ÍAK styrktarþjálfari

ÍAK styrktarþjálfari er einstakt nám fyrir fagfólk í styrktar- og ástandsþjálfun íþróttafólks á afreksstigi. Námið er mjög hagnýtt, hnitmiðað og skipulagt af íslenskum og erlendum sérfræðingum úr heimi styrktarþjálfunar. Nemendur útskrifast með viðurkenningu sem ÍAK styrktarþjálfarar.

Fyrirspurnum svarar Haddý Anna Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ÍAK

 • Um ÍAK styrktarþjálfaranámið

  Mikil áhersla er á hagnýta þætti í þjálffræði. Farið verður ítarlega í gerð æfingakerfa fyrir mismunandi æfingatímabil hvort sem er fyrir einstaklinga eða lið. Kennd verða hagnýt frammistöðupróf, mismunandi aðferðir lyftinga, mismunandi upphitunaraðferðir fyrir æfingar og leiki eftir eðli íþróttagreinar, kraft-, hraða- og liðleikaþjálfun. Einnig verður lögð áhersla á næringu íþróttamanna og starfsumhverfi styrktarþjálfara á Íslandi í samanburði við erlendan starfsvettvang.

  Í lok námsins munu þátttakendur hafa öðlast færni til að skapa og þjálfa íþróttamenn í fremstu röð. Farið verður ítarlega í:

  • Mælingar íþróttafólks
  • Mismunandi upphitunaraðferðir eftir íþróttagreinum, fyrir æfingar og leiki
  • Næringarfræði með áherslu á þarfir íþróttafólks (sports nutrition)
  • Grunn í tæknilegri framkvæmd æfinga í kraftlyftingum og ólympískum lyftingum
  • Kynning á þjálfunarformunum og hvernig má blanda þessum æfingum í æfingarkerfi íþróttamannsins
  • Gerð æfingakerfa fyrir mismunandi æfingatímabil eftir eðli íþróttagreina fyrir einstaklinga og lið
  • Starfsumhverfi styrktarþjálfara á Íslandi samanborið við önnur lönd
  • Staðan í dag og framtíðarmöguleikar fyrir styrktarþjálfara
  • Fyrirkomulag náms

   • Umsækjendur með viðeigandi grunnmenntun. ÍAK einkaþjálfarar, íþróttafræðingar, sjúkraþjálfarar og aðrir með viðeigandi grunnmenntun, geta sótt um að fá allt að helming námsins metið. 
   • Umsækjendur án viðurkenndar grunnmenntunar taka fullt nám (tvær annir), grunn á haustönn samhliða einkaþjálfaranemum.
  • Markmiðið með náminu

   • skapa framúrskarandi styrktar- og ástandsþjálfara sem hafa hæfni til að búa til einstaklingsmiðaðar æfingaáætlanir fyrir íþróttamenn og lið með það að markmiði að hámarka getu þeirra og lágmarka hættu á meiðslum.
   • nemendur skilji samþættingu styrktarþjálfunar og íþróttaþjálfun ólíkra einstaklinga úr ýmsum íþróttagreinum.
 • Fyrir hverja er námið?

  ÍAK styrktarþjálfaranámið er sniðið til að mæta þörfum fólks með grunnþekkingu á íþrótta- og þjálfarafræðum og vilja bæta við þekkingu sína til að geta unnið einstaklingsmiðað með styrktar- og ástandsþjálfun íþróttamanna. Námskeiðið nýtist einnig íþróttamönnum sem vilja ná hámarksárangri í sinni íþrótt.

 • Inntökuskilyrði

  ÍAK styrktarþjálfaranámið er sniðið til að mæta þörfum fólks sem vill sérhæfa sig í styrktar- og ástandsþjálfun íþróttarfólks, hvort sem er í hópastarfi eða með einstaklingum.

  Gerð er krafa um að umsækjendur hafi reynslu af íþróttum og líkamsrækt og séu í góðu líkamlegu formi.

  Þeir sem hafa lokið ÍAK einkaþjálfaranámi, háskólaprófi eða stúdentsprófi njóta forgangs í námið. Gerð er lágmarkskrafa um 18 ára aldur og 100 nýjar einingar í framhaldsskóla (sbr. hálft stúdentspróf).

  Allir umsækjendur fara í inntökuviðtal hjá verkefnastjóra ÍAK og námsráðgjafa.

  Umsækjendur eru hvattir til að vanda umsókn og senda inn umbeðin gögn s.s. ferilskrá, afrit af skólaskírteini, persónulegt bréf og passaljósmynd. Í persónulegu bréfi sem óskað er eftir í umsókninni skal umsækjandi m.a. segja frá sjálfum sér, telja fram íþróttareynslu, segja frá hvers vegna sótt sé um námið og hvert markmiðið sé með því að sækja þetta nám.

  Öllum umsóknum er svarað. Athugið að fjöldatakmarkanir eru í námsbrautina.

 • Stundatöflur og skipulag náms

  Námið er kennt á tveimur önnum, haustönn og vorönn í fjarnámi með staðlotum. Mætingarskylda er í staðloturnar. Staðloturnar eru ýmist kenndar í fjarfundi á Teams, í skólahúsnæði Keilis að Ásbrú eða í World Class í Reykjavík. 

  Eftirfarandi áfangar eru kenndir á ensku af erlendum kennurum:

  • Styrktarþjálfun. SOL (Kraftlyftingar og ólympískar lyftingar)  | Dietmar Wolf, þjálfari þýska landsliðsins í kraftlyftingum og fyrrum landsliðsþjálfari Noregs í kraftlyftingum 
  • Mælingar. MÆL(performance testing & measurment) | Rick Howard. MSc, CSCS
  • Hönnun Æfingakerfa ÆFS (program design) | Rick Howard. MSc, CSCS
  • Starfsumhverfi styrktarþjálfara. STU | Rick Howard. MSc, CSCS

  Hér fyrir neðan eru hlekkir á stundatöflur yfir staðarlotur námsins. 

 • Bókalisti

  Haustönn: 

  • Vöðva- og hreyfifræði: Clinically Oriented Anatomy, 8. útgáfa, höfundar: Keith L Moore, Arthur F Dalley, Anne M.R. Agur
  • Sálfræði: Foundation of Sport and Exercise Psychology, 7. útgáfa, höfundar: Daniel Gould og Robert Weinberg. 

