Fótaaðgerðafræði

Keilir hefur boðið upp á nám í fótaaðgerðafræði frá febrúar 2017 og stunda nú á annan tug nemenda námið.

Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta. Þeir sem ljúka náminu samkvæmt námskrá í fótaaðgerðafræði frá mennta- og menningarmálaráðuneyti geta:

 • Sótt um starfsheitið fótaaðgerðafræðingur á grundvelli reglugerðar sem velferðarráðuneytið gefur út.
 • Sótt um starfsleyfi að loknu námi til Landlæknisembættisins.

Nám í fótaaðgerðafræði hjá Keili tekur eitt og hálft ár. Áfangarnir eru kenndir á þremur samliggjandi önnum. Bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi með reglulegum staðlotum og verklegir áfangar eru kenndir í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Góðar almenningssamgöngur eru milli Ásbrúar og Höfuðborgarsvæðisins.

Nánari upplýsingar veita Skúli Freyr Brynjólfsson, námsráðgjafi, og Scott Gribbon, yfirkennari fótaaðgerðafræðináms Keilis.

 • Um fótaaðgerðarfræði

  Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein, sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir fótameina og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi. Skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um. 

  Fótaaðgerðafræðingar beita margvíslegri meðferð svo sem hreinsun á siggi og nöglum, líkþornameðferð, vörtumeðferð og hlífðarmeðferð. Þeir ráðleggja einstaklingum um fótaumhirðu í þeim tilgangi að minnka verki, dreifa álagi og bæta göngulag. Þeir útbúa spangir, hlífar, leppa og innleggssóla. Markmið náms og kennslu á starfsmenntabrautum framhaldsskóla er að gera nemandann hæfan í starfsgrein sinni og þjálfa verklega færni sem nýtist honum til starfa á atvinnumarkaði. 

  Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar hverju sinni um fagleg vinnubrögð, nákvæmni og áreiðanleika. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Sérstök áhersla er lögð á að þjálfa færni í að takast á við raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir liggja fyrir. Jafnframt fær nemandinn þjálfun í að takast á við ófyrirséð verkefni og aðstæður sem krefjast þekkingar, hugkvæmni, hæfni í samskiptum og rökvísi. Við skipulag kennslu er mikilvægt að taka mið af þörfum starfsgreinarinnar. 

  Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein samkvæmt lögum nr. 34/2012. Þeir sem ljúka námsbrautinni skv. námskránni, eða öðru jafngildu námi, geta sótt um starfsheitið fótaaðgerðafræðingur á grundvelli reglugerðar nr. 1107/2012.

  Nánari upplýsingar má nálgast á Námskrárvef mennta- og menningarmálaráðuneytisins

 • Inntökuskilyrði

  Nemendur þurfa að hafa lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

  Að auki þurfa nemendur sem sækja um nám í Fótaaðgerðaskóla Keilis að hafa lokið að mestu námi í almennum kjarna og almennum heilbrigðisgreinum áður en nám hefst í sérgreinum fótaaðgerðafræði.

  Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri áður en nám í sérgreinum hefst í Fótaaðgerðaskóla Keilis.

  Eftirfarandi áföngum þarf að vera lokið eða þarf að ljúka samhliða séráfanganáminu

    Þrep 1 Þrep 2 Þrep 3 Fein
  Almennur kjarni (48 einingar)
  Danska  
  DANS2RM05 
    5
  Enska 
   
  ENSK2LO05
  ENSK2EH05
    10
  Íslenska  
  ÍSLE2HM05
  ÍSLE2MR05 
    10
  Stærðfræði  
  STÆR2HS05 
    5
  Lífsleikni 
  LÍFS1ÉG03
  LÍFS1BS02
      5
  Íþróttir
  ÍÞRÓ1AA01 ÍÞRÓ1AB01 ÍÞRÓ1AC01 
      3
  Raungreinar
  RAUN1EE05 
      5
  Félagsvísindi
  FÉLV1IF05 
      5
  Heilbrigðisgreinar (61 eining) 
  Heilbrigðisfræði 
  HBFR1HH05 
      5
  Líffæra- og lífeðlisfræði  
  LÍOL2SS05
  LÍOL2IL05 
    10
  Næringarfræði 
  NÆRI1NN05 
      5
  Samskipti 
   
