Fara í efni

Útskrift Heilsuakademíu í júní 2022

Á föstudaginn 10. júní síðastliðinn útskrifuðust 177 nemendur úr skólum Keilis við hátíðlega athöfn sem haldin var í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Hafa nú 4517 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar.

Fríða Dís Guðmundsdóttir og Soffía Björg Óðinsdóttir hófu athafnir með frábæru tónlistaratriði þar sem þær spiluðu á gítar og sungu fyrir viðstadda. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og leiddi báðar athafnir. Þá hélt Haddý Anna Hafsteinsdóttir verkefnastjóri Heilsuakademíu hvatningarræðu til útskriftarnemenda fyrir hönd starfsfólks Keilis.

Heilsuakademía Keilis útskrifaði alls 58 nemendur, 30 ÍAK einkaþjálfara, 16 ÍAK styrktarþjálfara og 11 nemendur úr Advendure Guide Certificate. Elvar Smári Sævarsson forstöðumaður Heilsuakademíunnar flutti ávarp og afhenti viðurkenningar ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra ÍAK náms og Ragnari Þór Þrastarsyni, verkefnastjóra Adventure Guide Certificate náms. Hákon Aðalsteinsson hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema úr Advendure Guide Certificate náminu og Elva Björg Jónsdóttir hélt ræðu fyrir hönd ÍAK einka- og styrktarþjálfara.

Guðrún Ýr Sigurbjörnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með meðaleinkunn upp á 9,88 og Guðný Petrína Þórðardóttir var verðlaunuð fyrir bestan námsárangur í ÍAK styrktarþjálfun með meðaleinkunnina 9,87 og hlutu þær báðar gjöf frá Hreysti í verðlaun. Í Adventure Guide Certificate náminu var það Lael Elizabeth Smith Cashen sem hlaut hæstu meðaleinkunn, 8,69, og fékk hún gjöf frá Keili í verðlaun.

Heilsuakademía Keilis býður uppá fjölbreytt nám tengt heilsu og heilsueflingu. Boðið hefur verið upp á nám í ÍAK einkaþjálfun allt frá stofnun Keilis árið 2007 og hefur námið hlotið mikilla vinsælda frá upphafi og þykir námið það ítarlegasta á sínu sviði á Íslandi. ÍAK styrktarþjálfun hefur verið í boði frá árinu 2015 og hefur það náð að festa sig í sessi sem valmöguleiki fyrir þá sem hafa áhuga fyrir þjálfun innan íþróttageirans. Að auki við ÍAK einka- og styrktarþjálfun býður Heilsuakademía Keilis uppá Adventure Guide Certificate nám í samstarfi við Thompsons River University, fótaaðgerðafræði, stök vinnuverndarnámskeið ásamt undirbúningsnámskeiði fyrir inntökupróf læknadeildar Háskóla Íslands.

Nám hjá Heilsuakademíu Keilis hefst næst haustið 2022

Nám í Adventure Guide Certificate og ÍAK einka- og styrktarþjálfun hjá Heilsuakademíu Keilis fer næst af stað haust 2022.

Við hvetjum þau sem eru óviss um hvort þau uppfylli inntökukröfur að hafa samband við verkefnastjóra ÍAK náms og verkefnastjóra Advendure Guide Certificate náms til að fara yfir þetta í sameiningu.