Fara í efni

Fótaaðgerðafræðingar útskrifast í þriðja sinn

Keilir brautskráði 89 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, föstudaginn 17. janúar 2020. Við athöfnina voru brautskráðir 57 nemendur af Háskólabrú, 25 atvinnuflugmenn og sjö nemendur úr fótaaðgerðafræði. Var þetta í fyrsta sinn sem útskrift Keilis fer fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, en fjölmennar útskriftir skólans voru búnar að sprengja utan af sér Andrews Theater á Ásbrú þar sem þær höfðu farið fram undanfarin ár.
 
Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og stýrði athöfninni, auk þess sem Magnús Scheving flutti hátíðarræðu.
 
Samtals hafa nú 3.648 nemendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007. Í lok ársins 2019 voru yfir eitt þúsund nemendur skráðir í nám og námskeið á vegum Keilis og hafa aldrei fleiri aðilar lagt stund á nám við skólann en nú. 
 
Fótaaðgerðafræðingar útskrifast í þriðja sinn
 
Sjö nemendur brautskráðust í þriðju útskrift námsbrautar Keilis í fótaaðgerðafræði. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis stýrði útskrift og Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, þróunarstjóri námsins aðstoðaði við brautskráninguna.
 
Aðalheiður Hjelm fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur með 9,21 í meðaleinkunn, en þetta er hæsta lokaeinkunn í sem gefin hefur verið í fótaaðgerðafræðinámi Keilis frá upphafi. Fékk hún gjafir frá Praxis og Áræði. Ræðu útskriftarnema fyrir hönd fótaaðgerðafræðinga flutti Anna Vilborg Sölmundardóttir. 
 
Keilir hefur boðið upp á nám í fótaaðgerðafræði frá febrúar 2017 og stunda að jafnaði á annan tug nemenda námið hverju sinni. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.
 
Myndir frá útskrift Keilis 17. janúar 2020 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)