Fara í efni

Fjöldi umsókna í fjarnám Háskólabrúar

Líkt og undanfarin ár hefur mikill fjöldi umsókna borist í fjarnám Háskólabrúar Keilis fyrir vorönn 2013, en árlega eru innritaðir yfir hundarð nýnemar.

Verið er að vinna úr umsóknum og verður að haft samband við alla umsækjendur fyrir miðja næstu viku. Umsóknarfrestur um fjarnám í Háskólabrú er liðinn, en tekið er við umsóknum á biðlista fram til 28. desember.

Á Háskólabrú Keilis er boðið upp á nám fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi og eru teknir inn nemendur tvisvar á ári, í staðnám á haustin og fjarnám í byrjun ársins. Rúmlega 300 nemendur stunda nú nám á Háskólabrú og eru tæplega helmingur þeirra í fjarnámi. Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla og telst námið sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis og Háskóla Íslands.

Meirihluti þeirra nemenda sem sækja aðfaranám að háskólanámi á Íslandi hafa undanfarin ár valið að stunda nám sitt í Háskólabrú Keilis. Skólinn hefur þannig náð að skipa sér sess sem öflug menntastofnun, þar sem kennsluhættir leggja áherslu á þarfir fullorðinna nemenda og persónulega þjónustu. Keilir er í fararbroddi varðandi kennslutækni í fjarnámi, sem hentar þeim sem að vilja nýta sér nýjustu tækni í kennslu og haga námstímanum eftir sinni eigin þörf.

Rúmlega 700 manns hafa útskrifast úr Háskólabrú Keilis síðan skólinn hóf starfsemi og hafa langflestir þeirra valið að halda áfram í námi. Brautskráðir nemendur Háskólabrúar stunda nú nám á flestum sviðum Háskóla Íslands, fjölda annarra háskóla bæði hérlendis og erlendis, auk þess sem margir velja að vera áfram hjá Keili og leggja stund á BS nám í tæknifræði.