Fara í efni

Skólareglur

Hér má finna Skólareglur Heilsuakademíunnar, skiptast þær í fjóra hluta, almennar reglur, reglur um skólasókn og reglur um nám námsmat og reglur um námsgjöld

1 | Almennar reglur

 1. Sýna ber háttvísi og prúðmennsku í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans, hvort sem er í húsnæði, rafrænum kennslustofum eða á samfélagsmiðlum.
 2. Kennari stýrir fyrirkomulagi kennslustundar og nemendur skulu kynna sér verklag hans og fylgja því. Þetta gildir einnig um notkun farsíma og hvers kyns tækjabúnaðar.
 3. Öll meðferð og neysla tóbaks og vímuvaldandi efna er bönnuð í húsnæði, á lóð skólans og á vettvangi skólastarfsins. Sama gildir um notkun á rafrettum.
 4. Nemendum ber að ganga vel um kennslustofur, tækjabúnað og húsmuni og skilja snyrtilega við sín vinnusvæði í lok kennslustundar.
 5. Myndatökur og/eða upptökur af nemendum, kennurum og öðru starfsfólki innan skólans eru óheimilar án leyfis viðkomandi aðila.
 6. Nemendur skulu fylgjast reglulega með tilkynningum í tölvupósti, á kennslukerfum, á heimasíðu skólans og auglýsingaskjám.

2 | Reglur um skólasókn

 • Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega.
 • Mætingarskylda er í allar staðlotur
 • Það telst seinkoma ef nemandi er ekki mættur þegar kennari er búinn að lesa upp eða skrá ástundun í upphafi kennslustundar.
 • Komi til fjarvista í staðlotu ber nemanda að tilkynna það samstundis til verkefnastjóra námsins og kennara viðeigandi áfanga. Beiðni um leyfi frá skólasókn

 

3 | Reglur um nám og námsmat

3.1. Framhaldsskólaeining

Framhaldsskólaeiningar eru skilgreindar út frá vinnuframlagi nemenda. Ein framhaldsskólaeining samsvarar 18-24 klst vinnu meðal nemanda. Innifalið í þessari mælingu er öll vinna nemandans við áfangann þ.m.t tímasókn, heimavinna, undirbúningur og þátttaka. Einingafjöldi áfanga sést í tveimur síðustu tölustöfum í áfanganúmerinu.

3.2. Skráning og úrsögn nemenda úr áföngum

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, þar með talið skráningu og því að skráning sé í samræmi við kröfur viðkomandi námsbrautar og í samræmi við reglur um framvindu undanfara áfanga.

Nemandi ber ábyrgð á að skrá sig í áfanga á Canvas sama dag og áfangi hefst.

Nemandi sem vill segja sig úr áfanga skráir sig sjálfur úr áfanga á INNU ásamt því að senda póst á verkefnastjóra námsins. Skráning úr áfanga þarf að berast eigi síðar en 10 dögum eftir að áfangi hefst. Ef nemandi sinnir ekki áfanganum og skráir sig ekki út honum á tilskildum tíma birtist áfanginn sem fall á INNU. Mikilvægt er að hafa samráð við verkefnastjóra námsins og tilkynna honum úrsögnina. 

3.3. Námsmat:

Námsmati er ætlað að meta hvernig nemanda hefur gengið að tileinka sér námsmarkmið hvers áfanga. Heilsuakademían leggur áherslu á fjölbreytt námsmat. Kennarar í áfanga eru ábyrgir fyrir þeim matsþáttum sem lagðir eru fyrir í áfanganum og samsetningu lokaeinkunnar. Gefin er ein lokaeinkunn á INNU fyrir hvern áfanga sem nemandi er skráður í.

Kennara er heimilt að krefjast þess að tilteknir liðir í áfanga séu leystir af hendi á fullnægjandi hátt til þess að nemandi teljist hafa lokið áfanganum. Slíkar kröfur verður að tilkynna í upphafi námskeiðs í kennsluáætlun.

 • Tryggja skal að í námi og námsmati í einstökum faggreinum reyni á alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af viðmiðum í aðalnámskrá.
 • Vægi einstakra þátta í námsmati skal koma fram á kennsluáætlun sem birt er á Canvas í upphafi áfanga.
 • Einkunnir eiga að liggja fyrir eigi síðar en 10 virkum dögum eftir skiladag.
 • Kennari skráir lokaeinkunnir inn á Innu þar sem þær eru vistaðar og áfanga er lokað.

