Fara í efni

Sjöundi nemendahópur Leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku

Reykjanesið tók hressilega á móti nýnemu í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku
Reykjanesið tók hressilega á móti nýnemu í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku

Skólasetning Leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku á vegum Keilis og Thompson Rivers háskólans í Kanada fór fram um miðjan ágúst.

Á komandi skólaári munu sextán nemendur frá sex löndum leggja stund á námið, en það tekur átta mánuði þar sem helmingur námstímans fer fram á vettvangi í náttúru Íslands. Nemendurnir í ár koma frá Íslandi, Kanada, Grænlandi, Frakklandi, Hollandi og Kína, en þetta er í fyrsta sinn sem kínverskur nemandi leggur stund á námið.

Keilir hefur boðið upp á leiðsögunám í ævintýramennsku frá árinu 2013 í nánu samstarfi við Thompson Rivers sem er viðurkenndur sem einn af leiðandi skólum í ævintýraferðamennsku á heimsvísu. 

Markmið námsins hefur verið að auka færni og þekkingu í flestum geirum ævintýraferðamennsku, meðal annars með því að tryggja öryggi leiðsögu- og ferðamanna í óbyggðum ásamt því að auka gæði og þjónustu í greininni. Að náminu koma bæði innlendir og erlendir kennarar sem hafa allir öðlast alþjóðleg réttindi og mikla færni á sínu sviði, svo sem í fjallamennsku eða kajak- og flúðasiglingum.  

Um er að ræða 60 ECTS, átta mánaða nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku.

Hægt er að fylgjast með framvindu nemenda á samfélagsmiðlum ævintýranámsins (Facebook og Instagram) en þar má einnig sjá myndir frá starfinu undanfarin ár.