Um leið og við bjóðum þig velkominn á Háskólabrú Keilis kæri nemandi þá er mikilvægt að fara yfir nokkur hagnýt atriði varðandi uppbyggingu, skipulag og þá þjónustu er skólinn veitir. Við vonum að handbók þessi auðveldi þér fyrstu skrefin í náminu og biðjum við þig að kynna þér innhaldið vel.
1 Staðnám
Staðnám Háskólabrúar hefst í ágúst ár hvert og er lotunám. Nám á Háskólabrú getur tekið allt frá ári upp í rúmlega tvö ár, það fer allt eftir því hvaða leið nemendur velja að fara. Hverri önn er skipt upp í þrjár lotur og flestir áfangar rúmast fyrir í einni lotu en þó eru nokkrir sem ná yfir eina og hálfa lotu eða tvær lotur.
1.1 Upphaf námsins
Við upphaf námsins er starfsemi Keilis kynnt. Mikilvægt er að mæta á þá kynningu þar sem farið er yfir kennslukerfi Keilis, skipulag Háskólabrúar og námsráðgjafar kynna starfsemi sína. Farið er í hópefli þar sem nemendum gefst einstakt tækifæri að kynnast sín á milli og hópurinn hristur saman fyrir áskorun vetrarins.
1.2 Kennsla á Háskólabrú
Kennsluhættir á Háskólabrú miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir.
Eins og alltaf þá bera nemendur sjálfir ábyrgð á námi sínu og ástundun. Mikilvægt að mæta í alla kennslutíma þar sem ekki er möguleiki á að endurtaka verkefni ef nemandi er fjarverandi. 70% mætingaskylda er í staðnám Háskólabrúar en 80% í símmatsáföngum. Nemendur verða að hafa fartölvu meðferðis í skólann alla virka daga.
1.3 Vendinám
Á Háskólabrú er vinnufyrirkomulagið í formi vendináms (flipped classroom). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft/hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.
Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nemendur hlusta/horfa á fyrirlestra heima en vinna heimavinnuna í skólanum. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.
1.4 Fyrirvari um breytingar
Vakin er athygli á því að allt skipulag sem birt er s.s. varðandi skipulag og annað er birt með fyrirvara um breytingar og deildarstjóri áskilur sér rétt til að breyta dagsetningum og öðru sem við kemur náminu.
1.5 Verkefnavinna
Margvísleg verkefni eru lögð fyrir í hverju fagi. Leitast er við að hafa fjölbreytni að leiðarljósi. Þannig vinna nemendur einstaklingsverkefni, paraverkefni, hópaverkefni, verkefni í tíma og heimaverkefni. Brýnt er að hafa í huga að það er ekki hægt að skila para- og hópverkefnum sem einstaklingur. Fjöldi verkefna á önninni er mismunandi eftir fögum.
Algengt er að verkefni séu unnin í hópavinnu. Þar sem vinna í hóp er samvinna þá þarf hver og einn nemandi að taka virkan þátt. Verkefni sem unnin eru í tíma og gilda til einkunna er ekki hægt að endurtaka ef nemandi mætir ekki í verkefnatímann.
1.6 Meðferð upplýsinga og heimilda
Mikilvægt er að nemendur fylgi fyrirmælum skólans og kennara við lausn verkefna. Óheimilt er með öllu að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Ritstuldur er ekki liðinn við skólann, ef nemendur verða uppvísir að slíku hvort sem um ræðir verkefni eða lokapróf er nemandi áminntur og prófið/verkefnið látið niður falla.
1.7 Hópar
Í hópavinnu hefur kennari umsjón með að skipta í hópa, þannig er séð fyrir að nemendur vinni með sem flestum yfir önnina. Nemendur eru hvattir til að nýta sér möguleika Microsoft Teams fyrir hópavinnu og halda utan um vinnu hópsins þar. Í hópavinnu þurfa nemendur að skipta jafnt á milli sín verkefnum og ríkja þarf sátt um verkaskiptinguna. Ef upp koma álitamál þá er mikilvægt að upplýsa kennara um stöðuna og gott væri að geta sýnt fram á samskipti og verkefnskiptingu hópsins á Teams.
