Fara í efni

Viðskiptafræðingur gerist einkaþjálfari

Fanney í keppni í Þrekmeistaranum
Fanney í keppni í Þrekmeistaranum
Viðtal við viðskiptafræðing sem lærði einkaþjálfun rúmlega fimmtug. Viðtalið birtist í hverfisblaðinu fyrir Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi.

Viðtal við viðskiptafræðing sem lærði einkaþjálfun rúmlega fimmtug. Viðtalið birtist í hverfisblaðinu fyrir Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi.

Í Laugarneshverfinu, nánar tiltekið á Otrateignum, býr kona á besta aldri sem ákvað rúmlega fimmtug að breyta til  og fara í nám. Hún heitir Fanney Úlfljótsdóttir og hefur unnið skrifstofustörf nánast allan sinn starfsferil og missti vinnuna fyrri part árs 2009.

Sá atburður varð til þess að hún ákvað að snúa við blaðinu og læra eitthvað alveg nýtt, eitthvað sem hún hafði brennandi áhuga á. Fyrir valinu varð ÍAK einkaþjálfaranám hjá Heilsuskóla Keilis á Ásbrú. Þaðan útskrifaðist hún 16. júní sl.

Ég er búin að eiga heima í Laugarneshverfinu í 26 ár samfleytt, segir Fanney, þar af 23 ár á Otrateignum. Það er yndislegt að búa í þessu hverfi. Veðursæld er mikil, góðir nágrannar, stutt í Laugardalinn og allt hér sem fólk þarfnast. Ég átti heima í hverfinu þegar ég var lítil og var þrjú fyrstu skólaárin í Laugalækjarskólanum þar sem maðurinn minn er skólastjóri í dag.

Af hverju nám í einkaþjálfun?

Ég hef séð og fundið á sjálfri mér hvað styrktarþjálfun gerir mikið fyrir líkamann. Ég ákvað í mars 2007 að vera konum á mínum aldri fyrirmynd í líferni og útliti og er regluleg þjálfun  hluti af þeirri ákvörðun. Konur á mínum aldri geta alveg verið flottar og „fit“ ef þær vilja og nenna. Mig langar að gera konur meðvitaðar um  að þær verði að setja sig í fyrsta sæti og að hreyfing og styrktarþjálfun eru hlutir sem við megum ekki vanrækja.

Til að geta miðlað af þessari reynslu minni til fólks faglega ákvað ég að læra einkaþjálfun og er nú að byrja að þjálfa í World Class Laugum. Ég hef æft þar í nokkur ár og er mjög ánægð með aðstöðuna. Ég hef mikinn áhuga á að hjálpa fólki að breyta lífsmynstri sínu í hreyfingu og mataræði.  

Verða konur ekki vöðvatröll með því að æfa með lóðum og gera styrktaræfingar?

Það er algengur misskilingur hjá konum að þær verði vöðvatröll ef þær þjálfa vöðvana. Það sem gerist er það að við fáum fallega og vel mótaða vöðva sem koma í ljós þegar við erum búnar að æfa í nokkurn tíma. Í líkama kvenna er svo lítið af þeim hormónum sem mynda þessa stóru vöðva eins og hjá karlmönnunum og þess vegna engin ástæða til að hræðast styrktaræfingar.

Ég man þegar ég var yngri þá var ég haldin þessari firru enda voru líkamsræktarstöðvar ekki algengar þá. Eins voru vöðvatröll eins og Jón Páll og Skúli lyftingakappi ef til vill spegilmynd þess hvernig við yrðum ef við færum í ræktina. Þegar ég var rúmlega þrítug vann ég með yngri konu sem æfði hlaup og lyftti lóðum og fannst mér hún meir en lítið skrítin að vilja verða vöðvatröll. En þá vissi ég ekki betur.

Segðu mér aðeins hvað þú lærðir í ÍAK einkaþjálfaranáminu?

Mér fannst þetta nám virkilega skemmtilegt. Námsgreinarnar voru vöðva– og hreyfifræði, þjálffræði, lífeðlisfræði, næringarfræði, íþróttasálfræði og skyndihjálp. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt í lífeðlisfræðinni og margt fróðlegt sem við lærðum þar um mannslíkamann . Þar var vísað í rannsóknir sem sýndu fram á nauðsyn þess að stunda hreyfingu, annars vegar þolæfingar til að styrkja hjartað og hins vegar styrktaræfingar til styrkja vöðvakerfið. Einnig fannst mér athyglisvert þetta með samsetningu mannslíkamans. Honum er skipt í fitufrían massa og fitu. Í fitufría massanum eru vöðvarnir og þeir rýrna með aldrinum ef þeir eru ekkert notaðir og fituhólfið eykst þá að sama skapi. Efnaskiptahraði líkamans ræðst af þessari skiptingu, þar sem fitulausa hólfið brennir 28 hitaeiningum á dag fyrir hvert kg en fituhólfið aðeins fjórum hitaeiningum. Þess vegna er mjög mikilvægt að viðhalda fitulausa hólfinu og þar skiptir styrktarþjálfunin miklu máli þar sem hún viðheldur vöðvamassanum.

Þjóðin er að verða hokin og með framstætt höfuð.