  SASK2SS05 
    5
  Sálfræði 
   
  SÁLF2AA05 
    5
  Siðfræði heilbrigðisstétta 
   
  SIÐF2SF05 
    5
  Sjúkdómafræði   SJÚK2GH05
  SJÚK2MS05
    10
  Skyndihjálp 
    SKYN2EÁ01   1
  Upplýsingalæsi
   
  UPPÆ1SR05 
      5
  Sýklafræði  
  SÝKL2SS05 
   
  Starfsumhverfi heilbrigðisstofnana 
  STHE1HÞ05 
     
 • Skipulag námsins

  Nám í fótaaðgerðafræði er samtals 199 einingar og skiptist í 48 eininga nám í almennum kjarna, 61 eininga nám í heilbrigðisgreinum sem er sameiginlegt öðrum heilbrigðisstéttum, og 90 eininga nám í bóklegum og verklegum sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Gert er ráð fyrir að nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum taki 3 - 4 annir og að nemendur hafi alla jafna lokið því námi áður en þeir hefja nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám.

  Á lokaári námsins er áhersla lögð á vinnustaðanám þar sem sett er upp fótaaðgerðastofa í skólanum þar sem nemendur fá með aðstoð faglærðs fótaaðgerðafræðings að vinna með skjólstæðinga. Nemendur fara í fjölbreyttar vinnustaðaheimsóknir, t.d. á fótaaðgerðastofur, dvalar- og hjúkrunarheimili, heilsugæslustöðvar og til stoðtækjasmiða með það að markmiði að kynnast störfum fótaaðgerðafræðinga og annarra heilbrigðisstétta.

  Lokaönnin einkennist af sérhæfingu og sérsniðnum meðferðarúrræðum. Námslok eru skilgreind sem próf til starfsréttinda á þriðja hæfniþrepi.

  Upplýsingar um skipulag námsins og áfangalýsingar má nálgast á Námskrárvef mennta- og menningarmálaráðuneytisins

 • Stundaskrár

  Hér má nálgast stundaskrár í Fótaaðgerðafræði. Vinsamlegast athugið að þær eru birtar með fyrirvara um breytingar. 

 • Námsgjöld

  Allar upphæðir eru endurskoðaðar árlega miðað við þróun vísitalna og annarra þátta sem hafa áhrif á rekstur skólans. Tölur og dagsetningar settar fram með fyrirvara um villur.

  Skólagjöldin frá og með janúar 2019 eru kr. 745.000 kr. fyrir önnina og gildir fyrir allt bóklegt og verklegt nám sem kennt er í Keili. Heildar skólagjöld fyrir þrjár annir eru 2.235.000 kr. og eru námsbækur, vinnubúningur og ýmis byrjendaáhöld innifalin.

  Námið er lánshæft hjá MSN, Menntasjóði námsmanna. Öll samskipti við MSN eru algerlega á ábyrgð nemenda.

 • Kennsluhættir

  Kennsluaðferðin sem notast er við í náminu er vendinám (flipped learning), en með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við þar sem fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Nánari upplýsingar, myndbönd og ítarefni um vendinám má nálgast hérna.

 • Námsmat

  Áhersla er lögð á hæfni nemenda á vegferð þeirra og mikilvægt að námsmatið styðji við þau markmið sem stefnt er að. Kennarar meta þekkingu og færni nemenda með fjölbreytilegum hætti. Námsmat getur m.a. byggst á prófum, símati, mati á verklegu námi og sjálfsmati nemenda. Umfang matsins skal að jafnaði vera í samræmi við kennslu í viðkomandi áfanga. Til að standast próf í áfanga þarf einkunnina 5 bæði í annareinkunn og í lokaprófum, hvort sem um verklega eða bóklega áfanga er að ræða. Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum á bilinu 1 – 10. Á einkunnaskirteinum að lokinni önn sjá nemendur vægi. 

 • Umsagnir nemenda í fótaaðgerðafræði

  Hér má sjá umsagnir nemenda í fótaaðgerðafræði sem hófu nám í byrjun árs 2017.