  Vorönn:

  • Skyndihjálp: Skyndihjálp og endurlífgun útgáfuár 2012. Rauði Kross Íslands. Hægt er að nálgast kennslubókina á skrifstofu Rauða krossins, Efstaleiti 9.
  • Styrktarþjálfun: Olympic Weightlifting for Sports útgáfuár 2012, höfundur: Greg Everett.
  • Hönnun æfingakerfa/Starfsumhverfi styrktarþjálfara/Mælingar og greiningar: Essentials of Strength training and conditioning, 4. útgáfa, NSCA - National Strength & Conditioning Association.

  Athugið að bókalistinn er ekki tæmandi. Nemendur fá nánari upplýsingar hjá kennurum varðandi námsefni. Hægt verður að kaupa námsbækur í bóksölu stúdenta. 

 • Kennarar og leiðbeinendur

  Allir kennarar námsins hafa mikla reynslu og þekkingu á sínu fagi. Erlendir sérfræðingar koma að nokkrum áföngum og færa með sér sérfræðiþekkingu úr rótgrónu umhverfi styrktarþjálfunar erlendis frá. Íslenskir sérfræðingar okkar hafa kennt við ÍAK námið við góðan orðstír, sumir árum saman. 

 • Námsgjöld

  Allar upphæðir eru endurskoðaðar árlega miðað við þróun vísitalna og annarra þátta sem hafa áhrif á rekstur skólans. Tölur og dagsetningar settar fram með fyrirvara um villur.

  Nám í ÍAK styrktarþjálfun er góð fjárfesting fyrir þá sem vilja gera styrktarþjálfun að aðalstarfi, aukastarfi eða einfaldlega fjárfesta til framtíðar í góðri þekkingu á líkamsjálfun og bæta eigin frammistöðu í íþróttum.

  • Heildar námsgjöld fyrir fullt nám eru kr. 610.500
  • Við inngöngu í námið er gefinn út reikningur fyrir staðfestingargjaldi kr. 75.000. Áður en námið hefst er síðan sendur út reikningur fyrir fyrri önninni, kr. 230.250 Þá er sendur úr reikningur fyrir seinni önninni í lok fyrri annar, kr. 305.250
  • Verð fyrir eina önn sem sérhæfingu* (án grunnnáms) er kr. 305.250

  * ÍAK útskrifaðir einkaþjálfarar, íþróttafræðingar og sjúkraþjálfarar sem hafa þegar lokið áföngum er jafngilda grunnáföngum íAK styrktarþjálfara og geta því sótt um að fá inngöngu beint í sérhæfingu ÍAK styrktarþjálfara.

  Innifalið í námsgjöldum

  Innifalið í námsgjöldum er, auk kennsluaðstöðunnar í Sporthúsinu að Ásbrú og kennslunnar, frítt kort í líkamsrækt á meðan á námi stendur. Nemendur sem sækja staðlotur í Reykjanesbæ fá kort í World Class.

  Reglur um námsgjöld 2020 - 2021

  1. Staðfestingargjald er innheimt strax að lokinni samþykkt í nám.
  2. Staðfestingargjöld eru óafturkræf, hætti nemandi við að hefja nám hjá Keili.
  3. Staðfestingargjöld eru innheimt fyrir haustönn hjá nemendum í fullu námi (grunn og sérhæfingu) sem og umsækjendum með undanþágu frá grunni. Gjöldin skulu vera að fullu greidd áður en nám hefst á viðkomandi önn eða námsleið.
  4. Nemandi sem ekki hefur greitt gjöld sín þegar önn hefst fær ekki að hefja nám á viðkomandi önn eða námsleið og aðgangi hans að net- og kennslukerfum Keilis er lokað.
  5. Skóla- og efnisgjöld eru óendurkræf, hafi nemandi hafið námið. Vegna sérstakra persónulegra aðstæðna getur nemandi óskað eftir að taka hlé á námi þar til viðkomandi námslína hefst aftur og getur þá átt skóla- og efnisgjöld inni í allt að eitt og hálft ár.
  6. Gjöld skulu greidd með útsendum greiðsluseðli.

  Nánari upplýsingar um gjaldskrá Keilis

  Boðið er uppá kortalán. Umsækjendur eru hvattir til að kanna námskeiðsstyrki hjá sínum stéttarfélögum og íþróttafélögum.

  Við vekjum athygli á því að samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, telst til rekstrarkostnaðar kostnaður við námskeið sem tengjast starfinu beint. Tekur það m.a. til námskeiða sem ætluð eru til viðhalds menntun í starfsgrein viðkomandi aðila og til þess að fylgjast með nýjungum í starfsgreininni.

 • Hvenær þarf ég að borga?

  Um leið og þú ert samþykkt/ur í ÍAK námið greiðir þú staðfestingargjald 75.000kr. til að tryggja þitt sæti. Um mánaðarmótin júlí/ágúst er sendur út reikningur fyrir fyrri önninni 230.250 kr. Í lok árs er sendur út reikningur fyrir vorönninni 305.250 kr. Hér getur þú skoðað námsgjöldin nánar.

 • Umsagnir nemenda

  Keilir hefur útskrifað um 700 ÍAK einka- og styrktarþjálfara. Samkvæmt könnun sem gerð var á útskrifuðum þjálfurum eiga starfandi ÍAK einkaþjálfarar auðvelt með að fá vinnu við þjálfun að námi loknu. Hér má sjá spjall við nokkra útskrifaða ÍAK þjálfara um hvað þeir eru að gera að útskrift lokinni. 

  • Sigga Lilja Gunnarsdóttir - ÍAK einkaþjálfari

   Ég hef alltaf haft rosalega mikinn áhuga á almennri heilsu og hreyfingu. Eitt af því skemmtilegasta sem ég veit um er að hreyfa mig og ég veit fátt betra en að gleyma mér á góðri æfingu. Þó svo að það sé frábært að sjá árangur líkamlega og bætingar í æfingum þá hefur hreyfing ekki síður áhrif á mig andlega. Þetta er eitthvað sem ég get ekki slept í daglegri rútínu.