1.8 Verkefnaskil
Skilafrestur á verkefnum kemur fram í kennsluáætlun kennara.
- Dagsetningar á verkefnaskilum koma skýrt fram í kennsluáætlun hvers áfanga og er það á ábyrgð nemandans að fylgjast með þeim. Nemendur eru hvattir til að nýta tímann vel og byrja vinna verkefni um leið og þau hafa verið birt.
- Mikilvægt er að virða skilafrest verkefna og ber nemendum að skila þeim áður en frestur er útrunninn. Kennarar hafa ekki heimild til að taka á móti verkefni sem að skilað er of seint eða veita undanþágur.
- Ef nemandi lendir í alvarlegum veikindum eða áfalli hefur hann möguleika á því að sækja um að skila verkefni seint með því að senda beiðni í tölvupósti til forstöðumanns Háskólabrúar. Í beiðni um sein skil þurfa að koma fram eftirfarandi atriði:
a) fullt nafn og kennitala nemenda
b) áfangaheiti, heiti kennara, heiti verkefnis sem um ræðir og vægisprósenta verkefnis og
c) ástæða þess að skilafrestur var ekki virtur. Óskað er eftir læknisvottorði ef um veikindi er að ræða.
Samþykki forstöðumaður undanþágu frá skilafresti mun hámarkseinkunn verkefnis aldrei verða umfram 5,0.
- Lokaeinkunn í áfanga samanstendur yfirleitt af verkefnaeinkunn og prófseinkunn. Gefin er verkefnaeinkunn sem er vegið meðaltal allra verkefna vetrarins. Sú verkefnaeinkunn gildir sem hluti af heildareinkunn áfangans á móti prófseinkunn. Til að standast áfanga verða nemendur að ná lágmarkseinkuninni 5,0 í verkefnaeinkunn og lágmarkseinkunn 4,75 fyrir lokapróf eða lokaverkefni.
1.9 Úrsögn úr námi
Skráning úr námi þarf að berast til skólans eigi síðar en 14 dögum eftir að nám hefst. Ef nemandi sinnir ekki náminu eða skráir sig ekki úr námi á tilskildum tíma skráist fall á alla áfanga á INNU sem nemandinn er skráður í þá önn.
2 Fjarnám
Hægt er að hefja nám í fjarnámi á Háskólabrú á haustönn og á vorönn. Boðið er upp á tvær leiðir í fjarnámi á Háskólabrú, fullt fjarnám og fjarnám með vinnu. Námið í fullu fjarnámi tekur tvær annir fyrir þá nemendur sem ætla sér að stunda nám á öllum deildum nema verk- og raunvísindadeild en þar tekur námið þrjár annir. Í fjarnámi með vinnu tekur námið fjórar annir á öllum deildum.
Námsgreinarnar eru kenndar í námslotum í fjarnámi og þeim lýkur með lokaverkefni eða prófi. Þess á milli eru nemendur í sambandi við kennara og samnemendur í gegnum kennslukerfið Canvas og Teams. Kennurum er uppálagt að svara fyrirspurnum nemenda innan sólarhrings. Námsfyrirkomulagið í fullu fjarnámi er með þeim hætti að nemendur eru í tveimur til þremur áföngum í hverri námslotu en í fjarnámi með vinnu er nemendur í einum til tveimur áföngum í hverri námslotu. Nemendur mæta í tvær vinnulotur í hverjum áfanga, önnur vinnulotan í áfanga er heill dagur en hin er hálfur dagur. Vinnulotur áfanga eru við upphaf og miðju hverrar námslotu og eru þær á föstudegi, laugardegi eða sunnudegi.