  • Eyrún Linda Gunnarsdóttir - Fótaaðgerðafræði

   Eyrun Linda útskrifaðist sem fótaaðgerðafræðingur 18. janúar 2019. Námið hjá Keili gerði henni kleift að elta drauma sína um að gerast sjálfstætt starfandi aðili með sinn eigin rekstur. Hér fyrir neðan má sjá hvað Eyrún hefur að segja um fótaaðgerðafræðinám Keilis.

   „Draumur minn hefur alltaf verið að gerast sjálfstætt starfandi aðili með eigin rekstur. Fótaaðgerðafræði er heilbrigðisfag sem höfðar til mín og gerir mér kleift að elta drauma mína. Ég er við þann mundinn að opna mína eigin stofu í Grafarvogi þar sem ég mun starfa við hliðina á öðrum fótaaðgerðafræðingi. Starfsstéttin er náin og ríkir góður andi þar.“

   Námsfyrirkomulagið hentaði mér vel

   Ég bý í Mosfellsbæ ásamt fjölskyldu minni, því hefur vendinám hentað afar vel til að geta unnið samhliða námi. Námið er krefjandi en jafnframt spennandi og fræðandi  auk þess sem það passaði vel við mig og mitt áhugasvið. Tíminn leið hratt, ég eignaðist frábærar vinkonur og kynntist æðislegum kennurum og starfsfólki sem eru fagleg og stuðningsrík. Ávalt var unnið að lausnum ef vandamál báru að eins og tungumála örðugleikar eða vöntun á upplýsingum. 

   Þó að skólagöngu sé lokið í þessu fagi þá er hægt að bæta í reynslubankann og sækja námskeið til að auka á færni sem eykur á fjölbreytni starfsins. Ég mæli eindregið með námi í fótaaðgerðafræði hjá Keili. 

  • Valgerður Jóna Jónsdóttir

   Ég kem frá eyjum  byrjaði þegar ég var 44 ára og ansi langt síðan ég var í skóla, en Keilir er mjög mannlegur skóli og réttsýnn.

   Ég á þrjú börn og rak fyritæki með fimm starfsmönnum, sjálf í 70% vinnu og auðvitað tók þetta á, en með mikilli skipulagningu og góðri aðstoð frá fjölskyldunni tókst þetta. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Vendinám er frábært fyrir vinnandi fólk og loturnar vel skipulagðar. Mjög faglegur skóli og mikill metnaður lagður í þetta nám, frábærir kennarar sem og allt starfsfólk skólanns.

   Námið stóð algjörlega undir væntingum og var mikið meira og dýpra nám en ég hélt í byrjun, er rosalega ánægð að hafa drifið mig í þetta nám og er að opna Fótaaðgerðastofu Vestmannaeyja hér í eyjum og get ekki beðið eftir að byrja.

  • Guðrún María

   Fótaaðgerðarfræðinámið hjá Keili kom mér mjög skemmtilega á óvart. Ég var búin að starfa sem snyrtifræðingur í 13 ár og hafði blundað í mér nokkuð lengi að bæta við mig fótaaðgerðarfræði.

   Námið var miklu umfangsmeira en ég bjóst við, það var krefjandi en jafnframt mjög skemmtilegt. Kennararnir eru yndislegir, rosalega reynslumikil og alltaf til í að rétta hjálparhönd. Draumur minn var alltaf að opna mína eigin stofu og er ég að vinna að því núna að opna snyrti- og fótaaðgerðarstofu.

   Ég mæli 100% með þessu námi og vendinámið hentaði mér mjög vel, þar sem ég gat að miklu leyti stjórnað mínum tíma í heimanámið.

  • Guðrún Svava

   „Mér finnst námið mjög skemmtilegt, mjög skemmtilega uppbyggt. Vendinámið hendar mér vel, viðmótið í skólanum og kennarana mjög hlýlegt. Mér finnst fagið mjög áhugavert.“

  • Súsanna Svansdóttir

   „Mér finnst námið í Keili mjög skemmtilegt, krefjandi og áhugavert það er vitað hvað er ætlast til af manni og maður finnur strax að fólkið sem vinnur hérna þykir vænt um mann og vill allt fyrir mann gera. Manni finnst maður verða klárari og klárari með hverju lotu sem líður. Aðstaðan hér á Keili er flott. Fótaaðgerðafræði er mun meira nám en ég hélt í byrjun. Ég mæli hiklaust með þessu námi – láta bara vaða. Þú munt ekki sjá eftir því! Skráðu þig núna – fjörið er í Keili.“

  • Sigurbjörg

   „Mér finnst þetta nám vera mjög skemmtilegt, áhugavert og krefjandi nám. 