   Ég útskifaðist sumarið 2018 úr ÍAK einkaþjálfarnáminu hjá Keili. Mér fannst námið mjög fróðlegt og skemmtilegt. Það sem ég lærði í náminu hefur hjálpað mér alveg helling í starfi sem einkaþjálfari og nýtist mér bæði við þjálfun annarra og í minni eigin þjálfun. Ég hugsa mikið um góða líkamsstöðu í æfingunum og í daglegu lífi. Kúnnar fá frá mér spurningalista þar sem ég skoða sögu einstaklings, markmið, meiðsli, styrkleika og veikleika svo eitthvað sé nefnt sem nýtist mér svo í gerð minni á prógrömmum til þess að hámarka árangur viðkomandi. Ég skoða líkamsstöðu og geri hreyfigreiningar í einkaþjálfun þegar ég ákveð hvað ég vil leggja áherslu á í æfingum. Faglegt og skemmtilegt nám hjá ÍAK kenndi mér mjög mikið sem skilar sér núna til viðskiptavina minna. 

   Hægt og rólega hef ég verið að koma mér af stað við að vinna sem einkaþjálfari. Þetta er heilmikil vinna með uppeldi þriggja stelpna ásamt eiginmanni mínum. Ég er að vinna sem einkaþjálfari hjá Reebok fitness. Ég er með fólk bæði í einkaþjálfun og fjarþjálfun. Mig langar til þess að hjálpa fólki að koma hreyfingu inn í sitt daglega líf, þannig að fólk hafi gaman af, finni fyrir jákvæðum breytingum með bættri heilsu og það verði hluti af lífinu. Ég hlakka til framtíðarinnar og langar að bæta ennfrekar við þekkingu mína í heilsufræðum.

  • Gunnar Stefán Pétursson - ÍAK einka- og styrktarþjálfari

   ÍAK námið hjálpaði mér gríðarlega mikið. Ég er bæði með réttindi sem ÍAK einkaþjálfari og Styrktarþjálfari. Allt frá því að ég kláraði námið 2016 (einkaþjálfarann) þá fóru hlutirnir af stað hjá mér. Hef unnið frá því 2017 í 100% starfi sem Einkaþjálfari og er aðeins rétt að byrja og hefur verið nóg að gera hjá mér frá því ég byrjaði að þjálfa. Ég er núna þjálfari í World Class í fullu starfi og margt úr náminu nýtist mér enn þann daginn í dag.

   Styrktarþjálfarinn (útskrift 2018) hjálpaði mér að bæta við mig ýmsum tækniatriðum og að læra á mun ýtarlegri hluti hvað varðar styrkingu á íþróttarfólki, einnig hvernig uppsetning á prógrömum, næringu og fleira.

   Einkaþjálfaranámið hefur sérstaklega mikið nýst mér við greiningu á fólki og hef ég náð að blanda hvoru tveggja vel saman til að gera mína þjálfun en betri.

   Það sem reyndist mér einnig frábærlega í náminu var að hvernig ég ætti að koma mér á framfæri og að verðsetja mig eitthvað sem mörgum öðrum þjálfurum stundum skortir og mæta á markaðinn og halda að undirbjóða alla sé að fara virka, þessir aðilar endast ekki lengi sem þjálfarar, að hafa fengið fagaðila til að fara yfir ýmsa hluti hvað varðar bókhald, markaðsettningu og fleira reyndist mér dýrmætt í náminu eins og flest allt annað sem komið var inn á í öðrum fögum.

   Virkilega frábærir kennarar, starfsólk og aðrir sem koma að þessu námi til að útskrifa alltaf flottari einstaklinga út úr því á hverju ári.

   Ég myndi allan daginn ganga í gegnum skólann aftur ef það væri eitthvað sem gæti aukið þekkingu mína enn meira. Námið hefur breyst frá því ég kláraði og er það vottað sem ég mun sækja mér þegar að því kemur. Og er ég sem þjálfari aldrei næginlega mikið menntaður og þarf alltaf að vera að auka þekkingu mína með námskeiðum og öðru tengdu þjálfun.

  • Gisli Steinar Sverrisson - ÍAK einkaþjálfari

   Ég starfa sem einkaþjálfari og námskeiðakennari hjá Hress Heilsurækt í Hafnafirði.

   ÍAK námið náði að uppfylla allar mínar kröfur og var það ótrúlega skemtilegt að hafa fengið að vera partur af þessu flotta námi. Allir kennararnir voru mjög faglegir og aldrei var leiðinleg stund í tímum heldur voru alltaf krefjandi verkefni sem biðu okkar og maður vildi ólmur leysa.

   Námið náði að opna dyr fyrir mig í þjálfunarbransanum og nú er ég að þjálfa fólk og reyna að smita það af jákvæðni og áhuga um að koma hreyfingu inn í sýna daglegu rútínu og viðhalda henni eins lengi og hægt er.

    
  • Bjarki Rúnar Sigurðsson - ÍAK styrktarþjálfari

   ÍAK styrktarþjálfarinn er klárlega skemmtilegasta nám sem ég hef farið í en þar fékk ég kennslu frá mörgum virkilega góðum kennurum sem hafa góða reynslu og hæfni á sínu sviði. Reynslu sem hefur nýst mér virkilega mikið í minni þjálfun hvort sem það er í almennri líkamlegri þjálfun eða þegar ég vinn með íþróttafólki.

   Eftir að ég kláraði ÍAK námið hafa margar dyr opnast fyrir mér en ég hef meðal annars fengið að vinna sem styrktarþjálfari hjá KKÍ í U-20 kvenna og A-landsliðs kvenna. Einnig sé ég um styrktarþjálfun hjá meistaraflokki kvenna í körfu hjá Haukum ásamt nokkrum yngri flokkum, auk afreksskóla- og afreksviðs Hauka.

  • Víglundur Laxdal - ÍAK einkaþjálfari 2010

   Hvar ertu staddur í lífinu í dag? (Spurt í apríl 2012)

   Ég er bara þokkalega staddur takk fyrir, við fjölskyldan erum flutt í Mosfellsbæ og líkar mjög vel þar. Ég er enn í sama aðalstarfi og þegar ég hóf námið en hef haft þjálfun sem aukastarf og áhugamál en það var einnig markið mitt eftir að náminu lauk.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Það er ekkert mál að fá vinnu sem þjálfari með þetta skírteini í vasanum enda ÍAK þjálfarar búnir að vinna sér inn gott orðspor. Eftir námið hef ég starfað við þjálfun í Baðhúsinu, mjög áhugavert og skemmtilegt starf þar sem ég var bæði einkaþjálfari og kenndi Tabata í hóptímum. Ég hef einnig fengist lítillega við styrktarþjálfun hjá íþróttafélögum. Síðast liðið sumar ákvað ég svo að taka mér frí og einbeita mér að þjálfun sonar míns sem keppti í hjólreiðum á Olympíuhátíð æskunnar og eftir það hef ég að mestu sinnt honum áfram og svo ráðlagt nokkrum einstaklingum í gegnum næringarráðgjöf og fjarþjálfun. Í dag er ég svo að undirbúa mig fyrir nýjung sem mig langar að koma með inn á markað í haust og mun ég kynna það á heimasíðunni minni þar að kemur.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Já ég hef notað hana nánast eingöngu og svo bætt við mig góðum punktum sem hafa safnast í reynslubankann.

