur eða forráðamenn sem óska eftir frekari upplýsingum er bent á að hafa samband við námsráðgjafana okkar, þau Þóru, Thelmu eða Skúla.