Fara í efni

Útskrift Háskólabrúar í júní 2021

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 171 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 11. júní.  Háskólabrú brautskráði samtals 87 nemendur, 64 nemendur af Háskólabrú í fjarnámi, 23 af Háskólabrú með vinnu og 10 af Háskólabrú í staðnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar.

Dúx Háskólabrúar var Eyjólfur Örn Auðunsson með 9,68 í meðaleinkunn og fékk hann gjafabréf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá hlaut Hildur María Jónsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju. Sigríður Ella Kristjánsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.