Fara í efni

Keilir og Janus heilsuefling í samstarf

Miðvikudaginn 29. nóvember var undirritaður samstarfssamningur milli Janusar heilsueflingar og Keilis. Samstarfið felst í því að nemendur í ÍAK einkaþjálfun munu koma að þjálfun þátttakenda í Janusar verkefninu og verður þjálfunin hluti af vettvangsnámi þeirra. Janus heilsuefling hefur sérhæft sig í heilsueflingu 60 ára og eldri. Að baki heilsueflingunni liggja niðurstöður doktorsrannsóknar Janusar Guðlaugssonar og er markmið verkefnisins að koma til móts við einstaklinga sem vilja efla heilsu sína og lífsgæði þrátt fyrir hækkandi aldur.

Nemendur í ÍAK einkaþjálfun munu fara í vettvangsnám til Janusar í mars á næsta ári. Munu nemendurnir fylgja þjálfara og fá að fylgjast með þjálfun og mælingum og fá kynningu á þeirri þjónustu sem boðið er upp á s.s.heilsufarsmælingum og fræðslu. Í lok þjálfunartímabils munu þjálfarar Janusar skila inn matsblaði með umsögn um nemendur. Með þessu fyrirkomulagi fá nemendur bæði innsýn í starfið og tækifæri til að taka þátt í þjálfun eldri borgara. Nemendur í ÍAK einkaþjálfun koma víðsvegar að og munu því dreifast um landið á stöðvar Janusar.

Bára Sigurbjörg Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Janusar heilsueflingar skrifaði undir samninginn fyrir hönd Janusar en fyrir hönd Keilis skrifaði Nanna Kristjana Traustadóttir framkvæmdastjóri Keilis.  Með á myndinni eru auk Báru og Nönnu, Janus Guðlaugsson stofnandi og gæðastjóri Janusar heilsueflingar og Haddý Anna Hafsteinsdóttir verkefnastjóri Heilsuakademíu Keilis. Að lokinni undirskrift fengu nemendur kynningu á Janusar verkefninu.