Fara í efni

„Mikilvægt að þurrka vel á milli tánna og nota góða skó“

Katrín Lilja Ólafsdóttir
Katrín Lilja Ólafsdóttir

Katrín Lilja lauk námi í fótaaðgerðafræði með hæstu meðaleinkunn útskriftarhópsins eða 9,73. Áður hafði hún lokið námi í matartækni starfa sem matráður í Auðarskóla í Dölum. Aðspurð hvers vegna hún hafi sótt um nám í fótaaðgerðafræði segir Katrín Lilja “Löngun mín til að læra fótaaðgerðafræði hefur blundað í mér lengi. Ég var óttalegur kroppari alltaf í eigin fótum og fótum fjölskyldumeðlima og eftir nokkrar ferðir með skátunum mínum, ég er nefnilega skátaforingi, þar sem ég sinnti alls kyns fótameinum sem áhugamanneskja, áttaði ég mig á því að þetta væri eitthvað sem ég hafði verulegan áhuga á“.

Að sögn Katrínar gekk námið mjög vel þrátt fyrir að allt daglega lífið hafi fylgt eftir í hverju spori, eins og hún orðar það „eins og hjá flestum konum á mínum aldri þá eru margir boltar á lofti og svo dúkkuðu upp alvarleg covid-veikindi sem hefðu getað sett allt út af sporinu”. Lykillinn að velgengninni segir Katrín Lilja vera eiginleikann að geta litið yfir erfiðleikana og sjá hið jákvæða allt um kring. Einnig nefnir hún námsráðgjafa Keilis sem hún hafi leitað til þegar henni fannst ástæða til þegar „bugun var í aðsigi”.

Heilt yfir stóðst námið væntingar Katrínar Lilju en hún nefnir að það hafi ekki alveg gengið snurðulaust fyrir sig vegna veikinda í kennarahópnum „en gott fólk steig inn og tók að sér að snúa keflinu við sem gerði það verkum að við útskrifuðumst öll”. Keilir er flottur skóli segir Katrín Lilja, og að henni hafi fundist gaman að mæta og aðgengi að kennurum og öðru starfsfólki sé gott.

Hverjir eru það sem ættu að huga að því að gerast fótaaðgerðafræðingar? Katrín Lilja svara því til að námið sé fyrir þá sem hafa ríka þjónustulund og brenna fyrir að hjálpa öðrum við að auka lífsgæði sín og hæfni til daglegra athafna, til íþróttaiðkunar og heilsuræktar, „þetta er miklu meira en bara að klippa neglur og pússa hæla”.

En hvert stefnir nýútskrifaði fótaaðgerðafræðingurinn? „Það eru ansi margar dyr opnar hjá mér núna og ég ætla að taka mér smá tíma í að ákveða hvað af því sem er í boði heillar mig mest. Ég er allavega að fara að opna stofu fyrir fótaaðgerðir þar sem aðrir meðferðaraðilar geta búið um sig líka og svo vil ég gjarnan stunda hina iðn mína [matartækni] áfram”.

Heilræði Katrína Lilju eru þessi: „Mundu að þurrka vel á milli tánna og notaðu bara góða skó”.

Þökkum Katrínu Lilju fyrir spjallið og óskum henni hamingju með áfangann og óskum henni velfarnaðar í leik og starfi.