Fara í efni

Nýtt skipurit og væntanleg vefsíða Keilis

Á haustmánuðum samþykkti framkvæmdastjórn Keilis nýtt skipurit. Tilgangur breytingarinnar var að afmarka betur kennslu- og stoðsvið, auka teymisvinnu þvert á svið, bæta þjónustu og samskipti og skýra betur starfsemi Keilis. Ný vefsíða Keilis er væntanleg með vorinu og mun hún endurspegla hið nýja skipurit betur.

Keilir er miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og er í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Hún var stofnuð árið 2007 með það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag á Suðurnesjum þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Miðstöðin og skólar hennar eru smá í sniðum og sérhæfð, með áherslu og persónulega þjónustu við nemendur, fræðasamfélag og atvinnulíf.

Samkvæmt nýju skipuriti skiptist starfsemi Keilis í fjóra skóla og þrjú stoðsvið. Stoðsviðin eru fjármálasvið, mennta- og þjónustusvið og þróunar- og markaðssvið en skólarnir eru Heilsuakademía, Háskólasetur, Menntaskólinn á Ásbrú og Flugakademía Íslands. Þá hýsir Keilir Frumkvöðlasetrið Eldey ásamt Nýsköpunarakademíu Ferðaþjónustunnar.  

Stoðsviðin

Anna María Sigurðardóttir er forstöðukona mennta- og þjónustusviðs. Helsta verkefni mennta- og þjónustusviðs er að sjá til þess að nemendum og starfsfólki Keilis sé veitt góð þjónusta í hreinum og snyrtilegum skóla. Ásamt því að hafa umsjá með Keilisgörðum, framkvæmd útskriftar, gæðastjórn, framkvæmd prófa, sinna utanumhaldi á skólanámskrá, Moodle áfangana kennsluefni fyrir kennara og nemendur ásamt fjölmörgum tilfallandi verkefnum.

Forstöðukona fjármálasviðs er Ída Jensdóttir fjármálastýra Keilis. Undir sviðið heyrir bókhald, samningagerð, rekstur, ársreikningar og innheimta ásamt fleiri verkefnum.

Þróunar- og markaðssvið Keilis heldur utan um öll markaðs- og kynningarmál, þróunar- og nýsköpunarverkefni, auk innlendra og erlendra samstarfsverkefna. Forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs er Arnbjörn Ólafsson.

Skólar Keilis

Heilsuakademían býður upp á hið rótgróna ÍAK einkaþjálfaranám, ÍAK styrktarþjálfaranám, einkaþjálfaranám á ensku, undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf í læknisfræði og leiðsögunám í ævintýraferðamennsku, nám í fótaaðgerðafræði. Þá heyra námskeið Vinnuverndarskóla Íslands nú undir Heilsuakademíu. Forstöðumaður Heilsuakademíunnar er Arnar Hafsteinsson.

Undir Háskólasetur heyrir Háskólabrú, sem löngum hefur verið vinsælasta námslínan við Keili, ásamt nýju fagháskólanámi í leikskólafræðum. Forstöðukona Háskólasetursins er Berglind Kristjánsdóttir.

Við Menntaskólann á Ásbrú er boðið upp á framsækið stúdentsnám með áherslu á tölvuleikjagerð ásamt fjölbreyttu úrvali opinna framhaldsskólaáfanga. Forstöðukona og skólameistari Menntaskólans á Ásbrú er Nanna Kristjana Traustadóttir.

Flugakademía Íslands er eini flugskólinn á landinu sem býður upp á atvinnuflugnám en bæði er hægt að leggja stund á samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugnám við skólann. Þá býður hún einnig upp á einkaflugmannsnám, námskeið í áhafnasamstarfi, flugkennaranám ásamt hagnýtum endurmenntunarnámskeiðum fyrir flugmenn og flugkennara. Forstöðumaður Flugakademíu Íslands er Kári Kárason.

Ný vefsíða

Þessa dagana er ný vefsíða Keilis í undirbúningi. Hugbúnaðarfyrirtækið Stefna sér um forritun og hönnun síðunnar í samstarfi við vefstjóra Keilis en lénið keilir.net mun halda sér. Nýrri vefsíðu er ætlað að endurspegla nýtt skipurit betur ásamt því að einfalda framsetningu og aðgengi að upplýsingum. Vegna endurhönnunar og breytinga má búast við einhverri röskun á staðsetningu upplýsinga þar til ný síða verður tekin í gagnið. Biðjumst við velvirðingar á þeim óþægindum sem slík tilfærsla kann að valda og hvetjum þá sem velkjast í vafa um hvar upplýsingar er að finna til þess að hafa samband við vefstjóra, Berglind Sunnu Bragadóttir, sem getur þá beint þeim á réttan stað.