Fara í efni

Brautskráning af Íþróttaakdemíu Keilis

Íþróttaakademía Keilis brautskráði samtals 74 nemendur af fjórum námsbrautum við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú, föstudaginn 8. júní síðastliðinn. Hafa þátt hátt í eittþúsund einstaklingar lokið námi hjá Íþróttaakademíu Keilis síðan skólinn útskrifaði fyrsta hóp nemenda árið 2009.
 
Fyrstu einkaþjálfarar Keilis brautskráðir með evrópska vottun
 
Samtals 54 nemendur brautskráðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 42 einkaþjálfarar og 12 styrktarþjálfarar. Með útskriftinni hafa 645 einstaklingar lokið þjálfaranámi frá Keili. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Bergrún Ingólfsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,78 í meðaleinkunn og Linda Björk Árnadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ÍAK styrktarþjálfun með 9,23 í meðaleinkunn. Þau fengu bæði TRX bönd frá Hreysti. Íris Hrönn Kristinsdóttir flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis. 
 
Julian Berriiman, formaður Professional Standards Committee Europe Active futti ávarp fyrir ÍAK einkaþjálfara, en ÍAK einkaþjálfaranám Keilis hlaut á árinu alþjóðlega viðurkenningu og vottun á vegum Europe Active stofnunarinnar. Vottunin er gæðastimpill á því námi sem skólinn hefur boðið upp á undanfarin ár og mun auka sýnileika útskrifaðra nemenda á alþjóðavísu, en framvegis verða útskrifaðir einkaþjálfarar skráðir í EREPS gagnagrunn þeirra og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni.  
 
Fyrsta útskrift fótaaðgerðafræðinga 
 
Sjö nemendur brautskráðust í fyrstu útskrift námsbrautar Keilis í fótaaðgerðafræði. Sigríður Lovísa Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur með 9,0 í meðaleinkunn og fékk verkfæri fyrir fótaaðgeðarfræðinga frá heildsölunni Áræði og ársgjald frá Félagi íslenskra fótaaðgerðafræðinga. Keilir hefur boðið upp á nám í fótaaðgerðafræði frá febrúar 2017 og stunda að jafnaði á annan tug nemenda námið hverju sinni. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.   
 
Samtals hafa 76 nemendur lokið leiðsögunámi
 
Íþróttaakademía Keilis og Thompson Rivers University í Kanada brautskráðu 13 nemendur úr leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku. Námið hefur vakið athygli bæði meðal íslenskra og erlendra nemenda og hafa samtals 76 nemendur útskrifast á undanförnum fimm árum meðal annars frá Kanada, Grænlandi, Chile, Indlandi, Noregi og Spáni, auk Íslands. Iain Stewart-Patterson, yfirkennari hjá Thompson Rivers University, flutti ávarp og Rajeev Ayer hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 9,12 í meðaleinkunn. Fékk hann gjöf frá GG sjósport. 
 
Myndir frá útskrift Keilis 8. júní 2018 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)