   Hverjir eru þínir helstir viðskiptavinir?

   Mest íþróttafólk og fólk með þyngdarvandamál.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Ég hef horft svolítið til Lee Taft og Bent Andersen og svo lesið greinar á netinu eftir hina ýmsu aðila bæði um þjálfun og mataræð.

    

  • Guðrún Helga Tryggvadóttir - ÍAK einkaþjálfari 2011

   Guðrún Helga ÍAK einkaþjálfariHvar ertu stödd í lífinu í dag? (Spurt í mars 2012)

   Ég er búsett á Sauðárkróki með fjölskyldu minni (maka og 2 og 1/2 árs dóttur). Ég er í 100% vinnu sem grunnskólakennari í Varmahlíðarskóla og svo er ég með einka- og hópþjálfun í Þreksport Sauðárkróki. Ég hef líka boðið upp á fjarþjálfun og eru margir sem nýta sér það, þó flestir sem eru búsettir á Sauðárkróki. Ég tók að mér í febrúar þessa árs 2012, að leysa af hópþjálfun í spinning. Ég er lærður lögreglumaður og er einnig í hlutastarfi hjá lögreglunni á Sauðárkróki. Ég hef sjálf verið mikið í íþróttum í gegnum tíðina og spilaði handbolta í 15 ár. Ég flutti á Sauðárkrók byrjun árs 2009 og þar sem enginn handbolti er þar lagði ég skóna á hilluna í smá tíma og eignaðist yndislega dóttir sama ár. Ég byrjaði svo aftur í handboltanum með KA/ÞÓR  á Akureyri en þar sem það fer mikill tími í keyrslu til að komast á handboltaæfingar hef ég ekki spilað síðan í lok nóvember 2011. Ég æfi sjálf daglega og hugsa mikið um eigin heilsu og líkamlegt hreysti.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Það gekk mjög vel, ég byrjaði strax að þjálfa eftir útskrift í júní 2011 og hefur það gengið framar vonum.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Ég er aðallega að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndarfræði sem ég lærði í ÍAK náminu hjá Keili. Það hefur nýst mér mjög vel.

   Hverjir eru þínir helstir viðskiptavinir?

   Ég hef verið með mjög fjölbreyttan hóp í þjálfun hjá mér. Ég hef tekið að mér styrktarþjálfun hjá m.fl. kvenna Tindastóls í fótbolta á Sauðárkróki, er mikið að vinna með fólki sem er í yfirþyngd og með einhver stoðkerfisvandamál. Ég hef einnig unnið með unglingum og íþróttafólki.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Ég reyni að lesa allar þær nýju greinar sem koma og fara, einnig horfi ég til hugmynda frá Mike Boyle og Eric Cressey. Ég reyni að nýta mér það nýjasta sem kemur og prófa það í minni þjálfun, stundum hentar það og stundum ekki.

   Hvar er hægt að finna þig ef maður vill komast í þjálfun til þín?

   Hægt er að hafa samband við mig á netfangið gudrun_17@hotmail.com eða hafa samband við Þreksport á Sauðárkróki í síma 453-6363 og fá frekari upplýsingar þar.

  • Guðjón Henning - ÍAK einkaþjálfari 2010

   Hvar ertu staddur í lífinu í dag? (Spurt í mars 2012)

   Eftir að ég útskrifaðist úr Keili hóf ég að nýju nám í eðlisfræði við Háskóla Íslands og stunda það enn. Á sumrin hef ég verið að vinna fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar við þjálfun barna og unglinga. Í vetur meðfram námi hef ég einnig verið að þjálfa krakkana í klúbbnum. Á síðasta ári komst ég aftur á ný í landsliðið í golfi og vil ég meina að ÍAK námið hafi átt sinn þátt í því, þar sem ég fékk meiri áhuga á líkamsrækt og æfingum almennt, ásamt því að vera mun fróðari á því sviði.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Ég stefndi alltaf að því að fara í nám eftir Keili svo ég sóttist í raun ekkert eftir því að fá einhverja vinnu. Þó buðust mér störf við líkamsþjálfun eftir útskriftina sem ég þurfti því miður að hafna. Hins vegar hef ég haft nóg að gera á sumrin(og flesta vetur) við golfþjálfunina svo ég er allavega í góðri þjálfun að segja fólki hvað það á að gera. Það virðist vera að flestir sem ég þekki sem útskrifuðust með mér fengu án erfiðleika vinnu tengda náminu ef þau sóttust eftir því.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Þó svo að ég sé ekki að vinna með kúnna á líkamsræktarstöðvum hefur námið komið sér vel bæði fyrir vinnuna og sjálfan mig. Í golfþjálfuninni hamast ég í því að fá krakkana til þess að beita sér rétt og halda góðri líkamsstöðu og þar koma nokkur trix úr ÍAK náminu sér vel. Einnig hefur vitneskja mín eftir ÍAK námið hjálpað að beita sjálfum mér betur ásamt því að æfa betur sem hefur gert mig að betri golfara en áður. Ég nýti mér vissulega margar góðar hugmyndir úr hugmyndafræði námsins ásamt öðru sniðugu sem ég les og læri úr bókum, af netinu og frá öðrum þjálfurum.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Það var frábært að geta lært af kennurunum í Keili, Helga, Einari og Kristjáni. Þeir eru allir frábærir þjálfarar og góðar fyrirmyndir. Sjúkraþjálfarinn Gauti Grétarsson er einnig maður sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hann hefur verið með æfingar fyrir landsliðið í fjöldamörg ár og kemur alltaf með einhverjar nýjar og skemmtilegar pælingar í hvert skipti sem hann er með æfingu. Hann hefur svo gríðarlega mikinn áhuga á golfi og líkamsþjálfun sem tengist golfi að hann er eins og krakki á jólunum þegar hann fær landsliðið á æfingu til sín. Þessi áhugi hans smitar svo út frá sér að það er ekki hægt annað en að gefa hundrað prósent í æfingarnar hans og læra af honum. Ég er ekki mesti lestrarhestur sem finnst og nánast það eina sem ég les eru námsbækurnar og fótboltasíður á netinu. Ég á þó nokkuð mikið af bókum um þjálfun og dett studnum í einhvern lestrargír og les þá einhverja af þessum bókum sem eru meðal annars um styrtkar- og liðleikaþjálfun golfara, ketilbjöllur, eiginþyngdaræfingar, snerpu- og sprengikraftsæfingar eða bara klassískar lyftingar. Allt sem ég les tek ég þó ekki sem heilögum sannleika, heldur les ég allt með gagnrýnum hug og tek til mín það sem mér finnst gott og gilt.

   Hvar er hægt að finna þig ef maður vill komast í þjálfun til þín?

   Ég vinn þessa stundina ekki með neinum í líkamsþjálfun, en ef einhver vill koma í golfþjálfun til mín þarf sá aðili að vera barn eða unglingur í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og skrá sig á æfingar klúbbsins.

  • Gunnar Jarl Gunnarsson - ÍAK einkaþjálfari 2011

   Gunnar Jarl ÍAK einkaþjálfariHvar ertu staddur í lífinu í dag? (Spurt í mars 2012)

   Í dag bý ég á akureyri og er að þjálfa hjá Átaki v/skólastíg, ásamt því er ég að klára stúdentinn svo ég geti drifið mig í áframhaldandi nám.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Það gekk mjög vel og voru hjólin fljót að byrja að snúast strax eftir útskrift.  Þó svo að nokkrir væru búnir að tala við mig fyrir útskriftina þá vildi ég samt vera útskrifaður áður en ég byrjaði að þjálfa, og hefur bara gengið vel uppfrá því.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Þegar ég hef verið að þjálfa íþróttamenn hef ég hvað mest stuðst við þjálfunarhugmyndafræðina sem ég lærði í Keili og myndi ég segja að sú hugmyndafræði sem ég lærði sé mjög mikilvægur grunnur í því hvernig ég þjálfa í dag. Þjálfun í dag er í stöðugri þróun og þarf maður stanslaust að vera að lesa nýjar rannsóknir, greinar og bækur ef maður vill sjá meiðslalausa og árangursríka þróun. Menn sem hafa lennt í meiðslum vita það að ekkert er betra en að geta æft af fullum krafti án meiðsla.

   Hverjir eru þínir helstir viðskiptavinir?

   Mest hef ég fengið til mín fólk sem er að leitast eftir að komast í betra líkamlegt form en einnig íþróttamenn sem þurfa að styrkjast og byggja upp meiri hraða fyrir sína íþrótt og þá hef ég verið með stelpur og stráka úr handbolta, fótbolta, ískhokkí og snjóbretti.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Ég reyni alltaf að vera eins upplýstur og ég get og vill geta rökstutt allt sem ég geri ef til þess kæmi, en þá les ég greinar mest megnis eftir Mike Boyle, Mike Robertson, Charles Poliquin, Dr. Stuart Mcgill, Eric Cressey, Dave Tate og svona mætti lengi telja.

   Hvar er hægt að finna þig ef maður vill komast í þjálfun til þín?

   Hægt er að ná á mér í síma 616-2269, gunnarjarl1@gmail.com

  • Birna Baldursdóttir - ÍAK einkaþjálfari 2011

   Hvar ertu stödd í lífinu í dag? (Spurt í mars 2012)

   Í dag er ég að einkaþjálfa á líkamsræktarstöðinni Bjargi á Akureyri, kenna crossfit og fleiri þrektíma og þjálfa öldungarliðið KA-Freyjur í blaki. Ég er einnig með marga í fjarþjálfun og held af og til fyrirlestra fyrir íþróttalið og fleiri sem eru að hugsa um heilsuna og mataræðið. Í apríl bætti ég svo við mig smá kennslu í Brekkuskóla en ég er einnig með Bs. í íþróttafræði og kennsluréttindi.

   Ég æfi sjálf daglega og tók þá erfiðu ákvörðun í byrjun vetrar að leggja blakskóna á hilluna í bili en skerpti í staðinn skautana enn betur og er búin að æfa íshokký af fullum krafti með Skautafélagi Akureyrar og er ný komin frá Suður Kóreu þar sem íslenska landsliðið tók þátt í HM 2012. Yndisleg lífsreynsla. Sumarið fer svo í strandblaksæfingar og stjan og dekur með fjölskyldunni.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Ég var mjög ánægð þegar ég fékk stöðu á Bjargi og það gengur mjög vel að fá kúnna í einkaþjálfun og það er nánast búið að vera fullt hjá mér síðan í haust. Ég hef stundað fullt af íþróttagreinum og því þekkja mig nokkuð margir og má segja að ég nýt góðs af því :)

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Ég nota mikið af því sem ég lærði í ÍAK náminu en einnig það sem ég lærði á Laugarvatni og það sem ég hef nýtt mér í minni þjálfun. Ég nældi mér einnig í crossfit kennsluréttindin og nota þetta allt saman í bland eftir markmiðum og áhugasviði kúnnans.

   Hverjir eru þínir helstir viðskiptavinir?

   Ég hef svo sannarlega fengið alla flóruna af mismunandi viðskiptavinum. Allt frá einstaklingum sem eru meiddir eða veikir uppí fílhrausta íþróttamenn. Finnst frábært hvað ÍAK námið undirbjó mann vel til að taka á móti þessum mismundandi einstaklingum.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Ég er ægilegur köttur og fer oft mínar eigin leiðir en auðvitað notast ég við þá þjálffræði sem ég hef lært og finnst gaman að prófa það nýjasta. Ég reyni að fylgjast með nýjum greinum og rannsóknum og öðru efni sem kemur og fer. En reynslan og fyrirlestrar hjá góðum þjálfurum kennir manni best að mér finnst enda margar þjálfunaraðferðir stórar bólur sem virka fyrir suma en ekki aðra. Mike Boyle finnst mér mjög áhugaverður þessa stundina og vona að hann komi aftur til landsins sem fyrst....hef nokkrar spurningar til kauða :)

   Hvar er hægt að finna þig ef maður vill komast í þjálfun til þín?