Eftir námið tek ég mikið eftir því hvernig fólk ber sig. Það er sláandi hve margir eru hoknir og með framstætt höfuð. Unga fólkið í dag sem situr með fartölvuna í fanginu og réttir ekki úr sér tímunum saman á eftir að verða verulega hokið í framtíðinni. Það verður að gera fólk meðvitað um þetta og hægt er að gera æfingar sem snúa þessari þróun við. Höfuðið er 5-7 kg og mikið álag á herðar og bak ef það verður mjög framstætt. Ég var sjálf orðin nokkuð hokin án þess að taka eftir því, enda búin að vinna við skrifborð mest alla mína starfsævi. Núna geri ég æfingar markvisst til að verða bein í baki.

Hvers vegna ætti fólk að fara til einkaþjálfara?

Hjá Keili lærði ég m.a. um vöðvaójafnvægi, einhæfar hreyfingar o.fl. Við ákveðna vinnu þar sem alltaf er verið að gera sömu hreyfinguna og við langa setu við skrifborð, verða sumir vöðvar stífir og aðrir veikir. Að endurtaka sömu hreyfinguna allan daginn getur haft slæm áhrif á liði og vöðvaþræði, vöðvarnir verða stífir. Þetta þarf að laga og huga að áður en í óefni er komið. Við ÍAK einkaþjálfarar bjóðum fólki að gera líkamsstöðugreiningu þar sem við metum ástandið og búum til prógram við hæfi.

Þegar fólk fer að æfa sjálft, festist það oft í sömu æfingunum, framkvæmir æfinguna ekki rétt og veit oft ekki að gæta þarf jafnvægis milli vöðvahópa. Líkaminn er fljótur að aðlagast og ef við erum alltaf að gera það sama, verða engar framfarir. Ég var svona sjálf, fór alltaf í sömu tækin og reyndi í raun ekkert á mig og sá því engar framfarir. Karlmenn sem vilja hafa flotta brjóstvöðva og eru duglegir í bekkpressunni, gleyma oft að æfa bakvöðvana á móti. Þá vantar allan kraft í bakvöðvana og þeir verða hálf hoknir og hendurnar snúnar.

Heyrst hefur að þú sért kölluð þrekfrúin (eða járnfrúin J)

Eitthvað hafa börnin mín og tengdabörn veri ð að gantast með þetta. Eftir að ég  var búin að æfa markvisst í nokkra mánuði seinni part ársins 2007 ákvað ég að keppa í Þrekmeistaranum. Dóttir mín hafði tekið þátt í liðakeppni Þrekmeistarans 2006 og langaði mig að prófa. Ég ákvað að segja öllum frá því svo ég hætti nú ekki við. Ég æfði stíft undir handleiðslu einkaþjálfara fram á vor 2008 og keppti þá í fyrsta sinn og tók allar greinarnar tíu. Þetta var mikil þrekraun en ég kláraði og var hrikalega ánægð með sjálfa mig. Í dag er ég að undirbúa mig fyrir fimmtu keppnina mína sem verður 6. nóvember á Akureyri og nú tek ég með mér nokkrar hressar konur til að taka þátt í liðakeppninni með mér. Það er aðeins meiri áskorun að taka  bæði þátt í einstaklings – og liðakeppninni.

Fyrir nokkrum árum datt mér ekki í hug að æfa t.d. armbeygjur. Þegar ég byrjaði að æfa þær haustið 2007 gat ég einungis gert 2-3 . Í dag, á góðum degi óþreytt, get ég hátt í 30. Þá er ég ekki að tala um armbeygjur á hnjánum heldur alvöru.

Ásamt styrktaræfingunum hef ég aðeins verið að skokka. Eins og ég nefndi þurfum við að æfa bæði þol og styrk. Í fyrra ákvað ég að setja mér markið aðeins hærra í skokkinu og taka þátt í hálfu maraþoni og hef nú hlaupið tvisvar sinnum hálft í Reykjavíkurmaraþoninu, 2009 og 2010. Ég er reyndar meira fyrir styttri vegalengdir og læt mér oftast nægja að hlaupa 5-10 km.

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

Eins og staðan er í dag hef ég brennandi áhuga á því að þjálfa fólk, sjá það ná framförum og auka vellíðan sína. Sérstaklega hef ég áhuga á að þjálfa konur á besta aldri.

Ég sé fyrir mér að ég vinni við einkaþjálfun og fræðslu. Ég hef sérstakan áhuga á að fólk undirbúi sig undir efri árin því öll eldumst við og það er mikilvægt að koma vel líkamlega undirbúinn inn í það tímaskeið. Öll breytumst við með aldrinum en það er ekkert sjálfgefið að við verðum hrörleg gamalmenni. Rannsóknir hafa sýnt að hrörnun í vöðva og beinagrindarkerfinu snýst ekki eingöngu um aldur, hægt er að hægja á þessu ferli með því að stunda rétta þjálfun. Þessa vegna þarf fólk að taka tímanlega í taumana og byrja að æfa.

Viðtalið tók Már Guðlaugsson. Birt með góðfúslegu leyfi hverfisblaðsins fyrir Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi.