Fara í efni

„Áhuginn er lykill að árangri“

Hrafnhildur Guðnadóttir
Hrafnhildur Guðnadóttir

Hrafnhildur Guðnadóttir lauk námi í styrktarþjálfun með hæstu meðaleinkunn nemendahópsins eða 9,87.

Áður en hún skráði sig í nám hjá Keili hafði hún starfað sem hársnyrtir á Sauðárkróki, þjálfað börn í knattspyrnu og einnig rekur hún ferðaþjónustufyrirtækið Drangeyjarferðir ásamt fjölskyldu sinni.

En hvað varð til þess að hún skráði sig í nám í styrktarþjálfun? “Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og hreyfingu. Ég sá fyrir mér að geta nýtt styrktarþjálfunarnámið sem þjálfari í hópíþrótt, bæði með börnum og fullorðnum”.

Námið gekk mjög vel að sögn Hrafnhildar, var bæði krefjandi og skemmtilegt og bætir við að þegar viðkomandi hefur brennandi áhuga á því sem verið er að gera þá sé auðveldara að ná góðum árangri. En hvernig skóli finnst henni Keilir vera? „[Keilir býður uppá] mjög þægilegt námsumhverfi, starfsfólk skólans er frábært, hefur trú á nemendum sínum og hvetur þá áfram til árangurs“.

Hrafnhildur segist hiklaust mæla með náminu þar sem það hefur orðið mikil vakning á mikilvægi styrktarþjálfunar og þá sérstaklega meðal íþróttafólks. „Þetta er fjölbreytt nám sem kemur inn á allt það mikilvægasta sem snýr að styrktarþjálfun, bæði líkamlegum og andlegum þáttum“.

Nú að námi loknu stefnir Hrafnhildur á að halda áfram starfi sem knattspyrnuþjálfari og stefnir á að bæta við styrktarþjálfun sem hluta af þjálfarastarfi sínu „ég er ánægð með hvað ég get nýtt námið á margvíslegan hátt í starfi“

Þökkum Hrafnhildi fyrir spjallið og óskum henni til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í leik og starfi. ÍAK styrktarþjálfaranám er kennt í fjarnámi með staðlotum og hefst næst 18.ágúst. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Keilis: https://www.keilir.net/heilsuakademia