   Hægt er að hafa samband við mig síma 861-6970 eða birnabald@gmail.com. Einnig eru frekari upplýsingar um mig inn á bjarg.is

  • Ásthildur Björnsdóttir - ÍAK einkaþjálfari 2011

   Hvar ertu stödd í lífinu í dag? (Spurt í mars 2012)

   Í dag er ég svo lánsöm að hafa nóg að gera og ég elska það að vinna við aðaláhugamálið sem er heilsan sjálf og allt það sem henni viðkemur. Ég er s.s. að einkaþjálfa í World Class Laugum bæði einstaklinga og litla hópa og einnig er ég að kenna Tabata (lotuþjálfun) þar sem ég fæ útrás í að spila uppáhaldstónlistina mína og finna æfingar sem ganga sem mest út á að vinna með eigin líkamsþyngd. Þá er ég einnig í því að heilsufarsmæla hópa í fyrirtækjum út í bæ ásamt því að vera með fyrirlestra tengdu næringu, heilsu og lífstílsbreytingum. Þá hef ég einnig verið með pistla í heilsublöðunum í tímaritinu Vikunni og inni á Smartlandinu á mbl.is. Svo hef ég einnig verið að sinna aðstoðarkennslu hjá Keili í ÍAK-einkaþjálfaranáminu u.þ.b. eina helgi í mánuði. Með öllu þessu er ég svo móðir tveggja frábærra unglingsstúlkna og í sambúð með sérlega skilningsríkum sambýlismanni.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Stuttu áður en ég útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari vorið 2011 þá sagði ég upp góðri vinnu sem viðskiptastjóri hjá MEDOR þar sem ég var m.a. að selja blóðþrýstingsmæla og hjúkrunarvörur eins og sáraumbúðir. Ég ákvað s.s. að fylgja hjarta mínu og breyta um starfsvettvang. Þarna um vorið var ég komin með inngöngu í Háskóla Íslands og stefnan hjá mér var að bæta við mig mastersnámi í Lýðheilsuvísindum. Planið var s.s. að þjálfa aðeins á morgnana til að hafa í sig og á ásamt stuðningi frá LÍN. Annað kom nú á daginn því að um haustið þegar uppsagnarfresturinn var liðinn og ég hætt störfum hjá MEDOR og búinn að vera í skólanum í rétt um mánuð þá var orðið svo mikið að gera í einkaþjálfuninni að ég tók þá ákvörðun að gefa mig alla í þjálfun og sagði mig úr skólanum.  Látunum hefur hvergi nærri lokið og nú er nóg að gera í að einkaþjálfa bæði einstaklinga og litla hópa ásamt aðstoðarkennslunni í Keili og heilsufarsmælingum og pistlaskrifum.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Algjörlega og gott betur en það. Ég hef það fyrir vinnureglu að allir þeir sem koma í þjálfun til mín koma fyrst í greiningarviðtal þar sem ég tek blóðþrýsting allra og sumum hefur verið ráðlagt að leita til læknis eftir slíka mælingu. Þá notast ég einnig ávallt við líkamsstöðu- og hreyfigreiningarnar sem þjálfunin byggir ansi mikið á. Enda er það svo að hver og einn einstaklingur er sérstakur og því ekki hægt að beita sömu æfingakerfum á alla í hvaða formi sem þeir eru í. Þannig að ég hanna æfingakerfið eftir niðurstöðum þessara greininga og eftir að viðkomandi hefur svarað ákveðnum spurningalista varðandi t.d. fyrri sögu tengda meiðslum og slíku.  Hugmyndafræði þjálfunarinnar hjá Keili er það ofarlega í huga mér að ÍAK-kennslubókin og kennsluefnið úr náminu er ávallt uppi við og í stöðugri notkun.

   Hverjir eru þínir helstu viðskiptavinir?

   Mínir helstu viðskiptavinir eru bæði konur og karlar á öllum aldri. Meirihlutinn er fólk sem hefur lítið verið í reglulegri hreyfingu og margir hverjir búnir að ná því núna að vera í fleiri mánuði í þjálfun. Ég er einnig að fá mikið af fólki til mín með ýmis vandamál eins og t.d. brjósklos, bakverki og átraskanir og oft hef ég fengið að heyra það frá fólki að það hafi ákveðið að leita til mín þar sem ég er einnig hjúkrunarfræðingur að mennt.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Ég á mér nokkrar fyrirmyndir í þjálfun eins og t.d. Michael Boyle sem ég hef tvisvar sinnum hitt á Þjálfarabúðunum hjá Keili. Þá á ég orðið nokkrar bækur eftir hann og einnig er hann með öfluga vefsíðu sem inniheldur heilan helling af æfingasafni og greinum sem ég skoða reglulega. Þá er ég einnig hrifin af því sem Nick Tumminello er að gera og ég les oft greinar og skoða æfingar sem hann er að birta á netinu. Hvað varðar íslenskar fyrirmyndir í þjálfun þá verð ég að nefna þá Helga Jónas Guðfinnsson, Einar Einarsson og Kristján Ómar Björnsson – allir kennarar við ÍAK-einkaþjálfaranámið. Kristjáni Ómari og hans þjálfunaraðferðum kynntist ég ágætlega haustið 2011 en þá var ég svo heppin að fá að aðstoða hann við styrktarþjálfunina hjá Haukum og hef ég lært mjög mikið af honum og tileinkað mér svo í mínum þjálfunaraðferðum.

   Hvar er hægt að finna þig ef maður vill komast í þjálfun til þín?

   Ég er að þjálfa í World Class Laugum. Svo er einnig hægt að senda mér tölvupóst á heilsuhjukkan@gmail.com og ég er einnig með „Like“-síðu á Facebook: Ásthildur Björns – ÍAK einkaþjálfari og heilsuhjúkka. En þangað hef ég sett ýmislegt eins og t.d. uppskriftir og atriði tengd þjálfun.

  • Skúli Pálmason - ÍAK einkaþjálfari 2009

   Hvar ertu staddur í lífinu í dag? (spurt 22. mars 2012)

   Í dag er ég að klára 3. ár í námi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og stefni á að klára það á næsta ári. Ég er að vinna með náminu sem þjálfari í sal hjá World Class Ögurhvarfi. Síðan er að fá fleiri gesti en nokkurntímann fyrr og er umfangsmikil stækkun væntanleg á næstu mánuðum. Ég er búinn að vera að æfa ólympískar lyftingar núna í 4 vikur eftir frábært námskeið hjá Keili um daginn og er að fara að taka þátt í íslandsmótinu 24. mars. Alveg ótrúlega skemmtileg íþrótt.