2.1 Vinnulotur
Í upphafi hverrar námsgreinar mæta nemendur í vinnulotu sem stendur venjulega yfir frá föstudegi eða laugardegi frá kl. 9:00 til 16:00 en í einstaka tilfellum er vinnulota á sunnudegi. Þegar hver áfangi er u.þ.b. hálfnaður þá er önnur vinnulota sem er hálfur dagur fyrir hvert fag þá annað hvort frá 9:00 til 12:00 eða 13:00 til 16:00.
Æskilegt er að nemendur mæti í vinnulotur. Auk þess er afar mikilvægt að nemendur skrái hvort þeir ætli sér að mæta á staðinn eða vera á fjarfundi í vinnulotur. Nemendur sem eiga ekki heimangegnt eiga þess kost að fylgjast með í fjarfundi. Í fyrstu vinnulotu er kynning á skólanum, náminu og námsumhverfinu ásamt hópefli sem hefur reynst mikilvægt í upphafi náms.
Í vinnulotum vinna nemendur raunhæf verkefni saman og kennari er til aðstoðar. Athugið að verkefni sem unnin eru í vinnulotum skal skilað fyrir lok vinnuhelgar, nánari upplýsingar hjá kennurum. Hafið í huga að einungis þeir sem taka þátt í vinnuhelgi hafa rétt á að skila verkefnum vinnuhelgarinnar.
Nemendur vinna bæði einstaklingsverkefni, paraverkefni og hópverkefni. Í hóp- og paraverkefnum þjálfast nemendur í samvinnu og nýta sameiginlega reynslu sína í lausn að verkefnum. Kröfur eru gerðar til nemenda hvað varðar vönduð vinnubrögð og sjálfstæði í lausn á verkefnum. Þá verða nemendur þjálfaðir í framsögn, skriflegum og munnlegum skilum á verkefnum á vinnulotum (staðlotum).
2.2 Kennsla á Háskólabrú
Háskólabrúin er þróuð í samstarfi við Háskóla Íslands. Kennsluhættir á Háskólabrú miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Eins og alltaf þá bera nemendur sjálfir ábyrgð á námi sínu og ástundun. Mikilvægt að mæta á allar vinnuhelgar. Nemendur verða að hafa fartölvu meðferðis í skólann.
2.3 Vendinám
Á Háskólabrú er vinnufyrirkomulagið í formi vendináms (flipped classroom). Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Nemendur geta horft/hlustað á innlögn kennara eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni.
Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið öðruvísi. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nemendur hlusta/horfa á fyrirlestra heima en vinna heimavinnuna í skólanum. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.
2.4 Fyrirvari um breytingar
Vakin er athygli á því að skipulag námsins er birt með fyrirvara um breytingar og deildarstjóri áskilur sér rétt til að breyta skipulagi ef þurfa þykir. Nemendur eru upplýstir um allar breytingar með fyrirvara.
2.5 Hópar
Í hópavinnu hefur kennari umsjón með að skipta í hópa, þannig er séð fyrir að nemendur vinni með sem flestum yfir önnina.
2.6 Stoðtímar í stærðfræði
Keilir býður fjarnemendum sínum upp á stoðtíma í stærðfræði. Þessir tímar eru reglulega með kennara. Þeir sem ekki hafa tök á að mæta geta nálgast upptökur stoðtíma á Canvas.
2.7 Verkefnavinna
Margvísleg verkefni eru lögð fyrir í hverjum áfanga. Leitast er við að hafa fjölbreytni að leiðarljósi. Þannig vinna nemendur einstaklings-, para- eða hópverkefni. Brýnt er að hafa í huga að það er ekki hægt að skila para- og hópverkefnum sem einstaklingur. Hópavinna gengur út á að nemendur vinna saman og eiga í samskiptum varðandi verkefni. Ef samstarfsvandamál koma upp skulu nemendur hafa samband við kennara.
