Fara í efni

Umsóknarfrestur í Háskólabrú með vinnu

Hefur þú alltaf stefnt á háskólanám en hefur ekki lokið framhaldsskóla? Keilir býður nú upp á aðfaranám að háskólanámi í fjarnámi til tveggja ára. Um er að ræða frábæran möguleika fyrir þá sem að vilja taka Háskólabrú með vinnu eða vilja taka sér lengri tíma í námið.

Háskólabrú með vinnu er kennt í fjarnámi og hefst námið föstudaginn 27. nóvember næstkomandi. Opnað hefur verið fyrir umsóknir og er hægt að sækja um til 20. nóvember. Námið er tekið á tveimur árum og er skipulagt eins og fjarnám Háskólabrúar. Boðið er upp á fjórar deildir: 

  • Félagsvísinda- og lagadeild
  • Hugvísindadeild
  • Viðskipta- og hagfræðideild
  • Verk- og raunvísindadeild

Staðlotur eru þrisvar á önn, þar sem kennt er á föstudegi og laugardegi hverju sinni. Æskilegt er að nemendur mæti á staðlotur. Námið fer fram í formi fyrirlestra og verkefna. Lokapróf eða lokaverkefni eru í lok hverrar námsgreinar. Öll lokapróf eru tekin á viðurkenndum prófstöðum.

Nánari upplýsingar um Háskólabrú með vinnu

Nýtt tækifæri til náms

Um 1.300 einstaklingar hafa lokið námi í Háskólabrú Keilis og hefur námið undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur, ásamt því að miða kennsluhætti við þarfir fullorðinna nemenda. Miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Skipulag námsins hentar fullorðnum námsmönnum einstaklega vel þar sem kennt er í lotum, nemendur einbeita sér að einum áfanga í einu sem tekur um fimm vikur.