   Hvernig hefur þér gengið að fá vinnu við þjálfun eftir að þú laukst ÍAK einkaþjálfaranáminu?

   Það hefur gengið vel að fá vinnu, nú er ég þjálfari í sal hjá World Class og er það mjög þægilegt með skólanum. Að vera í sjúkraþjálfunarnáminu hjálpar auðvitað mikið við að fá vinnu.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri þjálfunarhugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Að miklu leyti já. Það má í raun segja að það sem lærði í Keili sé grunnurinn af þjálffræðinni sem ég nota. Maður er svo alltaf að læra eitthvað nýtt: í sjúkraþjálfunarnáminu, úr bókum og greinum og síðast en ekki síst frábærum námskeiðum sem Keilir hefur verið að halda. Það leggst svo ofan á þennan grunn sem ég lærði hjá Keili. Þessi fræði eru síbreytileg, nýjar rannsóknir alltaf að birtast og þarf maður sífellt að vera að lesa og pæla til að vera góður þjálfari.ÍAK Einkaþjálfunarnámið er alveg frábært en maður er bara rétt að byrja að læra eftir að það er búið.

   Kennslu í þjálffræði er mjög ábótavant í sjúkraþjálfunarnáminu og því hefur það sem ég lærði hjá Keili hjálpað mér mikið í náminu.

   Hverjir eru þínir helstir viðskiptavinir?

   Núna kemur allskonar fólk til mín uppi í Ögurhvarfi þannig að ég sé alla flóruna og fólk með allskonar vandamál.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun? Hvaða þjálfara horfirðu til og lest greinar/bækur eftir?

   Til að nefna nokkra þá reyni ég að lesa eins mikið og ég get frá mönnum eins og Eric Cressey, Mike Boyle, Christian Thibaudeau, Charles Poliquin og Mike Robertson. Núna er ég að lesa Low Back Disorder eftir Stuart McGill og ætla að sökkva mér í movement impairment syndromes eftir Shirhley Sahrmann fljótlega. Stór hluti af mínum launum sem þjálfari fer í námskeið og bækur, maður er stöðugt að reyna að bæta sig og læra meira.

   Hvar er hægt að finna þig ef maður vill komast í þjálfun til þín?

   Eins og er er ég ekkert að taka að mér einkaþjálfun, en þeir sem eru í World Class geta pantað ókeypis tíma hjá mér á 4-6 vikna fresti til að fá prógram, fara yfir tækni, fá ráðleggingar eða bara hvað sem er. Eina sem þarf að gera er að panta tíma í Ögurhvarfinu í síma 585 2222.

  • Einar Ingi Kristjánsson - ÍAK einkaþjálfari 2010

   Hvar ertu staddur í lífinu í dag? (Spurt í janúar 2012)

   Í dag bý ég í Stavanger í Noregi og starfa sem einkaþjálfari hjá Elixia sem er líkamsræktarstöðvakeðja í Skandinavíu með 36 stöðvar í Noregi, 11 í Finnlandi, og 3 í Svíþjóð. Ég flutti hingað út fyrir rúmum fjórum mánuðum og það hefur bara gengið einsog í sögu. Á hverju ári gerir Elixia könnun á einkaþjálfurum og lenti ég þar í 5. sæti yfir söluhæstu þjálfara Noregs og rétt missti af glæsilegum vinningum en 1-3 sæti gefur meðal annars ferðir erlendis á námskeið og fyrirlestra. (ég fékk reyndar TRX band í verðlaun). Svo í janúar er ég líklega að fara takast á við mjög spennandi verkefni sem ég get reyndar ekki gefið upp að svo stöddu, þar sem að það á enn eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum. Ég get þó sagt að það tengist afreksíþróttamönnum og norsku landsliðsfólki.

   Ertu að þjálfa eftir þeirri hugmyndafræði sem þú lærðir í Keili?

   Já engin spurning! Ég myndi segja að líkamsstöðu- og hreyfigreiningarnar sem ég lærði hjá Keili séu eitt það mikilvægasta sem ég hef lært og gaf mér algjörlega nýja mynd á það hvernig skal þjálfa einstakling. Ég segi þó ekki að ég fari 100% eftir ÍAK bókinni. Ég held að allir þeir sem lesa mikið og kynna sér nýja hluti í þjálfun eru alltaf að tileinka sér nýjar hugmyndir og þróa sín fræði. En það er oft sem ég fer yfir ÍAK bókina og ÍAK glærur til þess að rifja upp.

   Er einhver munur á þjálfarakúltúr í Noregi og á Íslandi?

   Já, ég myndi segja það. Hérna hjá Elixia allavega gengur þetta svoldið mikið út á að selja sjálfan sig. Allir þeir sem gerast meðlimir hjá Elixia fá tvo fría tíma hjá einkaþjálfara, sem þjálfarinn getur svo notað til þess að reyna að selja sjálfan sig og sannfæra kúnnann um að kaupa þjálfun. Svo er líka minna um það að þjálfarar séu sjálfstætt starfandi, þannig að þjálfarinn er starfsmaður stöðvarinnar sem er ákveðinn kostur. Þú færð t.d. veikindadaga og sumarfrí á launum. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að rukka kúnnann þar sem stöðin sér um það. Á Íslandi seldi ég yfirleitt einn mánuð í þjálfun í einu (ca. 12 tíma) en hérna er ég yfirleitt að selja 30-60 tíma í einu.

   Áttu þér fyrirmyndir í þjálfun?

   Mínar fyrirmyndir í þjálfun eru margar, en þá helst Charles Poliquin og svo hef ég lært mjög mikið af Bret Contreras en ég hafði meðal annars samband við hann og hann hjálpaði mér með eitt verkefnið í ÍAK Íþróttaþjálfara náminu. Svo hef ég náttúrulega lært gríðarlega mikið af Helga Jónasi Guðfinnssyni, kennara í Keili og hann hefur alltaf hjálpað mér þegar ég hef leitað til hans.

   Svo reyni ég yfirleitt að nota 1-2 tíma á dag í að lesa eitthvað tengt þjálfun og það er mjög breitt svið af efni, allt frá Joe DeFranco, Ben Bruno og Christian Thibaudeau til Mel Siff, Vladimir Janda og Shirley Sahrmann.
   En ég verð þó að taka fram að mín helsta fyrirmynd bæði í þjálfun og í lífinu er Magnea amma mín en hún kennir yoga í yogastöðinni heilsubót. Hún er 76 ára og fer létt með það t.d. að standa á haus og fer í 5 daga fjallgöngur í Tyrklandi ofl.

