Fara í efni

Dúx Háskólabrúar: „Sjúkrahúsinnlagnir og aðgerðir hjalli á veginum fremur en ókleif björg“

Sóley Kristín Harðardóttir fékk erfiðara verkefni en margir í lífinu en með gríðarlegri þrautseigju og viljastyrk tókst henni að útskrifast með hæstu einkunn úr Háskólabrú núna í janúarmánuði. Hún hlaut 9,75 í meðaleinkunn sem er jafnframt næsthæsta einkunn í sögu Háskólabrúar og sú hæsta í sögunni af verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar sem verður að teljast glæsilegur árangur.

Samhliða skólagöngunni hefur Sóley þurft að kljást við gríðarlega krefjandi og erfið veikindi en hún greindist ung með sjaldgæfan sjúkdóm. „Ég hef þurft að fara í ýmsar aðgerðir hér á landi og í Bandaríkjunum í tengslum við veikindin. Stærsta aðgerðin var brisnámsaðgerð með sjálfsfrumuígræðslu (total pancreatectomy with autologus islet cell transplant) og var ég fyrsti Íslendingurinn til að fara í slíka aðgerð. Nokkrum vikum seinna lendi ég svo í annari stórri aðgerð, bráðaaðgerð í kjölfarið af brisnámsaðgerðinni, þar sem maganám var framkvæmt. Ég átti alls ekki von á því að missa magann líka nokkrum vikum seinna. Ég hef því neyðst til að dvelja í lengri tíma á sjúkrahúsum og stundum marga mánuði. Heilsa mín hefur þó verið betri síðustu tvö ár en ég glími enn við töluverðar eftirstöðvar veikindanna og á erfitt með að nærast eðlilega án hjálpar.“

Sóley, 31 árs Seltirningur sem býr nú í Reykjavík með kærasta sínum, átti upphaflega að byrja í námi við Háskólabrú Keilis vorið 2016 en í lok árs 2015 þurfti hún að gangast undir bráðaaðgerð og neyddist því til að fresta upphafi námsins. Hún tók síðan fyrsta áfangann vorið 2017 og hefur hún þurft að hætta í áföngum og taka löng hlé frá námi. Námið hefur því sannarlega tekið lengri tíma en ella vegna veikindanna en þrátt fyrir allt lætur Sóley ekkert stoppa sig og býr hún yfir miklu æðruleysi og jákvæðni.

„Það var oft erfitt fyrir mig að mæta þannig fjarnámið hentaði vel. Þrátt fyrir erfið tímabil á meðan náminu stóð sá ég sjúkrahúsinnlagnir og aðgerðir jafnan sem hjalla á veginum fremur en ókleif björg.“ Hún þakkar jafnframt fyrir það að hafa gott fólk í kringum sig til að hvetja sig áfram. “Stundum var skólinn íþyngjandi þegar líðanin var slæm og mig langaði að gefast upp. Það reyndist dýrmætt og bráðnauðsynlegt að hafa gott fólk í kringum mig sem hvatti mig áfram”.

Féll á mætingu

Sóley hafði áður stundað nám við annan framhaldsskóla þar sem henni var vikið úr námi vegna slakrar mætingar í kjölfar veikindanna. “Þar var ekki sami stuðningur fyrir hendi og ég fann hjá Keili. Ég er einstaklega þakklát fyrir þann skilning og stuðning sem ég fékk frá Skúla námsráðgjafa og kennurum. Skúli tók mér opnum örmum og fann ég strax að ég var komin á réttan stað.”

Þakklát fyrir tækifæri til náms á sínum hraða og forsendum

Sóley segist einnig vera þakklát fyrir það að fá tækifæri til náms á sínum hraða og forsendum. „Hjá Keili gat ég valið áfanga eftir því sem hentaði mér best sem var mjög hjálplegt. Lotukerfið hentaði mér líka vel þar sem ég gat einbeitt mér að einum áfanga í einu. Síðast en ekki síst þá er óhætt að segja að nám mitt hjá Keili hefur aukið sjálfstraust mitt og trú á að ég geti náð markmiðum mínum“.

Nýtti tímann vel þegar hún var hress

Maður spyr sig hvernig það sé hreinlega fræðilegt að ná þessum námsárangri þegar önnur stærri verkefni yfirtaka lífið. „Ég sá strax að ef ég ætlaði að geta sinnt náminu þyrfti ég alltaf að nýta tímann og læra þegar ég væri nægilega hress. Það var erfitt á tímabili en með batnandi heilsu gekk það betur. Ég lærði stundum meira en var nauðsynlegt því ég var oft hrædd um að verða of lasin til að geta klárað verkefni tímalega eða lenda í að dragast aftur úr.“

Stefnir á háskólanám

Sóley mun sannarlega ekki láta neitt stoppa sig og stefnir hún ótrauð áfram í áframhaldandi nám. Hún stefnir á háskólanám en hefur þó ekki gert það upp við sig á hvaða sviði en segist jafnframt hafa mestan áhuga á raungreinum. Sóley hefur einnig gríðarlegan áhuga á hundaatferlisfræði og hefur hún til að mynda þjálfað hundinn sinn til að nema breytingar á blóðsykri, ótrúlegt en satt. Eftir nám hennar hjá Keili stendur upp úr vinskapur og stuðningur „Það var gaman að kynnast skemmtilegum samnemendum, bæði í hópverkefnum og á vinnuhelgum. Jafnframt er minnistæður sá góði stuðningur sem ég fékk hjá starfsfólki Keilis.“

Við óskum Sóleyju innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og óskum henni velfarnaðar á nýjum slóðum.