2.8 Meðferð upplýsinga og heimilda
Mikilvægt er að nemendur fylgi fyrirmælum skólans og kennara við lausn verkefna. Óheimilt er með öllu að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum, verkefnum og prófum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Ritstuldur er ekki liðinn við skólann, ef nemendur verða uppvísir að slíku hvort sem um ræðir verkefni eða lokapróf er nemandi áminntur og prófið/verkefnið látið niður falla.
2.9 Verkefnaskil
Skilafrestur á verkefnum kemur fram í kennsluáætlun kennara.
- Dagsetningar á verkefnaskilum koma skýrt fram í kennsluáætlun hvers áfanga og er það á ábyrgð nemandans að fylgjast með þeim. Nemendur eru hvattir til að nýta tímann vel og byrja vinna verkefni um leið og þau hafa verið birt.
- Mikilvægt er að virða skilafrest verkefna og ber nemendum að skila þeim áður en frestur er útrunninn. Kennarar hafa ekki heimild til að taka á móti verkefni sem að skilað er of seint eða veita undanþágur.
- Ef nemandi lendir í alvarlegum veikindum eða áfalli hefur hann möguleika á því að sækja um að skila verkefni seint með því að senda beiðni í tölvupósti til forstöðumanns Háskólabrúar. Í beiðni um sein skil þurfa að koma fram eftirfarandi atriði:
a) fullt nafn og kennitala nemenda
b) áfangaheiti, heiti kennara, heiti verkefnis sem um ræðir og vægisprósenta verkefnis og
c) ástæða þess að skilafrestur var ekki virtur. Óskað er eftir læknisvottorði ef um veikindi er að ræða.
Samþykki forstöðumaður undanþágu frá skilafresti mun hámarkseinkunn verkefnis aldrei verða umfram 5,0.
- Lokaeinkunn í áfanga samanstendur yfirleitt af verkefnaeinkunn og prófseinkunn. Gefin er verkefnaeinkunn sem er vegið meðaltal allra verkefna vetrarins. Sú verkefnaeinkunn gildir sem hluti af heildareinkunn áfangans á móti prófseinkunn. Til að standast áfanga verða nemendur að ná lágmarkseinkuninni 5,0 í verkefnaeinkunn og lágmarkseinkunn 4,75 fyrir lokapróf eða lokaverkefni.
2.10 Úrsögn úr námi
Skráning úr námi þarf að berast til skólans eigi síðar en 14 dögum eftir að nám hefst. Ef nemandi sinnir ekki náminu eða skráir sig ekki úr námi á tilskildum tíma skráist fall á alla áfanga á INNU sem nemandinn er skráður í þá önn.
3 Canvas
Öll námsgögn er að finna í kennslu- og samskiptaforritinu Canvas. Mikilvægt er að nemendur fari reglulega inn á Canvas til að fylgjast með hverjum áfanga fyrir sig. Algengt er að próf á Háskólabrú séu tekin á tölvum í Canvas kennslukerfinu. Brýnt er að nemendur fylgist með tölvupósti daglega, allar upplýsingar frá skólanum og milli nemenda eru sendar í tölvupósti.
Á fyrstu vinnuhelgi fjarnáms og í fyrstu kennslustund í staðnámi er farið ítarlega yfir virkni Canvas.
4 Tölvusamskipti
Eins og fram hefur komið þá er mikil áhersla á tölvunotkun hjá Keili þar sem námsgögn og samskipti fara fram í gegnum tölvur. Allir starfsmenn og nemendur Keilis eru beðnir um að hafa í huga að um tölvusamskipti gilda almennar reglur um kurteisi.
5 Námsgjöld
Nám á Háskólabrú er sett upp samkvæmt reglum Menntasjóðs námsmanna sem lánar sérstaklega fyrir námsgjöldum. Námið veitir einnig þeim sem uppfylla skilyrði MSN um rétt til framfærsluláns. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu MSN. Upplýsingar um námsgjöld á Háskólabrú Keilis.