   Þetta kennslufyrirkomulag hentar mér mjög vel þar sem ég bý út á landi. Það að geta hlustað á fyrirlestrana þegar mér hentar og eins oft og ég vil er alveg frábært. Loturnar eru skemmtilegar og þar náum við að tengjast betur sem hópur. Það er margt í þessu námi sem ekki er hægt að læra í gegnum tölvu og þá er gott að koma á staðinn þar sem er góð aðstaða og hitta kennarana sem eru faglegir, vingjarnlegir og skemmtilegir. Í þessum skóla ríkir menntnaður og vinalegt viðmót.“

  • Sigríður Lovísa Sigurðardóttir

   „Fótaaðgerðafræðin í Keili er búin að koma mér skemmtilega á óvart. Var búin að skoða þetta nám áður og búin að hugsa um að læra fótaaðgerðafræði og er mjög ánægð með að hafa loksins tekið slaginn og sótt um og vera byrjuð í þessu námi. Ég er einnig lærður hjúkrunarfræðingur og hef starfað við það en langaði að breyta til og finna mér starfsvettvang sem ég gæti stjórnað mínum vinnutíma sjálf.

   Það var fróðlegt að hefja nám í fótaaðgerðafræðinni hér í Keili. Kennarar og aðrir starfsmenn sem hafa aðstoðað og stutt okkur við að komast af stað í náminu og halda okkur við efnið hafa allir mikinn metnað fyrir því sem þau eru að gera. Mjög færir kennarar sem við höfum verið með og einnig hefur annað starfsfólkk, tölvudeildin og námsráðgjafarnir sýnt okkur og frætt um aðra nauðsynlega þætti námsins.

   Kennsluaðferðin vendinám er þægilegt fyrirkomulag sérstaklega fyrir fólk sem er að hafja nám aftur eftir langa pásu. Að hafa aðgang að fyrirlestrunum á netinu þann tíma dags sem þér hentar og á þeim hraða sem þú þarft gerir manni auðveldara fyrir að komast af stað aftur. Kennarar hafa lagt mikin metnað í að koma námsefninu til skila til okkar.

   Námsloturnar sem hafa farið fram í Keili hafa verið vel skipulagðar og er gott starfsumhverfi fyrir nemendur þar. Fótaaðgerðastofan sem er staðsett á Keili er vel tækjum búin og snyrtileg.

   Námið í fótaaðgerðafræðinni hefur fyllilega staðist þær væntingar sem ég gerði til þess.“

  • Sigríður Sigþórsdóttir

   „Ég er mjög ánægð að drífa mig af stað í langþráð nám. En mig hefur langað að læra fótaaðgerðarfræði í mörg ár og varð svo ánægð þegar ég sá auglýsinguna frá Keilir að þau ætluðu að bjóða uppá námið.

   Ég bý á Ísafirði og hentar það mjög vel að byrja námið á staðarlotum, en þá komum við í skólann ca 3-4 lotur fyrstu önnina og tökum verklega þáttinn og bóklega þáttinn lærum við heima, sem er mjög gott því Keilir er með vendinám, það er að segja, kennarinn setur inn fyrirlestur og við getum hlustað á hann aftur og aftur, bara eftir því hvað hver og einn þarf og vill. Og það sem er mjög mikilvægt að vita er að starfsfólkið er alveg einstakt, allir vilja allt fyrir þig gera, andrúmsloftið er gott, og það er frábært að tilheyra góðum samheldum hóp í náminu. Það sem af er af mínu námi í fótaaðgerðarnáminu hefur námið verið mjög lærdómsrík, krefjandi en jafnframt mjög skemmtilegt.“

  • Edda Bára

   „Virkilega spennandi og skemmtilegt nám, en á sama tíma mjög krefjandi. Mjög auðvelt er að hafa samband við kennarana og í flestum tilvikum fær maður svar nánast strax og maður sendir skilaboð. Námið er vel upp sett og haft spennandi. Kennararnir hafa metnað í kenna og gera okkur námið sem auðveldast að skilja.“