Fara í efni

Ánægðir Silfurstrákar í ÍAK einkaþjálfun

Guðjón Valur og Þórir Ólafs einbeittir í námi í ÍAK einkaþjálfun hjá Keili
Guðjón Valur og Þórir Ólafs einbeittir í námi í ÍAK einkaþjálfun hjá Keili
Meðal þeirra nemenda hjá Keili eru helmingur íslenska landsliðsins í handbolta, strákarnir okkar. Allir stunda þeir nám í ÍAK einkaþjálfun og munu ljúka því námi í sumar. Við fengum þá Guðjón Val Sigurðsson og Björgvin Pál Gústavsson til að gefa okkur innsýn í upplifun sína á náminu.

Meðal þeirra nemenda hjá Keili eru helmingur íslenska landsliðsins í handbolta, strákarnir okkar. Allir stunda þeir nám í ÍAK einkaþjálfun og munu ljúka því námi í sumar. Við fengum þá Guðjón Val Sigurðsson og Björgvin Pál Gústavsson til að gefa okkur innsýn í upplifun sína á náminu.

Hvernig kom það til að helmingur íslenska handboltaliðsins fór í nám í hjá Keili?

Gaui: Ég var búinn að vera lengi í sambandi við HR því að mig langaði mikið að taka íþróttafræðinginn í fjarnámi en það var ekki hægt. Fyrir tilviljun datt ég inn á ÍAK einkaþjálfaranámið hjá Keili og hringdi í Gunnhildi, forstöðumann námsins sem að var meira en til í að hjálpa.

Bjöggi: Held að mörgum atvinnumönnum í íþróttum langi að mennta sig í íþróttageiranum en vandamálið hefur verið að það að það er ekki auðvelt að finna nám sem hægt er að stunda í fjarnámi með atvinnumennskunni. Þetta nám er skipulagt þannig að við tökum bóklega hlutann í gegnum fjarnám en verklega kennslan er sérstaklega sniðin að landsliðshópnum. Það kom ekki annað til greina en að slá til og hóa í sem flesta því að þetta var frábært og spennandi nám sem að fleiri en einn eða tveir gátu nýtt sér.

En af hverju eruð þið að fara í nám í ÍAK einkaþjálfun? Kunnið þið þetta ekki allt?

Bjöggi: Ég held að það kunni enginn allt. Áður en ég fór í þetta nám taldi ég mig persónulega vera mjög fróðan á öllu tengdu sportinu en strax og námið byrjaði fékk maður beint í æð endalaust af nýjum fróðleik og upplýsingum. Áður en námið hófst átti ég aldrei von á því að ég myndi græða svona mikið á þessu námi eins og raun ber vitni. Þarna eru auðvitað rosalega færir kennarar og er maður að læra af þeim bestu í hverjum geira fyrir sig og hjálpar þetta manni mjög mikið bæði sem einkaþjálfari og einnig til að ná enn lengra í handboltanum.

Gaui: Það er alltaf hægt að læra meira. Ég vildi læra meira á líkamann og æfingar og það hef ég svo sannarlega gert.

Hvernig hefur gengið að stunda námið erlendis og með atvinnumennsku?

Bjöggi: Það gengur mjög vel. Held að þú getir komist þægilega í gegnum atvinnumennskuna ef þú kýst það... Mætt á æfingu, borðað, lagt þig, mætt á aðra æfingu, borðað og farið að sofa... Það líf er ekki fyrir mig og það að hafa eitthvað fyrir stafni á milli æfinga og í nokkra tíma á kvöldin er mikilvægt fyrir mig. Þetta er líka nám sem tengist mínu áhugamáli þannig að það er bara gaman að stússast í þessu þegar tími gefst.

Gaui: Já, það er stundum vesen að ná öllum hópnum saman en þetta hefur í heildina gengið stórslysalaust.

Ættu íþróttamenn að sækja þetta nám?

Gaui: Já alveg hiklaust. Það eru margir þjálfarar sem að eru kannski klárir á sportið en þekking á styrktar- og ástandsþjálfun er ábótavant.

Bjöggi: Mæli eindregið með því. Hefur hjálpað mér mjög mikið á þessum stutta tíma. Þarna færðu kennslu á öllum sviðum, hvort sem það tengist þjálfun, næringarfræði eða eitthvað annað.

Er styrktar- og ástandsþjálfun íþróttamanna á Íslandi sinnt nægilega markvisst? Er vel hugað að meiðslaforvörnum?

Bjöggi: Að mínu mati er svo ekki. Finnst að öll félög ættu að vera með einn sérstakan styrktarþjálfara sem sér um að upplýsa þjálfarana betur og halda utan um þennan þátt frá A-Ö. Þetta er einn mikilvægasti þáttur í þjálfun og auðvelt að gera mistök í þessum geira og þess vegna mikilvægt að þetta sé í höndunum á einhverjum sem veit hvað hann er að gera. Mikilvægt er að styrktarþjálfunin sem gerð skipulega og í réttri röð til að fyrirbyggja meiðsli. Byrja t.d. á ýmsum styrktaræfingum með eigin líkama á yngstu stigum og vinna sig svo upp. Leggja þarf mikla áherslu á passa t.d. þau liðamót sem tengjast ákveðinni íþrótt. Algengt er að reynsluminnstu þjálfararnir eru settir á yngstu kynslóðina og þar með hafa þeir þjálfarar kannski ekki mikla þekkingu á styrktarþjálfun og þá er mikilvægt að það sé einhver aðili sem hægt sé að leita til innan félagsins.

Gaui: Ég er búinn að vera svo lengi úti að ég get ekki lagt mat á það.

En erlendis þar sem þið spilið?

Bjöggi: Er mjög svipað þar sem ég spila í Sviss...

Gaui: Það er mjög misjafnt. Þar sem að ég er er það í lagi, hvorki meira né minna.

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart við námið?

Bjöggi: Heill hellingur búinn að koma mér á óvart. Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart er hvað ég er búinn að læra mikið nýtt og hvað þetta hefur hjálpað mér mikið í mínu sporti einnig.

Stefnið þið á frekara nám í framtíðinni?

Gaui: Já, en hvað nákvæmlega veit ég ekki enn.

Bjöggi: Ég stefni allavega á það að mennta mig mun meira í íþróttageiranum og fylgist vel með því hvaða nám er í boði hjá Keili þar sem reynsla mín af þessu fyrsta námi mínu þar var mjög góð. Einnig langar mig að mennta mig í markaðsfræði og í þeim geiranum og bíð spenntur hvort að Keilir komi til með að koma með eitthvað í því. Ég ætla allavega að nota mennskuna í það að læra eins mikið og ég get og á mínu áhugasviði sem eru íþróttir og allt tengt fyrirtækjarekstri.

Þökkum þeim félögum kærlega fyrir spjallið og óskum þeim áframhaldandi góðs gengis í námi og starfi.