Ef nemandi nær ekki lágmarkseinkunn í áfanga getur hann endurtekið hann og greiðir þá fullt verð samkvæmt gjaldskrá. Athugið að nemandi getur ekki setið einstaka áfanga oftar en þrisvar sinnum.
6 Lokanámsmat
Lokanámsmat á Háskólabrú er fjölbreytt en um getur verið að ræða lokapróf (skriflegt, munnlegt eða verklegt) eða lokaverkefni sem er útfært á ýmsa vegu. Lokapróf og lokaverkefni gilda frá 20-50 % af heildareinkunn. Lokaeinkunn hvers áfanga samanstendur af verkefnaeinkunn og lokanámsmati og birtist niðurstaða í nemendaumsjónarkerfinu INNU.
Fyrirkomulag um lokanámsmat skal liggja fyrir í upphafi annar í námsskeiðslýsingu. Lokanámsmat í áfanga eru ýmist lokapróf með gögnum, án gagna, sambland af hvoru tveggja, heimpróf, ritunarverkefni, hlaðvarp, myndband o.sfrv. Þá eru einnig þó nokkrir áfangar símatsáfangar þar sem lagt er mat á vinnu nemenda alla önnina. Lokapróf eru venjulegast þriggja tíma skrifleg próf og er það kennari sem tekur ákvörðun um tímalengd prófa hverju sinni. Í gagnaprófum reynir á skilning og heildaryfirsýn. Þannig þjálfa nemendur sjálfstæð vinnubrögð sem nýtast í háskólasamfélaginu og atvinnulífinu.
Oft eru munnleg próf haldin í tungumálakennslu eða öðrum áföngum. Kennari skal í kennsluáætlun tilgreina hvernig fyrirkomulag munnlega prófsins skuli háttað. Prófsýning er auglýst sérstaklega fyrir hvern áfanga.
7 Skólareglur
7.1. Almennar reglur
- Sýna ber háttvísi og prúðmennsku í skólanum og alls staðar þar sem komið er fram í nafni hans, hvort sem er í húsnæði, rafrænum kennslustofum eða á samfélagsmiðlum.
- Kennari stýrir fyrirkomulagi kennslustundar og nemendur skulu kynna sér verklag hans og fylgja því. Þetta gildir einnig um notkun farsíma og hvers kyns tækjabúnaðar.
- Öll meðferð og neysla tóbaks og vímuvaldandi efna er bönnuð í húsnæði, á lóð skólans og á vettvangi skólastarfsins. Sama gildir um notkun á rafrettum.
- Nemendum ber að ganga vel um kennslustofur, tækjabúnað og húsmuni. Neysla matar og drykkjar skal aðeins neyta í matsal. Allt rusl skal flokkað og sett í viðeigandi ílát.
- Myndatökur og/eða upptökur af nemendum, kennurum og öðru starfsfólki innan skólans eru óheimilar án leyfis viðkomandi aðila.
- Nemendur skulu fylgjast reglulega með tilkynningum í tölvupósti, á kennslukerfum, á heimasíðu skólans og auglýsingaskjám.
7.2. Reglur um skólasókn Háskólabrú
Staðnám
- Skólasókn skal vera 70% hið minnsta og 80% í símatsáföngum.
- 100% mætingarskylda er í alla verklega tíma.
- Mikilvægt er að nemendur mæti stundvíslega í allar kennslustundir og gæti að því að trufla ekki vinnufrið.
Fjarnám
- Mikilvægt er að nemendur mæti stundvíslega á allar vinnulotur í fjarnámi hvort sem er á staðnum eða í fjarfundi.
- Einungis nemendur sem eru virkir á vinnulotu, hvort sem er á staðnum eða í fjarfundi, hafa rétt á því að skila verkefnum sem lögð eru fyrir á þeim tíma.
