Fara í efni

Algengar spurningar

Hér að neðan finnur þú samantekt af spurningum um nám á Háskólabrú. Smelltu á þá spurningu sem þú vilt fá svar við hér fyrir neðan. Ef þú ert með frekari spurningar, vinsamlegast hafðu samband.

Hvernig fæ ég afrit af prófskírteini til að skila með umsókn?

Hægt er að haka við í umsóknarferlinu að við fáum að sjá námsferilinn sem er skráður í gagnagrunninn frá framhaldsskólum þá er óþarft að vera taka afrit af island.is. Einnig er hægt að fá afrit úr þeim skóla sem þú stundaðir nám og látið það fylgja með í viðhengi en það þarf þá að vera stimplað og undirritað af skóla. Afrit af öðrum prófskírteinum sem eru ekki í formlega framhaldsskólakerfinu og INNU þarf að fylgja með í viðhengi.

Frekari upplýsingar um umsóknarferlið

Er hægt að fá fyrra nám metið?

Ef umsækjendur uppfylla inntökuviðmið og hafi jafnframt umframeiningar þá geta nemendur sótt um mat á fyrra námi í stað eininga innan námsleiðar Háskólabrúar. 

Spyrjast fyrir um frekara mat á fyrra námi

Er starfsreynsla metin?

Umsækjendur eiga möguleika á að fá starfsreynslu sína metna til eininga að hluta upp í þær lágmarkseiningar sem krafist er.

Spyrjast fyrir um mat á starfsreynslu

Hvaða háskóla get ég farið í eftir að hafa útskrifast af Háskólabrú?

Lokapróf úr frumgreinanámi Háskólabrúar telst sambærilegt stúdentsprófi og nægir til inntöku í allar deildir Háskóla Íslands.  Það sama á við um fjölmarga skóla bæði hérlendis og erlendis en er bundið inntökuskilyrðum hvers skóla fyrir sig. 

Get ég farið í háskóla erlendis eftir að hafa útskrifast af Háskólabrú?

Á hverju ári aðstoðum við nemendur við að sækja um nám víðsvegar um Evrópu. Flestir sem hafa hlotið aðstoð okkar við að sækja um nám erlendis hafa komist í námið sem þeir stefna á ef ekki eru stífar fjöldatakmarkanir eða önnur inntökuviðmið.  

Fá aðstoð við að sækja um í erlendum háskóla

Er námsleiðin lánshæf hjá Menntasjóði námsmanna?

Nám á Háskólabrú er lánshæft samkvæmt reglum Menntasjóðs námsmanna (áður LÍN) svo fremi sem nemendur séu í fullu námi og uppfylli skilyrði lánasjóðsins um úthlutun. Einnig er hægt að stunda námið á hálfum hraða en þá er það ekki lánshæft.

Frekari upplýsingar um námslán hjá Menntasjóði námsmanna

Hentar námið með vinnu?

Háskólabrú með vinnu er hönnuð fyrir þá sem vilja fara í Háskólabrú þrátt fyrir að vera í fastri vinnu. Þótt unnið sé á hálfum hraða má gera ráð fyrir álagi fyrir nemendur sem eru í fullri vinnu. Þeir þurfa að geta tekið próf, sem fara fram að morgni á virkum degi, og tekið þátt í vinnulotum sem eru yfirleitt á föstudögum, laugardögum eða sunnudögum. Námið fer þó fram á hálfum hraða og hentar þessi valkostur því mörgum.

Skoða Háskólabrú með vinnu

Þarf ég að mæta?

Nemendur þurfa að vera lausir þá daga sem eru lokapróf og vinnulotur. Hægt er að sækja um að þreyta lokaprófin á viðurkenndum prófastöðum utan höfuðborgarsvæðis hér á landi og einnig víða um heim og þá er hægt að taka þátt í vinnulotum í gegnum samskiptaforrit en nemendur eru alltaf hvattir til að mæta í húsnæði Keilis ef þeir hafa kost á því. 

Spyrjast fyrir um mætingarskyldu

Hversu langt er námið?