3.4. Einkunnagjöf

Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0,5 til 10. Lágmarkseinkunn í áfanga er 7. Nemandi telst ekki hafa staðist áfanga þegar einkunn er lægri og í tilvikum þar sem áfanginn sem nemandi hefur ekki staðist er undanfari annars áfanga, fær nemandinn ekki að taka næsta áfanga á eftir. Nemandi sem fellur í áfanga getur óskað eftir að taka upptökuverkefni/upptökupróf og greitt fyrir samkvæmt gjaldskrá. Komi til þess að nemandi er fjarverandi í staðlotu án leyfis er litið þannig á að hann hafi sagt sig úr áfanganum og hefur þ.a.l. ekki rétt á að þreyta upptökuverkefni/próf.

3.5. Um skil nemenda á verkefnum

Í námskeiði setur kennari reglur um skilafrest verkefna í upphafi áfanga og ber nemanda að skila verkefni áður en skilafrestur rennur út. Kennari hefur ekki heimild til þess að taka við verkefni sem skilað er of seint. Nemandi hefur möguleika á því að sækja um að skila verkefni seint með beiðni til stjórnenda deildarinnar. Í beiðni um sein skil þurfa að koma fram eftirfarandi atriði: a) fullt nafn og kennitala nemanda, áfangaheiti, heiti kennara, heiti verkefnis sem um ræðir og vægisprósenta verkefnis og b) ítarleg ástæða þess að skilafrestur var ekki virtur. Beiðnin skal berast stjórnendum áður en skilafrestur á verkefni rennur út. Vanti upplýsingar í beiðnina mun það valda seinkun á meðhöndlun. Stjórnendur taka beiðnina fyrir og láta kennara og nemanda vita hver niðurstaðan er. Ef nemandi fær leyfi frá stjórnendum deildarinnar til að skila inn verkefni eftir skilafrest, gilda sömu reglur og um úrbótaverkefni, þ.e. aldrei verður gefið meira en lágmarkseinkunn fyrir verkefnið.

Beiðni um seinkun á verkefnaskilum

Áhrif þess að nemandi lýkur ekki einstökum námsmatsþáttum

 • Nemandi, sem ekki sinnir verkefnum eða prófum sem eru hluti af námsmati fær einkunnina núll fyrir viðkomandi námsmatsþátt.
 • Nemandi sem fellur á lokaverkefni í áfanga getur sótt um að taka viðkomandi námsmatsþátt síðar í sjúkra- eða upptökuskilum. Tilkynni nemandi ekki veikindi í lokaverkefni er hann skráður með fall í áfanganum. Nemandi getur þó óskað eftir því að fara í upptökupróf eða endurupptöku á verkefni. Gjald fyrir endurtöku á prófi eða verkefni, má sjá undir skólagjöld á vef Keilis. Gjaldið er óendurkræft. Til að nemandi eigi kost á því að taka upptökupróf verður hann að hafa samband við verkefnastjóra námsins og skrá sig í sjúkra-/upptökuprófið á heimasíðu Keilis í síðasta lagi tveimur virkum dögum fyrir prófið eða verkefnaskil. Ef greiðsla og skráning hefur ekki verið framkvæmd á réttum tíma er ekki gert ráð fyrir nemandanum í prófið/verkefnið. Hámarks einkunn úr upptökuprófi er 7. Nemandi sem fellur á upptökuprófi/verkefni eða sjúkraprófi/verkefni getur sótt um að taka aukaupptöku­próf í lok skólaárs (maí). Eingöngu er hægt að sækja um að taka aukaupptökupróf í einu fagi standi það í vegi fyrir útskrift nemanda. Hámarkseinkunn sem nemandi getur fengið úr áfanganum er 7,0 (sjá kostnað í gjaldskrá).

3.6. Almennt um próftöku:

  • Nemanda er aðeins heimilt að nota þann hugbúnað/forrit sem er tilgreindur af kennara. Nemanda er óheimilt með öllu að nota samskiptaforrit, samskiptatæki eða annan hugbúnað/forrit nema þann sem er tilgreindur meðan á próftöku stendur. Aðeins er leyfilegt að vista prófgögn á það svæði sem umsjónarmaður prófs tilgreinir.
  • Nemandi skal þreyta heimapróf án utanaðkomandi aðstoðar og tryggja að umhverfið á prófatíma sé þannig útbúið að nemandi fái vinnufrið til að vinna prófið sjálfstætt.
  • Nemandi í heimaprófi ber ábyrgð á að nettenging sé til staðar á prófstað og á meðan á prófi stendur. Nemandi ber alfarið ábyrgð á að vista gögn reglulega og skila inn tímanlega áður en próftíma lýkur.
  • Nemendum sem þreyta munnlegt próf, verklegt próf eða heimapróf er óheimilt að ræða sín á milli eða á annan hátt skiptast á upplýsingum um efni prófs á meðan á því stendur.
  • Óheimilt er með öllu að eiga samskipti við aðra nemendur á próftíma. Öll rafræn samskipti eru bönnuð og hafa skal slökkt á öllum samskiptatækjum á meðan próf stendur yfir.

Um próf í kennslustofu gilda að auki eftirfarandi reglur:

  • Nemendur skulu vera mættir í prófstofu a.m.k. 5 mínútum áður en próf hefst.
  • Prófstofu lokar um leið og uppgefinn próftími hefst.
  • Nemendur skulu hafa með sér gild skilríki með mynd og hafa þau aðgengileg á borði sínu fyrir prófyfirsetufólk á meðan á prófi stendur.
  • Á prófborði eiga einungis að vera prófamappa, skilríki og leyfileg hjálpargögn samkvæmt fyrirmælum hverju sinni. Pennaveski skal geyma undir prófborði.
  • Slökkt skal vera á GSM símum og þeim skal skilað á tiltekinn stað ásamt yfirhöfnum og töskum.
  • Passa skal að neysla matvæla valdi ekki truflun í prófstofu t.d. vegna lyktar, ofnæmis eða hávaða.
  • Nemandi skal merkja prófið vel með nafni, áfangaheiti, kennitölu og dagsetningu.
  • Öllum frágangi á prófúrlausn skal vera lokið innan próftímans.
  • Í prófum sem eru tvær klukkustundir eða styttri er óheimilt að yfirgefa prófstofu og koma inn aftur. Þetta á einnig við um salernisferðir. Þurfi nemandi af einhverjum gildum ástæðum undanþágu frá þessari reglu skal hann vera í sambandi við námsráðgjafa a.m.k. 24 klst. fyrir próf.
  • Nemanda ber alltaf að ganga hljóðlega um og að passa uppá að hafa hljóð í prófastofu og á göngum á meðan að próftími stendur yfir.

Brot á prófareglum geta leitt til vísunar frá prófi eða úr námskeiði eftir atvikum, samkvæmt gildandi lögum og reglum Keilis. (Uppfært í október 2020)

3.7. Heilindi í verki

Heilsuakademía gerir þá kröfu til nemanda að öll verkefni sem nemandi skilar séu hans eigið hugverk. Í því felst meðal annars að hann vinni verkefnið sjálfur frá grunni, án aðstoðar annarra, og taki aldrei upp texta eða vinnu annarra og setji fram sem sitt eigið verk. Óheimilt er með öllu að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Kennurum er heimilt að beita viðurlögum ef upp kemst um ritstuld, nemandi er áminntur og fær einkunnina 0 í verkefninu eða áfanganum, eftir alvarleika brotsins. Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan áfanga, milli áfanga eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé tekið fram.

Kennara er heimilt að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að nemendur megi ekki vinna saman að verkefnum, og gerir hann þá skriflega grein fyrir því í verkefnislýsingu. Sama á við í hópverkefnum; verkefnið skal vera unnið af hópnum frá grunni, án aðstoðar annarra, og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð.

Heilsuakademía gerir þá kröfu að nemandi leggi sig ávallt fram í hópstarfi og gæti þess að framlag hans sé sambærilegt á við hina í hópnum. Kennari hefur heimild til að gefa einstaklingum í hópi mismunandi einkunn ef ljóst þykir að framlag þeirra hefur verið verulega ójafnt. Í hópverkefnum hefur hópurinn möguleika á að skipta með sér verkum, þó þannig að vinnuframlag einstakra hópmeðlima til verkefnisins sé sambærilegt. Allur hópurinn er þó eftir sem áður ábyrgur fyrir heildarverkinu.

3.8. Viðurlög

Viðurlög brotum á reglum skólans eru eftirfarandi:

 • Fyrsta brot: Forstöðumaður ræðir við nemandann og veitir honum munnlega áminningu.
 • Annað brot: Forstöðumaður veitir nemanda skriflega áminningu*. Foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda eru látnir vita fái nemandi skriflega áminningu.
 • Þriðja brot: Forstöðumaður vísar málinu til framkvæmdastjóra sem víkur nemandanum úr skóla. Framkvæmdastjóri afhendir nemanda skriflega brottvísun.

*Í skriflegri áminningu skal koma fram:

 • tilefni áminningarinnar og þau viðbrögð sem fylgja brjóti nemandi aftur af sér
 • að nemandanum er gefinn kostur á að bæta ráð sitt
 • að nemandanum sé gefinn kostur á að skjóta ákvörðuninni til framkvæmdastjóra og skal tímafrestur til þess tilgreindur

3.9. Réttindi og skyldur nemenda

Nemandi er innritaður í skólann þegar hann staðfestir umsókn um skólavist. Um leið samþykkir hann að gangast undir skyldur og reglur sem á herðum hans hvíla sem hluta af skólasamfélaginu. Ein meginforsendan fyrir því að starfsemi geti farið fram og árangur náist er að nemendur sinni námi sínu með fullnægjandi hætti. Skólinn hefur einnig margvíslegum skyldum að gegna gagnvart nemendum sínum og ber honum að veita þeim ýmiss konar þjónustu. Eftirfarandi verklagsreglur eru gerðar í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla og reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum.