   Ættu fleiri ÍAK þjálfarar að sækja út til Noregs?

   Engin spurning! Ég veit að nú þegar eru allavega að bætast við 2 íslendingar á stöðina hjá mér. Þetta er frábært tækifæri fyrir alla metnaðarfulla þjálfara. Einkaþjálfun er að verða mjög vinsæl hérna í Noregi og ef þú hefur trú á sjálfum þér og hefur trú á því sem þú ert að selja eða bjóða uppá ætti alls ekki að taka langan tíma að vera komin með góðan kúnnahóp.

   Ef einhver vill hafa samband við Einar má senda honum línu á einarkristjansson@hotmail.com. Nánari upplýsingar á www.einarkristjansson.com

  • Baldur Þór Ragnarsson - ÍAK einka- og styrktarþjálfari

   Ég fór í ÍAK einkaþjálfaranámið veturinn 2012-2013 og fann strax að þetta var það sem mig langaði til að gera. Námið er mjög gott og klárlega það besta hér á landi sem undirbúningur fyrir einkaþjálfara. Þetta var eiginlega betra og ítarlegra en ég bjóst við og hefur þetta gefið mér frábæran grunn fyrir framtíð mína sem þjálfara.

   Strax að námi loknu hóf ég að starfa sem einkaþjálfari í Ræktinni í Þorlákshöfn í 100 % starfi. Ég fór strax að vinna mikið með íþróttamönnum og ákvað ég að fara í ÍAK Styrktarþjálfarann. Þar fékk ég fleiri verkfæri í skúffuna sem hjálpa mér mikið í starfi mínu sem styrktarþjálfari hjá mfl Þór Þorlákshafnar í körfubolta samhliða einkaþjálfuninni. Ég nýti mér námið á hverjum einasta degi í mínu starfi og eru hreyfigreiningarnar mjög mikilvægar til að byggja upp einstaklingsmiðað prógram.

  • Rúna Björg Sigurðardóttir - ÍAK einka- og styrktarþjálfari

   ÍAK einkaþjálfaranámið heillaði mig strax þar sem yfirgripsmeira nám á þessu sviði er erfitt að finna. Námið gjörbreytti hugsanagangi mínum gagnvart þjálfun og stóðst allar mínar væntingar.

   Ég var hungruð í að vita meira og hikaði því ekki við að skrá mig í ÍAK styrktarþjálfaranámið um leið og tækifæri gafst. Í dag er ég í fullu starfi sem einka- og styrktarþjálfari og ber þann titil með stolti. Ég er fullfær um að búa til einstaklingsmiðaðar þjálfunaráætlanir sem miða að því að hámarka árangur og lágmarka meiðsli, einnig vinn ég full sjálfstrausts við að skapa og þjálfa íþróttafólk á afreksstigi.

   Ef þú hefur metnað og vilja til þess að ná langt er ÍAK, hvort sem það er einka- eða styrktarþjálfaranámið, akkúrat fyrir þig!

  • Egill Ingi Jónsson - ÍAK einkaþjálfari

   Í starfi mínu sem þjálfari meistaraflokks skíðaliðs Reykjavíkur hefur ÍAK einkaþjálfaranámið nýst mér mjög vel. Það hefur gert mér kleift að ná meiri árangri í styrktarþjálfun íþróttamanna og ekki síður þegar kemur að skíðaþjálfuninni sjálfri þegar komið er í fjallið.

   Með náminu hef ég öðlast betri skilning á hvað gerist í líkamanum við þjálfun skíðmannsins. Námið er í senn skemmtilegt, krefjandi, fjölbreytt og faglegt. Eftir námið er ég miklu hæfari og betri þjálfari.

  • Erlendur Jóhann Guðmundsson - ÍAK einkaþjálfari

   Það var mikið gæfuskref fyrir mig að sækja um í ÍAK einkaþjálfaranámið. Ég hafði lengi fylgst með þessu námi þróast, kynnst þjálfurum sem höfðu klárað ÍAK og heillaðist af þeirri þekkingu og kunnáttu sem þeir bjuggu yfir.

   Ég ákvað frá fyrsta degi að leggja allt sem ég þóttist vita um þjálfun til hliðar og taka námsefninu með opnum hug. Við tók ótrúlega spennandi og skemmtilegur tími þar sem frábærir kennarar Íþróttaakademíunnar leiddu okkur í gegnum hvert fagið á fætur öðru og nýjar víddir tengdar þjálfun og þjálffræði opnuðust.  Ég er handviss um að ÍAK einkaþjálfaranámið er það besta og ítarlegasta sem í boði er á Íslandi og jafnvel þó víðar væri leitað. 

   Ég hef verið svo heppinn að fá að þjálfa mjög fjölbreyttan hóp skjólstæðinga með ólíkar kröfur og þarfir. Þar hefur námið nýst mér vel og hvort sem verkefnin snúa að næringu, þjálfun, meiðslaforvörnum, markmiðasetningu eða einhverjum af ótalmörgum hliðum þessa starfs, hef ég nánast undantekningarlaust fundið lausn á málum minna skjólstæðinga og á ÍAK stóran þátt í því. 

 • Umsókn um nám

  Gerð er krafa um að umsækjendur hafi haldgóða reynslu af íþróttum eða líkamsrækt og séu í góðu líkamlegu formi. Gerð er lágmarkskrafa um 18 ára aldur og 100 feiningar í framhaldsskóla úr almennum kjarna og heilbrigðisgreinum.

  Með umsókn skal senda eftirfarandi gögn:

  • Afrit prófskírteina,
  • starfsferilsskrá,
  • stafræn mynd í góðri upplausn og
  • persónulegt bréf.

  Mikilvægt er að skila inn öllum umbeðnum fylgigögnum. 

  Starfsfólk aðstoðar umsækjendur við að finna leiðir ef einhverjar forkröfur vantar. Senda má póst á Skúla Frey Brynjólfsson námsráðgjafa eða Haddý Önnu Hafsteinsdóttur verkefnastjóra námsins.  

  Allir umsækjendur sem uppfylla inntökuskilyrði verða kallaðir í viðtal.

  Umsókn um nám

 • Skóladagatal ÍAK