Lengd námsins fer eftir því hvaða deild er valin. Námið nær yfir tvær annir fyrir þá nemendur sem ætla sér að stunda nám i félagsvísindum, hugvísindum eða viðskiptum og hagfræði en þrjár annir fyrir þá nemendur sem ætla sér að stunda nám í verk-og raunvísindum. Háskólabrú með vinnu tekur tvö ár. 

Skoða námsframboð

Hvernig tölvu og hugbúnað þarf ég?

Fartölvur eru notaðar í námi á Háskólabrú. Nemendur fá nýjasta Office pakkann við komuna í skólann, vert er að benda á að í upplýsingatækni er kennt á Office umhverfið í PC tölvum og því eru þær tölvur hentugri til námsins þó svo bæði gangi að nota PC og Apple tölvur. Þeir sem nota Apple tölvur þurfa að gera ráð fyrir því að verkefni geti verið tímafrekari í vinnslu en með PC. Keilir starfrækir upplýsingamiðstöð, námsráðgjöf og tölvuþjónustu. Mikil áhersla er lögð persónulega þjónustu og kennsluhætti sem miða við þarfir fullorðinna nemenda.

Spyrjast fyrir um tölvubúnað eða fá tækniaðstoð

Ég er með lesblindu, fæ ég aðstoð?

Keilir býður nemendum með fatlanir og sértæka námsörðugleika velkomna til náms. Skólinn leggur áherslu á að veita nemendum sérstaka þjónustu til að ná árangri í námi þrátt fyrir hömlun sína. Helstu úrræði sem i boði eru:

  • Stuðningsviðtöl við námsráðgjafa
  • Lengdur próftími - Breytt letur / stækkað letur / litaður pappír
  • Aðstoð við að útvega talgervil
  • Próftaka á tölvu
  • Meira næði, minni stofa fyrir nemendur með lengri próftíma
  • Glósuvinur

Fjarnám getur verið mjög góð námsleið fyrir lesblinda. Lesblindir búa oft yfir miklu sjón og heyrnar minni. Fyrirlestrana geta nemendur hlustað á eins oft og þeir vilja en það hentar lesblindum yfirleitt mjög vel.

Lesblindir nemendur Keilis fá aðstoð við að útvega sér talgervil frá Blindrafélaginu, en það er forrit sem les upp allan rafrænan texta. Forritið getur ýtt undir sjálfstæðari vinnubrögð nemenda sem ná ekki sjálfvirkum, fyrirhafnarlausum lestri og góðum leshraða. Nemendur geta stillt hraða upplestursins sjálfir og valið milli tveggja mismunandi radda.

Ræða við námsráðgjafa um úrræði og aðstoð

 

Algengar spurningar um fjarnám

Hvernig virkar fjarkennslubúnaðurinn?

Allar vinnulotur eru í boði í fjarfundi á Teams. Nemendur fá aðgang að Office pakkanum í náminu og hlaða þar inn Teams forriti sem er notað fyrir fjarfundi og samskipti við kennara og aðra nemendur. Þá eru kennslumyndbönd aðgengileg á nemendavef fyrir hvert fag. Þú getur séð dæmi um kennslumyndband hér.

Hvað er vinnulota?

Vinnulota er yfirleitt í upphafi hvers áfanga eða hverrar lotu og einnig fyrir miðjum áfanga. Hefðbundin vinnulota er þannig að þú mætir til okkar föstudag og/eða laugardag kl.9.00- 16.00 eða hálfan dag annað hvort fyrir eða eftir hádegi. Það er misjafnt hvort það eru einn eða tveir dagar í áföngunum. Við leggjum mjög mikla áherslu á að nemendur taki virkan þátt í vinnulotum og erum með lausnir fyrir þá sem búa fjarri skólanum.

Hvernig er stærðfræði kennd í fjarnámi?

Margir óttast að það sé erfitt að læra stærðfræði í fjarnámi. Reyndin er hinsvegar sú að með því að nýta tæknina er stærðfræðikennsla Háskólabrúar í fjarnámi mjög einstaklingsmiðuð og gagnvirk. Nemandinn getur horft á fyrirlestrana og séð kennarann leysa dæmin eins oft og hann vill. Fjarnám er eins og fyrr segir mjög einstaklingsmiðað þar sem nemendur geta sent fyrirspurnir inn á kennslukerfið sem kennarinn svarar fljótt. Svör kennarans safnast saman og allir aðrir nemendur geta nýtt sér svörin þá eru einnig í boði vikulegir stoðtímar í fjarfundi. 

