Fara í efni

Opið fyrir umsóknir í öllum skólum Keilis

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í öllum skólum Keilis, umsóknarfrestir eru mismunandi eftir skólum en við hvetjum áhugasama til þess að sækja um tímalega.

 

Háskólasetur

Við Háskólasetur Keilis er opið fyrir umsóknir í Háskólabrú. Þar er boðið upp á nám fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla og telst námið sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis og Háskóla Íslands. Markmiðið með náminu er að veita nemendum góðan undirbúning fyrir krefjandi háskólanám.

Boðið er upp á Háskólabrú í fjarnámi, staðnámi og með vinnu á fjórum mismunandi deildum: félagsvísinda- og lagadeild, hugvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild ásamt verk- og raunvísindadeild.

Þeim sem vantar allt að 20 framhaldsskólaeiningar til að hefja nám á Háskólabrú Keilis stendur til boða að taka Háskólabrú með undirbúningsáföngum. Þar er hægt að sækja undirbúningsáfanga í Opnum framhaldsskólaáföngum í sumar og hefja nám á Háskólabrú í framhaldinu. Þeir sem hyggjast nýta sér þennan kost þurfa að sækja um snemma þar sem nægur tími þarf að gefast til að ljúka áföngum áður en nám hefst í haust.

Umsóknarfrestur til 14. júní 2021

Spyrjast fyrir um nám á Háskólabrú

 

Heilsuakademía

Við Heilsuakademíuna er opið fyrir umsóknir í ÍAK einkaþjálfaranám, ÍAK styrktarþjálfaranám, NPTC einkaþjálfaranám á ensku, Leiðsögunám í Ævintýraferðamennsku og nám í Fótaaðgerðafræði.

ÍAK einkaþjálfaranámið er ítarlegasta einkaþjálfaranám sem í boði er á Íslandi. Námið er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu sem starfsnám á þriðja hæfniþrepi og skiptist í kjarna, heilbrigðisgreinar og sérgreinar einkaþjálfunar. Um er að ræða fullt nám þar sem bókleg kennsla fer að mestu leiti fram í fjarnámi og verkleg kennsla fer fram í staðlotum. Staðlotur eru 3-4 á haustönn og 7 á vorönn.

Þeim sem vantar upp á allt að 20 framhaldsskólaeiningar stendur til boða að taka ÍAK einkaþjálfun með undirbúning. Þar er hægt að sækja undirbúningsáfanga í Opnum framhaldsskólaáföngum í sumar og hefja nám í ÍAK einkaþjálfun í framhaldinu. Þeir sem hyggjast nýta sér þennan kost þurfa að sækja um snemma þar sem nægur tími þarf að gefast til að ljúka áföngum áður en nám hefst í haust.

Umsóknarfrestur til 15. maí 2021

Spyrjast fyrir um ÍAK einkaþjálfaranám

 

ÍAK styrktarþjálfari er einstakt nám fyrir fagfólk í styrktar- og ástandsþjálfun íþróttafólks á afreksstigi. Námið er mjög hagnýtt, hnitmiðað og skipulagt af íslenskum og erlendum sérfræðingum úr heimi styrktarþjálfunar. Nemendur útskrifast með viðurkenningu sem ÍAK styrktarþjálfarar.

Umsóknarfrestur til 15. maí 2021

 

 

Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku er 60 ECTS, átta mánaða nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku.

Umsóknarfrestur til 15. júní 2021

Spyrjast fyrir um Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku AGC

 

Fótaaðgerðafræðinámið er hið eina sinna tegundar á Íslandi. Bóklegur hluti námsins fer fram í fjarnámi en staðlotur eru haldnar í aðalbyggingu Keilis í Reykjanesbæ. Keilir bauð í fyrsta sinn upp á námið vorið 2017 en þá hófu tíu nemendur nám í faginu, hefur þeim farið ört fjölgandi allar göngur síðan. Námið mótar mikla atvinnumöguleika um allt land og hafa útskrifaðir nemendur bæði hafið störf á nústarfandi stofum og stofnað sínar eigin.

Umsóknarfrestur til 14. júní 2021

Spyrjast fyrir um nám í fótaaðgerðafræði

 

Flugakademía Íslands

Samtvinnað atvinnuflugnám er krefjandi og þarfnast mikils sjálfsaga og vinnu við að ná settu markmiði. Námið er sniðið að þörfum þeirra sem stefna beint að frama sem atvinnuflugmenn og fylgir nemandanum í gegnum ferlið allt frá fyrstu flugferð og að atvinnuflugmannskírteini.

Að loknu námi öðlast nemendur samevrópskt atvinnuflugmannsskírteini, ásamt öllum þeim réttindum sem til þarf, til að geta starfað sem atvinnuflugmaður hjá evrópskum flugrekanda. Skólinn heldur vel utan um nemandann út námstímann og eru allir áfangar og flug (bókleg og verkleg þjálfun) skipulögð fram í tímann.

Umsóknarfrestur til 30. ágúst 2021

Spyrjast fyrir um samtvinnað atvinnuflugnám

 

Áfangaskipt (modular) atvinnuflugnám er samsetning af tilskyldum og nauðsynlegum áföngum. Helsti kosturinn við áfangaskipta námsbraut er að það er meiri sveigjanleiki í námstíma og hentar því umsækjendum með fjölskyldur eða aðrar skuldbindingar sem þarf að sinna sem getur haft áhrif á nemandann.

Umsóknarfrestur til 30. ágúst 2021

Spyrjast fyrir um áfangaskipt atvinnuflugnám

 

Einkaflugnám er bæði skemmtilegt og krefjandi nám sem skiptist í bóklegt nám og verklegt nám.  Að loknu námi, öðlast þú samevrópsk einkaflugmannsréttindi ( Part-FCL flugskírteini), sem veitir þér réttindi til að fljúga á einshreyfils flugvél í sjónflugi með farþega án endurgjalds víða um heim.

Umsóknarfrestur til 30. ágúst 2021

Spyrjast fyrir um einkaflugnám

 

Flugkennaranám er góð leið til að öðlast frekari reynslu eftir að nemendur hafa lokið við atvinnuflugmannsnámið, og það veitir tækifæri til að bæta flugmannshæfileika sem eru eftirsóttir af flugrekendum, s.s. samvinnu tveggja flugmanna, greina hættur og grípa inn í þegar þess gerist þörf og leiðbeina öðrum flugmanni í réttan farveg.

Umsóknarfrestur til 3. maí 2021

Spyrjast fyrir um flugkennaranám

 

Menntaskólinn á Ásbrú

Stúdentsbraut í tölvuleikjagerð byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmið okkar er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.Innritun í framhaldsskóla er rafræn, þ.e. sótt er um skólavist á netinu. Nemendur þurfa nettengda tölvu og hægt er að fá aðstoð við innritun í grunnskólum og framhaldsskólum sé þess óskað.

Forinnritun 10. bekkinga fer fram 8. mars til 13. apríl

Lokainnritun 10. bekkinga fer fram 6. maí til 10. júní

Innritun eldri nemenda fer fram 5. apríl til 31. maí

Spyrjast fyrir um stúdentsbraut í tölvuleikjagerð

 

Vantar þig aðstoð?

Námsráðgjafar Keilis eru boðnir og búnir til þess að aðstoða tilvonandi nemendur við val á námi. Við hvetjum því þá sem eru óvissir um stöðu námsferils, hvort þeir uppfylli inntökuskilyrði eða hafa aðrar spurningar til að hafa samband og fá aðstoð.

Hafa samband við námsráðgjafa