Fara í efni

Háskólabrú á Suðurlandi

Fræðslunetið - símenntun á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands - Þekkingarnet á Suðurlandi bjóða upp á Háskólabrú Keilis í staðnámi í Fjölheimum á Selfossi.

Starfsemi Fræðslunetsins og Háskólafélags Suðurlands er í stöðugum vexti og með tilkomu nýs húsnæðis hafa opnast möguleikar á að þjóna Sunnlendingum með öflugri hætti en áður. Fjölheimar (gamli Barnaskólinn á Selfossi) er orðin miðstöð símenntunar á Suðurlandi þar sem fullorðnir geta lagt stund á fjölbreytilegt nám, bæði á framhalds- og háskólastigi. Næsta haust er áætlað að stíga enn eitt framfaraskref í þeim efnum þar sem áætlað er að bjóða upp á nám á Háskólabrú Keilis í staðnámi á Selfossi.

Umsókn í staðnám Háskólabrúar á Selfossi

Aðilar sem sækja um á Selfossi sækja um nám í Háskólabrú á Ásbrú en setja í athugasemdir að þeir vilji taka námið á Selfossi. Umsóknarfrestur er til 10. júní næstkomandi. Námið fer fram í í Fjölheimum á Selfossi. Upplýsingar um skráningu er að finna hér en auk þess er hægt að hafa samband við námsráðgjafa Keilis og Fræðslunetið.

Nýtt tækifæri til náms í Háskólabrú Keilis

Háskólabrú Keilis er eins árs nám sem miðar að því að undirbúa nemendur sem eiga ólokið stúdentsprófi undir kröfuhart háskólanám. Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í einstaklingsmiðaðri þjónustu og stuðningi við nemendur sem eru að hefja nám að nýju eftir hlé. Keilir er eini skólinn á Íslandi sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands sem þýðir að námið veitir útskrifuðum nemendum réttindi til þess að sækja um nám við HÍ sem og aðra háskóla á Íslandi, auk fjölda erlendra háskóla.

Kennsluaðferðir á Háskólabrú Keilis eru fjölbreyttar og hefur skólinn tileinkað sér speglaða kennslu þar sem áhersla er á virkni nemenda í kennslutímum. Námið hefur gefið fjölda fólks nýtt tækifæri til náms en alls hafa nærri 1.200 einstaklingar lokið námi á Háskólabrú Keilis og flestir þeirra tekist á við háskólanám í kjölfarið. Staðnám á Háskólabrú á Suðurlandi ræðst af lágmarksfjölda væntanlegra nemenda. Námið er lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Nánari upplýsingar um Háskólabrú Keilis má nálgast hérna