7.3. Reglur um nám og námsmat
Reglur um verkefnavinnu
- Gerð er krafa um að öll verkefni nemenda sé eigið hugverk. Í því felst að nemandinn vinni verkefnið sjálfur frá grunni.
- Við setjum ekki fram verk annarra sem okkar eigin.
- Þegar við nýtum okkur verk annarra við heimildarvinnu þá getum við ávallt heimilda.
- Við skilum ekki verkefnavinnu úr einu námskeiði sem við höfum áður skilað í öðru námskeiði – án heimildar kennara í báðum námskeiðum.
- Við vinnum ekki verkefni saman ef um einstaklingsverkefni er að ræða, þá gerum við ráð fyrir að samvinna sé óheimil.
Reglur um hópavinnu
- Við sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum og komum fram við hvert annað af tillitssemi. Hvort sem um er að ræða rafræn samskipti eða hefðbundin samskipti.
- Við tryggjum að upplýsingar um verkefnið berist til allra meðlima í hópnum þegar unnið er að sameiginlegum verkefnum.
- Framlag allra í hópnum er mikilvægt og gæta þarf að verkaskipting sé jöfn og sanngjörn.
- Allur hópurinn er ábyrgur fyrir heildarverkinu og að unnið sé eftir þeim vinnubrögðum sem til er ætlast.
- Mikilvægt er að skila aðeins verkefni eftir staðfestingu á samþykki allra meðlima hópsins.
7.4. Siðarreglur
- Siðareglur Keilis má finna undir skólanámskrá.
7.5. Viðurlög við brot á skóla- og siðareglum
Brot á reglum skólans kalla á að viðurlögum verði beitt og getur leitt til brottvísunar úr skóla.
- Fyrsta brot: Forstöðumaður / deildarstjóri ræðir við nemandann og veitir honum munnlega eða skrifega viðvörun.*
- Annað brot: Forstöðumaður / deildarstjóri veitir nemanda skriflega áminningu.*
- Þriðja brot: Við þriðja brot skýtur forstöðumaður / deildarstjóri málinu til kennslunefndar sem víkur nemandanum úr skóla. Kennslunefnd afhendir nemanda skriflega brottvísun.*
*Nánari upplýsingar á finna í skólanámskrá Keilis.
8 Lokapróf
Ef formlegt lokapróf er í áfanganum eru þau tekin í húsnæði Keilis í lok námslotu samkvæmt dagskrá skólaárs og kennsluáætlunar. Ef nemendur eru búsettir utan höfuðborgarsvæðis eða Reykjaness geta þeir sótt um að þreyta prófið á öðrum viðurkenndum prófstað í samráði við verkefnastjóra Háskólabrúar. Mikilvægt er að sú beiðni komi tímanlega eða í síðasta lagi 2 vikum fyrir áætlaðan prófdag. Athugið að nemendur sem óska eftir að taka próf á öðrum viðkurkenndum prófstað standa undir þeim kostnaði sjálfir.
8.1 Gagnapróf og gagnalaus próf
Próf eru ýmist gagnalaus eða með gögnum. Þegar um gagnapróf er að ræða þá mega nemendur t.d. hafa með sér skrifaðar glósur. Kennari ákveður magnið og einnig hvort hann leyfi kennslubókina eða önnur gögn. Þá ákveður kennari framkvæmd prófa og er heimilt að leggja fyrir nemendur próf án gagna.
8.2 Krossapróf í fjarnámi
Kennari getur lagt fyrir krossapróf hvenær sem er á meðan áfanginn varir. Krossaprófin eru þá tekin á kennsluvef skólans á þeim stað sem nemandinn er staddur hverju sinni. Krossapróf eru alltaf einstaklingsverkefni.
8.3 Munnleg próf
Nánar er tilgreint um fyrirkomulag munnlegra prófa í námskeiðslýsingu.
