Fara í efni

Yfir 1.500 nemendur hafa útskrifast af Háskólabrú Keilis

Mynd: Oddgeir Karlsson
Mynd: Oddgeir Karlsson
Háskólabrú Keilis brautskráði í 27 nemendur úr tveimur deildum, þar af átta úr fjarnámi við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 9. júní. Brautskráðir voru nemendur af Félagsvísinda- og lagadeild og Viðskipta- og hagfræðideild. Það sem af er ársins hafa því samtals útskrifast 102 nemendur úr Háskólabrú Keilis en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans. 
 
Samtals hafa 1.523 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og var Daði Rúnar Jónsson, fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar, heiðraður með blómvendi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Eiður Ágúst Kristjánsson með 8,96 í meðaleinkunn. Fékk hann bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir námsárangur. Erna Valdís Jónsdóttir flutti ræðu útskriftarnema.
 
Umsóknum fjölgar milli ára
 
Umsóknum í Háskólabrú Keilis fjölgar mikið milli ára og eru þær nú um tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Er þetta mesti fjöldi umsókna sem hefur borist í námið á sambærilegum tíma á undanförnum árum. 
 
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Keilir hefur brugðist við þessari þróun með því að innleiða nýjungar í kennsluháttum og fjölbreyttari fyrirkomulag námsins. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Allt miðast þetta við að nemandinn geti tekið námið á sínum forsendum. 
 
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám. 
 
Myndir frá útskrift Keilis 9. júní 2017 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)