Fara í efni

Gaman að sjá árangurinn koma í ljós

Steinunn Helgadóttir, ÍAK einkaþjálfari á Stykkishólmi
Steinunn Helgadóttir, ÍAK einkaþjálfari á Stykkishólmi
Viðtal við Steinunni Helgadóttur, ÍAK einkaþjálfara á Stykkishólmi.

Viðtal við Steinunni Helgadóttur, ÍAK einkaþjálfara á Stykkishólmi.

Eftirfarandi viðtal birtist í Skessuhorni 27. janúar s.l. og birtist hér með góðfúslegu leyfi Skessuhorns.

Nú í byrjun árs þegar fólk er byrjað í átökum af öllu tagi, benti einn helsti tíðindamaður Skessuhorns á Snæfellsnesi blaðamanni á að í Stykkishólmi væri einkaþjálfari einn sem gjörsamlega væri að slá í gegn og ná stórkostlegum árangri með liðið. Þessi manneska væri eiginlega búin að gjörbreyta sínu lífi, sagði tíðindamaðurinn, ekki aðeins með því að hressa upp á allt vöðvasettið heldur taka mataræðið í gegn líka. Þetta er hún Steinunn Helgadóttir í Stykkishólmi sem þrátt fyrir að vera nánast nýútskrifuð úr Einkaþjálfunarskólanum er nú umsetin fólki sem vill komast í þjálfun hjá henni og vill ná árangri.

Fjölbreyttur hópur á breiðu aldursskeiði

Steinunn var að sinna einkakennslu eftir hádegið síðastliðinn fimmtudag í líkamsræktarstöðinni Átaki í Stykkishólmi, þegar blaðamaður Skessuhorns hitti hana að máli. „Ég er svo heppin að hafa fengið vinnu í Átaki hjá eigendum stöðvarinnar, Róbert Árna Jörgensen og Fríðu Hrund Kristinsdóttir. Ég byrja hérna klukkan átta á morgnana og er að, oftast með smá hléum, til sjö og átta á kvöldin. Ég er bæði með blandaðan hóptíma og einkatíma, mjög fjölbreyttan hóp, fólk frá 14 til 75 ára í mjög mismunandi líkamsástandi. Mér finnst það mikill kostur að fá að þjálfa svona mislitan hóp. Þetta væri sjálfsagt ekki svona ef ég væri að vinna á líkamsræktarstöð á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún.

Mjög krefjandi nám

Þeir eru trúlega margir sem halda sem svo að það þyrfti nú ekki mikinn lærdóm til að gerast þjálfari í líkamsrækt. Í þá gryfju féll til dæmis sá sem þetta ritar, en það þarf líklega að kunna sitthvað meira en að geta sagt fólki að taka armbeygjur og lyfta lóðum. Steinunn skellti sér í ÍAK einkaþjálfaranámið hjá Keili á Ásbrú.

„Það kom mér á óvart hvað þetta er krefjandi nám. Það er gríðarlega margt í líffræðinni sem þú verður að hafa þekkingu á og þeir hjá Keili leggja áherslu á að þeir einkaþjálfarar sem útskrifast hjá þeim vinni í samstarfi við sjúkraþjálfara.“

Steinunn segir að einkaþjálfarinn þurfi í raun að meta líkamlegt ástand hvers og eins og miða þjálfunina út frá því. „Ég get nefnt sem dæmi fullorna konu sem er lungnaveik og er í þjálfun hjá mér. Hún þarf á súrefnisgjöf að halda og núna strax eftir svolítinn tíma er hún farin að skynja verulegan árangur með þjálfuninni. Það gefur iðkandanum mjög mikið þegar árangurinn er farinn að sýna sig.“

Mataræðið mjög mikilvægt

Steinunn segir að það sé ánægjulegast fyrir einkaþjálfarann þegar markmiðin sem sett eru með æfingum og réttu mataræði skila sér. „Mataræðið er líka mjög mikilvægt enda valdi ég sem lokaverkefni í náminu mötuneyti barna í grunnskólum,“ segir Steinunn, en hún var einn þriggja af 56 nemendum í ÍAK einkaþjálfaranámi Keilis sem fékk viðurkenningu fyrir lokaverkefni sitt.

„Ég sé ekki eftir því að hafa skellt mér í þetta nám, enda á þetta virkilega vel við mig,“ segir Steinunn. Hún hefur lengst af unnið að þjónustustörfum, en sótti á sínum tíma menntun í hússtjórnarfræðum til Reykjavíkur, meðan maður hennar Sæþór Þorbergsson var í matreiðslunámi. Síðan þau tóku við Narfeyrarstofu árið 2001 hefur Steinunn staðið þar að rekstri með manni sínum. Það er því væntanlega ekki spurning að ef einkaþjálfarinn nær sínu fram er enginn vafi á „hollustugildi“ veitinganna hjá Narfeyrarstofu.

Viðtalið tók Þ.Á. hjá Skessuhorni.