 

 • Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Vanþekking á reglunum leysir þá ekki undan ábyrgð. Um ábyrgð nemenda vísast til 33. gr. a. í lögumum framhaldsskólanr. 92/2008
 • Leitast skal við að leysa ágreiningsmál fljótt og vel á vettvangi skólans.
 • Við brot á skólareglum ber kennurum, öðrum starfsmönnum og nemendum skólans að tilkynna þau til forstöðumanns. Slík brot geta valdið brottvísun úr skóla (sjá viðurlög).
 • Rísi ágreiningur sem ekki tekst að finna lausn á með forstöðumanni skal vísa málinu til framkvæmdastjóra sem vinnur málið áfram samkvæmt skólareglum og lögum og reglum um framhaldsskóla. Uni málsaðilar, þar með talið forráðamenn nemenda yngri en 18 ára, ekki niðurstöðu í málinu má vísa því til Mennta- og barnamálaráðuneytis.
 • Við meðferð mála er farið að lögum um framhaldsskóla, lögum er varða meðferð og neyslu tóbaks- og vímuefna, svo og stjórnsýslulögum, lögum um meðferð persónuupplýsinga og öðrum þeim lögum er varða kunna þau mál sem til meðferðar koma.
 • Brot á almennum hegningarlögum verða kærð til lögreglu.
 • Við lausn ágreiningsmála geta nemendur óskað eftir aðkomu námsráðgjafa Keilis.

 

3.10. Sjúkra- og endurtektarréttur

  1. Kennari ber ábyrgð á útfærslu alls námsmats. Upplýsingar um fyrirkomulag þess skal liggja fyrir í upphafi áfanga, þ.á.m. hvernig sjúkra- og endurtektarmöguleikum er háttað séu þeir til staðar.
  2. Nemandi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati námsmatsþátta sem gilda 20% eða meira af heildarnámsmati ef hann æskir þess innan fimm daga frá birtingu einkunnar. Kennari skal verða við beiðni nemanda innan 10 virkra daga.
  3. Nemandi sem hefur ekki staðist námsþátt og unir ekki mati kennara á skriflegri úrlausn getur kært matið til Menntasviðs. Framangreind heimild tekur til allra námsþátta þar sem nemandi hefur ekki náð lágmarkseinkunn og gilda að lágmarki 20% af lokaeinkunn í áfanga. Það er háð því skilyrði að viðkomandi hafi skoðað úrlausn sína með kennara áður en kæra er send inn. Skal kæran lögð fram skriflega með rökstuðningi um ágreiningsefni og berast til forstöðukonu Menntasviðs innan þriggja virkra daga frá próf- eða verkefnasýningu. Sé einkunn yfir 7 skal þessi rökstuðningur fela í sér alvarlegar aðfinnslur eða ásakanir. Kennari skal eiga þess kost að skila sjálfstæðri skriflegri greinargerð um forsendur mats á kærðri úrlausn. Þá skal hann og skila forstöðukonu Menntasviðs í ljósriti a.m.k. fjórum úrlausnum annarra nemenda til samanburðar. Ef kennari telur eftir ítrekaðar athugasemdir nemenda að annmarkar kunni að vera á prófi eða verkefni, ellegar ef kennari hefur þurft að sitja undir ásökunum um slíkt án þess að telja að þær eigi við rök að styðjast, hefur hann þann kost að láta skjóta prófinu (verkefninu) í dóm óháðs prófdómara. Það gerir hann með því að fara fram á slíkt við forstöðukonu Menntasviðs sem tekur að sér framkvæmd málsins. 

4 | Reglur um námsgjöld

 1. Staðfestingargjald er innheimt strax að lokinni samþykkt í nám.
 2. Staðfestingargjöld eru óafturkræf, hætti nemandi við að hefja nám hjá Keili.
 3. Staðfestingargjöld eru innheimt fyrir haustönn hjá nemendum í fullu námi (grunn og sérhæfingu) sem og umsækjendum með undanþágu frá grunni. Gjöldin skulu vera að fullu greidd áður en nám hefst á viðkomandi önn eða námsleið.
 4. Nemandi sem ekki hefur greitt gjöld sín þegar önn hefst fær ekki að hefja nám á viðkomandi önn eða námsleið og aðgangi hans að net- og kennslukerfum Keilis er lokað.
 5. Skóla- og efnisgjöld eru óendurkræf, hafi nemandi hafið námið. 
 6. Gjöld skulu greidd með útsendum greiðsluseðli.