Innritun fyrir nám á vorönn 2021

Boðið verður upp á innritun fyrir nám til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú á vorönn 2021. Sameiginlegt umsóknartímabil framhaldsskóla verður dagana 1. til 30. nóvember næstkomandi en námið hefst þann 4. janúar 2021.  Nánari upplýsingar um innritun í framhaldsskóla má finna hér.

Nám í tölvuleikjagerð á framhaldsskólastigi byggir á kjarna og valfögum sem einskorðast ekki aðeins við forritun heldur taka á fjölbreyttum þáttum á borð við hönnun, tónlist, hljóðupptökur, verkefnastjórnun og heimspeki sem saman mynda sterkan grunn fyrir skapandi starf leikjagerðafólks.

Við Menntaskólann á Ásbrú er áhersla lögð á vendinám en það þýðir að í náminu eru hvorki hefðbundnar kennslustofur né hefðbundin stundartafla. Heldur stunda nemendur nám sitt og verkefni í skólanum þar sem kennarar eru til staðar til þess að leiðbeina þeim. Áhersla er lögð á nýstárlega nálgun í kennsluaðferðum og við námsmat svo námið sé heldur lagað að þörfum nemenda en að formföstum hefðum. Skóladagurinn hefst seinna á daginn yfir myrkasta tímabil vetrarins, snjalltæki eru nýtt í stað pappírsbóka og símat, nemendaverkefni og jafningjamat eru heldur nýtt en hefðbundin próf.

Menntaskólinn á Ásbrú á í góðu samstarfi við fyrirtæki í hugverkaiðnaði á Íslandi. Síðastliðið sumar var undirritaður samstarfssamningur milli skólans og tölvuleikjaframleiðandans Solid Clouds en í honum felst að fyrirtækið mun veita allt að fimm nemendum við skólann aðstöðu og tölvubúnað sem hluta af verklegri kennslu þeirra og á þann hátt auka fjölbreytileika og styðja við gæði þess náms sem fer fram við skólann. Þar að auki vinna nemendur raunverkefni einu sinni á önn sem iðulega er mótað í samstarfi við atvinnulífið. Til að mynda hafa nemendur gert tölvuleiki fyrir barnahorn Keflavíkurflugvallar í samstarfsverkefni við Isavia og eru samstarfsverkefni við CCP og Myrkur Games væntanleg.

 

Upplýsingar um stúdentsbraut með áherslu á tölvuleikjagerð