8.4 Sjúkrapróf
Ef nemandi kemst ekki í próf vegna veikinda þarf hann að skila vottorði með því að skrá sig í sjúkrapróf, í síðasta lagi tveimur virkum dögum fyrir settan prófdag, á heimsíðu skólans og hafa vottorðið í viðhengi. Athugið að nemandi sem mætir í sjúkrapróf á ekki kost á upptökuprófi ef hann nær ekki sjúkraprófinu.
8.5 Upptökupróf
Nemandi sem ekki nær lágmarkseinkunninni 5 á lokaprófi hefur rétt á að taka upptökupróf og greiðir fyrir það samkvæmt gjaldskrá Keilis. Rauneinkunn á upptökuprófi gildir í reiknaða lokaeinkunn. Tímasetning upptökuprófa er auglýst sérstaklega og þarf nemandinn að skrá sig í prófið tveimur virkum dögum fyrir prófdag. Ef nemandi nær ekki upptökuprófi gefst honum kostur á að sitja áfangann aftur þegar hann verður næst kenndur við Keili.
Nemandi sem á einungis eitt fag eftir til að útskrifast af Háskólabrú vegna falls á sjúkra- eða upptökuprófi, getur sótt um að taka svokallað þriðja próf í því fagi og greiðir fyrir samkvæmt gjaldskrá. Gildir þetta um þá áfanga sem hafa hefðbundin próf sem lokanámsmat. Þeir sem hafa ekki gert upp skólagjöld sín fá ekki afhentar einkunnir fyrr en greiðsla hefur borist.
8.6 Prófsýning
Prófsýning er haldin í lok hvers prófatímabils, þar sem nemendur eiga kost á að skoða úrlausn sína með kennara.
8.7 Einkunnaskali
- 10,0 fyrir frábæra úrlausn sem sýnir skapandi, gagnrýna hugsun og innsæi. Einkunn sem einungis er gefin fyrir úrlausn sem skarar fram úr öðrum.
- 9,0 - 9,5 fyrir mjög góða úrlausn sem sýnir sérstakan skilning og færni.
- 8,0 - 8,5 fyrir ágæta úrlausn, sem sýnir góða þekkingu á efnisatriðum og skilning.
- 7,0 - 7,5 fyrir úrlausn sem sýnir greinargóða þekkingu á grundvallaratriðum.
- 5,5 - 6,5 fyrir úrlausn sem sýnir sæmilega þekkingu á grundvallaratriðum.
- 5,0 fyrir úrlausn sem uppfyllir skilyrði um lágmarksþekkingu á grundvallaratriðum eða ef um úrbót á fyrri úrlausn er að ræða.
- 0 - 4,5 fyrir óviðunandi úrlausn, þ.m.t. úrlausn þar sem slíkur misskilningur eða vanþekking á grundvallaratriði kemur fram að þyki óviðundandi án tillits til vægis þess þáttar sem ábótavant er innan úrlausnar.
- M fyrir metið.
- S fyrir staðið án prófs.
8.8 Einkunnaskil
Kennarar hafa 10 virka daga til að skila einkunnum úr lokaprófi.
8.9. Prófareglur
Prófareglur
- Prófstofu er lokað um leið og uppgefinn próftími hefst. Nemendur skulu vera mættir í prófstofu a.m.k. 5 mínútum áður.
- Óheimilt er með öllu að hafa samband við aðra nemendur eða óviðkomandi aðila á próftíma og skal nemandi hafa slökkt á öllum samskiptatækjum á meðan á prófi stendur.
- Slökkt skal vera á GSM símum og þeim skal skilað á tiltekinn stað ásamt yfirhöfnum og töskum.
- Nemendur skulu hafa með sér gild skilríki með mynd og hafa þau aðgengileg fyrir prófyfirsetufólk á meðan á prófi stendur.
- Óheimilt er að yfirgefa prófstofu fyrstu klukkustundina í prófum sem eru lengri en 2 klst.
