Opnað hefur verið fyrir skráningu í fjarnám Háskólabrúar Keilis, bæði með og án vinnu, sem hefst í byrjun janúar 2022.
Mikill fjöldi nemenda á Háskólabrú
Aldrei hafa fleiri nemendur lagt stund á frumgreinanám í Keili en á núverandi skólaári og barst metfjöldi umsókna í námið á haustönn. Við hvetjum því áhugasama um að vera tímanlega í umsókn sinni um nám á vorönn.
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Samtals hafa rétt um tvö þúsund einstaklingar lokið náminu og hefur mikill meirihluti þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis við góðan orðstír.
Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.