Hvernig virkar hópastarf í fjarnámi?

Í upphafi skólaárs er staðlota þar sem lögð er áhersla á að hjálpa nemendum að kynnast skólafélögum sínum. Nemendur eru einnig aðstoðaðir við að setja upp samskiptatæki hjá sér til þess að auðvelda hópastarf.

Þarf ég að vera klár á tölvur til þess að stunda fjarnám?

Til þess að stunda fjarnám er krafist grunnþekkingar á tölvur, nemandinn þarf m.a.:

  • Að kunna að senda tölvupóst
  • Geta vafrað um á netinu
  • Þekkja grunnatriði Office umhverfisins (word, excel)

Fyrsta lotan í fjarnámi Háskólabrúar er tölvunámskeið, þar læra nemendur heilmikið sem mun nýtast þeim í náminu. Farið er í word og excel, sem eru mikið notuð í fjarnáminu, ásamt því að farið verður yfir kennslukerfið Moodle. Mikilvægt er að nemandinn sé búinn að kynna sér tölvuumhverfið og að hann hafi öðlast sjálfstraust til að starfa sjálfstætt. Nemendur í fjarnámi eru mjög fljótir að tileinka sér þessi nýju vinnubrögð.

Kynnist maður einhverjum í þessu námi?

Á vinnulotum hittast nemendur og vinna að hinum ýmsu verkefnum. Kennarar skipa í mismunandi hópa og þá er kjörið tækifæri til að kynnast því fólki sem er með þér í náminu.

Hitti ég einhverntíman kennarana mína?

Í hverjum áfanga er einn til tveir vinnudagar, oftast við upphaf áfangans og fyrir miðjum áfanga. Vinnudagarnir eru yfirleitt á föstudögum og/eða laugardögum kl. 9-16 eða hálfan dag frá kl.9-12 eða kl.13-16. Þó gæti vinnulota hitt á sunndaga í einhverjum tilfellum. Vinnuloturnar eru afar mikilvægur tími sem nemendur eiga með sínum kennara og því er mjög mikilvægt að taka þátt. 

Fæ ég hjálp ef ég skil ekki neitt?

Nemendur í fjarnámi hafa greiðan aðgang að kennara sínum í gegnum tölvupóst og tölvukerfi skólans. Þú getur einnig alltaf haft samband við verkefnastjóra fjarnáms sem finnur lausnina með þér. Námsráðgjafi Keilis er auk þess til taks fyrir nemendur.

Mig skortir sjálfsaga - er þetta nám fyrir mig?

Það þurfa allir að búa yfir sjálfsaga til að stunda nám. Hins vegar gerum við þér auðveldara fyrir með því að láta þig skila verkefnum reglulega í hverri lotu. Við fylgjumst líka með því hverjir eru „að mæta“ á fyrirlestra og hverjir skoða námsefnið á kennsluvefnum. Námsráðgjafar eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða nemendur við að skapa þá ramma sem þarf til að geta stundað námið.

Hvar læri ég?

Þú getur lært hvar sem er – hvenær sem er. Allir fyrirlestrar eru settir inn á Moodle sem er það kennslukerfi sem skólinn nýtir sér. Þú getur einnig hlustað eins oft og þú vilt á einstaka fyrirlestur eða bara hluta af honum. Þú þarft ekki neinn sérstakan tæknibúnað til að vera fjarnemandi á Háskólabrú Keilis þótt þú þurfir fartölvu og nettengingu.  Það eina sem þarf er viljinn til að læra og tími til að stunda þann lærdóm. Við hjálpum nemendum að mynda námshópa út um allt land. Þú getur einnig fengið aðstöðu hjá Keili eða í Símenntunarmiðstöðinni á þínu svæði.

Get ég stundað fjarnám ef ég bý erlendis?

Þú getur lært hvar sem er – hvenær sem er og útlönd eru þar engin undantekning. Það sem þarf er fartölva og nettenging og ef það er til staðar þá er þér ekkert að vanbúnaði.