- Óheimilt er með öllu að yfirgefa prófstofu (á líka við um salernisferðir) og koma inn aftur í prófum sem eru tvær klukkustundir eða styttri. Þurfi nemandi af einhverjum gildum ástæðum undanþágu frá þessari reglu skal hann vera í sambandi við námsráðgjafa a.m.k. 24 klst. fyrir próf.
- Nemandi skal skila öllum prófgögnum að prófi loknu, þar með talið rissblöðum, prófbókum og prófinu sjálfu.
- Ef nemandi lýkur prófi áður en próftíma lýkur skal hann rétta upp hönd og láta yfirsetu vita, skila úrlausn en skilja allt dót, þar með talið tölvur eftir á borði og fara hljóðlega út.
- Tóbaksneysla er ekki leyfileg á meðan á próftíma stendur og passa skal upp á að neysla matvæla valdi ekki truflun í prófstofu t.d. vegna lyktar, ofnæmis, hávaða o.fl.
- Nemandi skal merkja prófblöð vel með nafni, kennitölu og dagsetningu.
- Öllum frágangi á prófúrlausn skal vera lokið innan próftímans.
Próf tekin á tölvu
- Ef próf er tekið á tölvu þarf nemandi að vista prófið í tölvuna sína undir eigin nafni, með því að fara í save target as og vista það í ákveðna möppu.
- Skila skal tölvuprófum á skilahólf í Canvas og einnig skal senda afrit á prof@keilir.net. Lendi nemandi í vandræðum með að skila prófi skal hann láta yfirsetu vita þannig að hægt sé að kalla til starfsmann tölvudeildar til að leysa úr vandanum.
- Nemandi skal ávallt koma við hjá tölvuþjónustunni og staðfesta skil á prófi sínu áður en hann yfirgefur próftökustað.
Próf tekið á pappír
- Á prófborði eiga einungis að vera prófgögn, skilríki og leyfileg hjálpargögn samkvæmt fyrirmælum hverju sinni. Pennaveski skal geyma undir prófborði.
- Hafi nemandi af misgáningi tekið með sér óleyfileg gögn ber honum strax að afhenda þau prófyfirsetufólki.
Brot á prófreglum getur varðað vísun frá prófi eða úr námskeiði eftir atvikum, svo og viðurlög, skv. gildandi lögum og reglum Keilis.
9 Próftökuréttur Háskólabrú
Nemendur skulu hafa náð 5 í veginni meðaleinkunn verkefna og hafa virt mætingaskyldu til þess að öðlast próftökurétt í þeim áföngum sem er ekki símat. Ef nemandi nær ekki tilskyldri lágmarkseinkunn eða mætingu þá telst hann fallinn á verkefnaeinkunn og telst því fallinn í áfanganum. Nemandi á kost á því að sitja áfangann aftur hjá Keili hvort heldur sem er í staðnámi eða fjarnámi.
Lágmarksmæting er 70% í hvern áfanga en 80% í heild. Ef mæting fer undir það missa nemendur próftökurétt. Þá er 80% mæting í símatsáfanga. Ef um langtímaveikindi er að ræða er nemendum bent á að tala við námsráðgjafa, en í þeim tilfellum má mæting aldrei fara undir 60%. Í alla verklega tíma í raungreinum er 100% mætingaskylda. Vottorð geta einungis gilt fyrir einn verklegan tíma í áfanga, nemendur skulu í slíkum tilfellum hafa samband við kennara.
Ef lokanámsmat áfanga byggir á lokaprófi þá samanstendur lokaeinkunn af prófseinkunn og verkefnaeinkunn. Nemendur þurfa að ná að lágmarki 5 úr hvorum hluta fyrir sig til þess að standast áfangann.
Ef lokanámsmat áfanga byggir á símati þá þurfa nemendur að ná að lágmarki 5 í verkefnaeinkunn til þess að standast áfangann.
10 Starfsfólk