Fara í efni

Útskrift Háskólabrúar Keilis á Akureyri

Frá útskrift Keilis á Akureyri sumarið 2013
Frá útskrift Keilis á Akureyri sumarið 2013
Fimmtudaginn 5. júní munu 19 nemendur útskrifast af Háskólabrú Keilis í staðnámi á Akureyri. Útskriftin fer fram kl. 17:00 í Samkomuhúsinu að Hafnarstræti 57 og eru allir velkomnir.
 
Boðið hefur verið upp á námið í samstarfi við SÍMEY á Akureyri undanfarin fjögur ár. Náminu hefur verið afar vel tekið af Norðlendingum og hafa nú um 70 einstaklingar lokið Háskólabrú í staðnámi á Akureyri.
 
Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Námið hefur gefið fjölda fólks nýtt tækifæri til náms og hafa flestir útskrifaðir nemendur hafið háskólanám að loknu náminu.
 
Á Háskólabrú er lögð megin áhersla á svokallað vendinám eða speglaða kennslu. Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu og geta nemendur horft á þær eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Nemendur vinna aftur á móti heimavinnuna í skólanum, oft í verkefnum, undir leiðsögn kennara. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.
 
ÍAK einkaþjálfaranám í staðlotum á Akureyri
 
Auk Háskólabrúar er einnig hægt að leggja stund á einkaþjálfaranám Keilis í staðlotum á Akureyri. Um er að ræða ítarlegasta einkaþjálfaranámið sem er í boði á Íslandi og hefur einkunarorðin fagmennska og þekking að leiðarljósi. Námið miðast við að skila nemendum tilbúnum til starfa við þjálfun og því er mikil áhersla lögð á að tengja fræðina við verklega kennslu og atvinnulífið. Síðast var boðið upp á einkaþjálfaranám Keilis á Akureyri veturinn 2012 - 2013, en vegna fjölda fyrirspurna hefur verið ákveðið að bjóða aftur upp á þennan möguleika.
 
Fjölbreytt nám í framsæknu skólaumhverfi
 
Keilir býður upp á háskólanám í tæknifræði á vegum Háskóla Íslands og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á vegum Thompson Rivers University. Tæknifræðinámið miðar að því að nýta þá tækniþekkingu sem er til staðar hverju sinni til þróunar á nýjum lausnum fyrir iðnað og atvinnulíf. Mikil áhersla er lögð á að byggja upp öfluga verkþekkingu samhliða fræðilegri grunnþekkingu með því að flétta saman bókleg fög og verkefnavinnu. Námið hefur hentað vel þeim sem koma úr tæknimiðuðu iðnnámi eða vélstjórnanámi og hafa aflað sér verkþekkingar á vinnumarkaði en einnig þeim sem hafa lokið hefðbundnu stúdentsprófi. 
 
Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku er átta mánaða nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku. 
 
Samstarf Flugakademíu Keilis við Flugskóla Akureyrar
 
Flugakademía Keilis og Flugskóli Akureyrar undirrituðu þann 7. maí sameiginlega viljayfirlýsingu um samstarf með það að markmiði að auka gæði og fjölbreytileika námsframboðs, sem og efla þjónustu við viðskiptavini skólanna. Meðal þess sem stefnt er að er aukið samstarf og samseiginleg kynning á námsframboði skólanna, sér í lagi sem snýr að möguleikum til atvinnuflugmannsnáms hjá Flugakademíu Keilis, samnýtingu og sameiginlega þróun á kennsluefni og þróun á nýju námsframboði.