Heimir Heimisson, nemandi á Háskólabrú Keilis, flutti ræðu útskriftarnema við brautskráningu nemenda föstudaginn 18. janúar 2019. Hann gaf okkur góðfúslegt leyfi til að birta ræðuna sína. Við þökkum Heimi fyrir og óskum honum velfarnaðar.
Ræða útskriftarnema Háskólabrúar
Góðan daginn kæru samnemendur, kennarar og aðrir gestir.
Í janúar 1999 byrjaði ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og var það fyrsta tilraun mín af sex til þess að klára stúdentinn.
Eftir þrjú ár í skóla og engan árangur til þess að sýna fram á, sætti ég mig við það að ég og skólakerfið ættum einfaldlega enga samleið, skellti ég mér því á atvinnumarkaðinn og taldi námsdaga mína talda.
Mér til mikillar furðu fékk ég símtal frá námsráðgjafa Mímis-Símenntunar haustið 2016 sem tilkynnti mér það að ég ætti bókaðan tíma í viðtal hjá henni þar sem ég hefði skráð mig í nám hjá þeim. Það var bara einn hængur á, ég hafði ekki skráð mig í neitt nám, en þar sem ég varð eins og kleina þegar hún hringdi samþykkti ég að hitta hana daginn eftir.
Ég komst svo að því að vinnufélagi minn sem var við nám í Keili á þessum tíma var búinn að gefast upp á því að hlusta á mig tala um að ég ætlaði einhvern tímann að fara aftur í skóla og halda áfram að mennta mig, þannig hann tók það upp á sitt einsdæmi að skrá mig í Mími.
Mér fannst það auðvitað illa gert á þeim tíma, en er þakklátur fyrir þessa afskiptasemi hans í dag, enda er ég staddur hér, ásamt ykkur að ljúka námi í Keili. Eitthvað sem ég sennilega hefði aldrei gert því mér leið ágætlega í þeim hversdagsleika sem ég hafði búið mér til.
Það var ekki fyrr en ég var byrjaður í Keili sem ég áttaði mig á því að ég og skólakerfið ættum bara ágætlega vel saman þegar uppi var staðið, þrátt fyrir brösótta byrjun fyrir mörgum árum. Munurinn í dag var sá að ég var að mennta mig fyrir mig, ekki því ég átti að gera það, eða mamma sagðir mér að gera það, heldur því mig langaði virkilega til þess og ekki skemmdi fyrir að maður hafði þroskast aðeins meira til þess að takast á við þessa vinnu sem námið er.
Ástæðan fyrir því að ég valdi Keili, var sú að mér þykir námsframboðið hérna til fyrirmyndar og möguleikinn á fjarnámi einstaklega hentugt fyrir fólk í vinnu og með fjölskyldu þannig maður getur skipulagt námið í kringum sitt daglega líf.
Mér til mikillar ánægju komst ég strax að því að allt utan um hald, kennarar og starfsmenn hérna í Keili er til fyrirmyndar. Mér finnst aðdáunarvert hversu aðgengilegir kennararnir í fjarnáminu eru, því það skipti nánast engu hvaða dagur var eða hvað klukkan sló, oftast fékk maður aðstoð og svör þegar óskað var eftir því, engan vegin sjálfsagt og þess vegna ber að hrósa því hversu frábær þau eru upp til hópa, og þar sem ég er búinn að fá allar einkunnir þá er augljóst að ég er að meina þetta, en ekki að reyna að koma mér í mjúkinn hjá þeim.
Persónulega verð ég að minnast sérstaklega á einn kennara, og það er hann Gísli stærðfræðikennari. Eftir að hafa tekið 6 stærðfræði áfanga á sínum tíma og falla í þeim öllum sór ég þess eið að ég myndi sko aldrei reyna aftur við stærðfræði, en þessum einstaka manni tókst ekki bara að vekja áhuga minn á stærðfræði, heldur tókst honum að gera hana áhugaverða og skemmtilega. Gísli á það til að segja oft leikum okkur aðeins með þetta dæmi og þegar ég heyrði hann segja þetta í fyrsta sinn hugsaði ég með mér hann er eitthvað ruglaður þessi kall. En það breyttist svo sannarlega skjótt því hann virkilega hefur ástríðu fyrir þessu og sú ástríða smitaðist fljótt yfir til mín sem gaf mér metnað að komast yfir þennan þröskuld sem stærðfræðin reynist svo mörgum.
Ég kveð nú Keili með gleði í hjarta yfir að þessum kafla sé nú loksins lokið, nokkrum árum á eftir áætlun og jákvæðu hugarfari gagnvart áframhaldandi háskólanámi í haust.
Keilir, takk fyrir mig.
Heimir F. Heimisson,
Útskrift Háskólabrúar, 18. janúar 2019